Árið 2006

Árið 2006 er senn á enda. Þetta ár fór bara nokkuð vel með mig, svona megnið af því allavega. Það byrjaði í Grýtubakka 18 með Óla, Önnu Steinu og Ásgeiri og það endar á Rauðhólum með mömmu og pabba. Það voru engir stórir áfangar í lífi mínu á þessu ári (enda bæði ný íbúð og háskólaútskrift á síðasta ári) en samt var það viðburðaríkt.

Hápunktar ársins voru tvær utanlandsferðir. Við Óli fórum saman til Skotlands seinnipartinn í apríl. Vorum bæði í Glasgow og Edinborg og fórum einnig út á land í Skotlandi og skoðuðum m.a. Loch Ness. Þetta var yndisleg ferð og við áttum góða daga. Ég fór svo með þjóðfræðinemum til Svíþjóðar í byrjun ágúst. Fyrst vorum við í nokkra daga í Stokkhólmi en héldum svo til Gotlands. Það var líka yndisleg ferð með skemmtilegu fólki sem var gaman að kynnast betur.
Vonandi fer ég fljótt aftur bæði til Skotlands og Svíþjóðar.

Ég var nokkuð dugleg við að fara austur á land þetta árið. Fyrst fór ég til Norðfjarðar í febrúar yfir helgi m.a. til að skoða nýrisið hús Svenna bróður og Hrannar. Svo fór ég á Vopnafjörð í sauðburð í lok maí. Kom aftur í júlí á Vopnafjörð og fékk þá að fara í smá heyskap sem mér fannst afskaplega gaman, fór líka á ball í Miklagarði og hafði gaman af. Í lok ágúst féll elsku Unnur frænka frá og ég fór austur á Norðfjörð til að vera við jarðarförina hennar. Náði í leiðinni að hitta ættingjana og fara í berjamó, en það hafði ég ekki gert í mörg ár (fara í berjamó semsagt). Og er nú aftur á Vopnafirði í langri jólaheimsókn.

Það var mikil gleði í lok júlí þegar Svenni bróðir tilkynnti mér að ég væri að verða föðursystir. Hrönn mágkona á von á sér undir lok janúar. Þá verð ég virðuleg uppáhaldsfrænka, geri ég ráð fyrir 🙂

Nú er að ljúka fyrsta heila árinu sem ég er vinnandi manneskja. Ég er að vinna hjá Borgarbókasafninu og kann því yfirleitt vel. Mér líkar svo vel að vera „bara“ að vinna að ég hætti í námi í Opinberri stjórnsýslu sem ég byrjaði á í haust. Mér finnst ágætt að hafa kvöldin og helgar lausar fyrir það sem mig langar mest að gera þá og þegar.

Ég fékk stjörnusjónauka í afmælisgjöf og notaði hann töluvert síðasta vetur og vor. Hef ekki enn komið mér út með hann í haust en er alltaf að lesa mér til og kíkja í Almanakið sem er biblía þeirra sem hafa áhuga á gangi himintunglanna. Heimurinn er stórkostlegur.

Ég varð formlegur meðlimur í Vantrú á árinu og fór að stunda samkomur þess félagsskapar. Í nóvember var ég kosin í stjórn félagsins og er þar virðulegur meðstjórnandi. Þetta er skemmtilegur félagsskapur með fallegar hugsjónir.

Í nóvember gerðist ég líka svo fræg að ganga í stjórnmálaflokk. Vinstri-græn urðu að sjálfssögðu fyrir valinu. Í byrjun desember tók ég svo þátt í því að velja fólk til að sitja á lista fyrir næstu Alþingiskosningar. Go Katrín, Auður og Steinunn 🙂

Árið átti líka sína lágpunkta en ætli ég fari nokkuð nánar út í það hér.

Það sem stendur upp úr er allt fólkið sem deildi árinu 2006 með mér. Vinir, ættingjar, vinnufélagar og kunningjar. Þið eruð frábær og ég hlakka til að hitta ykkur öll á nýju ári.

Vonandi ber árið 2007 eitthvað gott og skemmtilegt með sér fyrir okkur öll.

Gleðilegt nýtt ár!
…takk fyrir það gamla 🙂

Jól

Ég átti góð jól hérna í sveitinni, og þau standa svo sem enn yfir.

Ég vaknaði í grautinn á aðfangadag. Pabbi fékk möndluna í þetta skipti en litla dekurbarnið fékk að opna pakkann, í honum var hrjótandi jólasveinn. Við mamma fórum svo í jólabaðið í sundlauginni eftir hádegið. 

Aðfangadagskvöld var yndislegt eins og alltaf. Ég fékk rjúpur að borða eins og síðustu 23 ár. Mamma borðaði rjúpur í fyrsta skipti þegar hún var ólétt af mér og við höfum gert það síðan. Rjúpur eru æði, einu sinni á ári. Eftir matinn opnaði ég jólakortin mín. Ég lærði það af Óla að opna öll kortin á aðfangadagskvöld og það finnst mér skemmtilegur siður. Yndisleg stund. Takk þið sem senduð mér kort, þið eruð mér öll mikils virði. Mér finnast jólakort reyndar svo yndisleg að ég fletti þeim allavega annan hvern dag um jólin. Svo var ís og uppvask og þá var komið að stóru stundinni…að opna pakkana! Ég fékk margt fallegt og skemmtilegt í jólagjöf en ég ætla ekki að telja það allt upp hér. Takk fyrir mig.

Jóladagur var rólegur. Byrjaði náttúrlega á hangikjöti. Ég fór síðan með pabba í fjárhúsin eftir hádegið og hafði gaman að, tók heilmikið af myndum. Svo horfuðum við á teiknimyndir m.a. á Múmínálfana sem eru náttúrlega æði. Svo var jólaboð hjá ömmu, afa og Ástu Hönnu um kvöldið. Ég fékk möndluna! 🙂 og fékk að launum tvær flottar jólakönnur. Svo horfuðum við á sjónvarp, spiluðum og spjölluðum.

Við mamma fórum austur á Norðfjörð á annan í jólum. Það var jólaboð hjá afa og þar var mikið af fólki, enda fjölskyldan stór og fer stækkandi (bæði hvað varðar fjölda og mittismál ;)) Það var gaman að hitta alla. Við fórum svo í mat til Gríms og Sýbillu, tengdaforeldra Svenna, um kvöldið. Ég gisti hjá Svenna og Hrönn, var fyrsti næturgesturinn þeirra í nýja, flotta húsinu skylst mér. Áður en við fórum að sofa spiluðum við Svenni svolítið og ég vann alltaf, komst líka að því að Svenni er alveg jafnlélegur í hugarreikningi og ég 😉
Við mamma keyrðum svo heim daginn eftir.

Í dag fórum við mamma í sund og svo aðeins í heimsókn til ömmu, afa og Ástu. Dísa, vinkona mömmu og Lea, dóttir hennar komu svo í mat í kvöld.

Á morgun er gullbrúðkaup hjá ömmu og afa! Það er nú ekki svo lítið afrek hafa verið giftur í 50 ár!

Jólaskýrslu lokið í bili. Góða nótt!

Kók með okkur öllum um jólin

Hér má sjá yndislegustu jólaauglýsingu allra tíma

I’d like to buy the world a home and furnish it with love,
Grow apple trees and honey bees, and snow white turtle doves.
I’d like to teach the world to sing in perfect harmony,
I’d like to buy the world a Coke and keep it company.
I’d like to teach the world to sing in perfect harmony,
I’d like to buy the world a Coke and keep it company.
It’s the real thing, Coke is what the world wants today.

Gleðileg jól!

Jól á morgun

There magic in the air this evening
Magic in the air
The world is at her best, you know
When people love and care
The promise of excitement is one the night will keep
After all, there’s only one more sleep til Christmas

The world has got a smile today
The world has got a glow
There’s no such thing as strangers when
A stranger says hello
And everyone is family, we’re having so much fun
After all, there’s only one more sleep til Christmas

Tis the season to be jolly and joyous
With a burst of pleasure, we feel it all right
It’s the season when the saints can employ us
To spread the news about peace and to keep love alive

There’s something in the wind today
That’s good for everyone
Yes, faith is in our hearts today
We’re shining like the sun
And everyone can feel it, the feeling’s running deep
After all, there’s only one more sleep til Christmas
After all, there’s only one more sleep til Christmas day

Góða nótt :*

Komin í sveitina

Þá er ég komin í sveitina mína. Það gekk ekki alveg átakalaust fyrir sig. Ef allt hefði verið á áætlun hefði ég verið komin klukkan 10 í gærmorgun en ég kom klukkan 8 í gærkvöldi.

Á Reykjavíkurflugvelli var algjört kaos. Þar þurfti ég að bíða í 5 klukkutíma, mér til mikillar skemmtunar. Var reyndar á tímabili að spá í að fá far hjá Írisi og Hrafnkeli en ákvað svo að taka ekki sjensinn á að missa af tengifluginu til Vopnafjarðar.
Ég náði svo síðasta flugi til Akureyrar áður en öllu flugi var aflýst í gær. Hjúkkit. En ég fór í loftið um það leyti sem vinnudeginum mínum hefði átt að ljúka, vel farið með það frí. Fékk svo að bíða í klukkutíma á Akureyri. Þá var flogið til Þórshafnar og svo keyrt yfir á Vopnafjörð. Mjög skemmtilegt ferðalag eða þannig, en rosalega var ég samt fegin að komast alla leið.

En mikið voru vinnubrögð Flugfélagsins undarleg. Svona svipað og hjá Náttúrugripasafninu…eins og það væri ekki til nein viðbragðsáætlun.

Smáauglýsingar

Óska eftir kærasta  

Hann verður að vera…
…vinstrisinnaður (algjört skilyrði! ;))
…trúlaus eða a.m.k. sinnulaus
…háskólamenntaður eða a.m.k. með stúdentspróf
…útivistartýpa eða a.m.k. hafa áhuga á því að fara á fjöll
…sveitamaður eða a.m.k. móttækilegur fyrir sveitarómantíkinni
…íslenskumælandi (ég er bara ekki nógu góð í neinu öðru tungumáli til að eiga í ástarsambandi á því ;))
…svolítið fyrir augað, það spillir allavega ekki fyrir 🙂

Eða nei annars, ekki alveg strax, en þið megið hafa mig í huga 😉 Mér skylst á Nils vini mínum að ég verði 9 mánuði að jafna mig, svo ég fer að spá í þetta næsta haust…

Sbarro – ekkert spes

Borðaði á Sbarro í Kringlunni í gærkvöldi. Fékk mér Spaghetti Bolognese. Það var ekkert spes og svo er staðurinn í dýrari kantinum miðað við svona skyndibita. Spurning hvort maður gefur þessum stað annan sjens. Held ég fari frekar á Subway eða Serrano þegar ég borða næst í Kringlunni.