Jól

Ég átti góð jól hérna í sveitinni, og þau standa svo sem enn yfir.

Ég vaknaði í grautinn á aðfangadag. Pabbi fékk möndluna í þetta skipti en litla dekurbarnið fékk að opna pakkann, í honum var hrjótandi jólasveinn. Við mamma fórum svo í jólabaðið í sundlauginni eftir hádegið. 

Aðfangadagskvöld var yndislegt eins og alltaf. Ég fékk rjúpur að borða eins og síðustu 23 ár. Mamma borðaði rjúpur í fyrsta skipti þegar hún var ólétt af mér og við höfum gert það síðan. Rjúpur eru æði, einu sinni á ári. Eftir matinn opnaði ég jólakortin mín. Ég lærði það af Óla að opna öll kortin á aðfangadagskvöld og það finnst mér skemmtilegur siður. Yndisleg stund. Takk þið sem senduð mér kort, þið eruð mér öll mikils virði. Mér finnast jólakort reyndar svo yndisleg að ég fletti þeim allavega annan hvern dag um jólin. Svo var ís og uppvask og þá var komið að stóru stundinni…að opna pakkana! Ég fékk margt fallegt og skemmtilegt í jólagjöf en ég ætla ekki að telja það allt upp hér. Takk fyrir mig.

Jóladagur var rólegur. Byrjaði náttúrlega á hangikjöti. Ég fór síðan með pabba í fjárhúsin eftir hádegið og hafði gaman að, tók heilmikið af myndum. Svo horfuðum við á teiknimyndir m.a. á Múmínálfana sem eru náttúrlega æði. Svo var jólaboð hjá ömmu, afa og Ástu Hönnu um kvöldið. Ég fékk möndluna! 🙂 og fékk að launum tvær flottar jólakönnur. Svo horfuðum við á sjónvarp, spiluðum og spjölluðum.

Við mamma fórum austur á Norðfjörð á annan í jólum. Það var jólaboð hjá afa og þar var mikið af fólki, enda fjölskyldan stór og fer stækkandi (bæði hvað varðar fjölda og mittismál ;)) Það var gaman að hitta alla. Við fórum svo í mat til Gríms og Sýbillu, tengdaforeldra Svenna, um kvöldið. Ég gisti hjá Svenna og Hrönn, var fyrsti næturgesturinn þeirra í nýja, flotta húsinu skylst mér. Áður en við fórum að sofa spiluðum við Svenni svolítið og ég vann alltaf, komst líka að því að Svenni er alveg jafnlélegur í hugarreikningi og ég 😉
Við mamma keyrðum svo heim daginn eftir.

Í dag fórum við mamma í sund og svo aðeins í heimsókn til ömmu, afa og Ástu. Dísa, vinkona mömmu og Lea, dóttir hennar komu svo í mat í kvöld.

Á morgun er gullbrúðkaup hjá ömmu og afa! Það er nú ekki svo lítið afrek hafa verið giftur í 50 ár!

Jólaskýrslu lokið í bili. Góða nótt!