Netlögregla

Við í VG vinnum hratt – við framkvæmum. Netlöggan er þegar tekin til starfa.

Hvenær ætlar Steingrímur J. annars að koma fram og segja okkur hvað hann átti við með netlögreglu? Ég held að það sé brýnt að hann geri það til að fólk hætti að fambúlera um þetta.

Landsfundur

Ég var á landsfundi Vinstri Grænna um helgina. Það var áhugavert. Nú veit ég aðeins meira um það hvernig stjórnmál virka. Stjórnmál snúast um mjög margt og maður yrði sennilega geðveikur af því að kafa djúpt í alla málaflokka.
Í meginatriðum er ég sammála því sem Vinstri Græn standa fyrir en ég efast líka um sumt. Í einu máli veit ég ekki hvar Vinstri Græn standa. Það er varðandi aðskilnað ríkis og kirkju. Vonandi skýrist það á næstu vikum. Ung Vinstri Græn komu fram með ályktun um aðskilnað á landsfundinum en flokkurinn í heild sinni virðist ekki alveg tilbúin til að stíga það skref. Ég hefði viljað sjá málefnahóp um kirkjumál á landsfundinum, því það er brýnt að ræða þessi mál. Ég hefði líka viljað fá kosningu ályktunina um aðskilnað ríkis og kirkju á fundinum. En svona virkar víst lýðræðið?

Í dag varð ég fullorðin…

Í dag fékk ég gleraugu. Ákvað að það væri tímabært fyrst ég er að fara á minn fyrsta Landsfund Vinstri grænna um helgina. Þar sem ég hef ekkert merkilegt fram að færa, þá verð ég að minnsta kosti að líta gáfulega út 😉

Það var annars áhugavert að keyra heim með nýju gleraugun. Þvílík skerpa! Ég sá lengst uppí Breiðholt neðan úr bæ. Fjöllin voru ótrúlega skýr. Og ég sá á götuskiltin. Ég var reyndar svo upptekin af öllum smáatriðunum í fjarska að það truflaði mig aðeins við aksturinn, en það slapp.

Annars allt gott að frétta. Ýmislegt hefur á daga mína drifið. Skrifa kannski meira um það seinna.

Eygló nærsýna

Ég fór til augnlæknis fyrir rúmri viku til að láta mæla í mér sjónina. Niðurstaða: Ég er nærsýn, með mínus einn á báðum.

Ég var búin að fá nokkur merki um að sjónin í mér væri nú kannski ekki alveg í lagi og þess vegna fór ég og lét tékka á þessu. Ég þarf gleraugun fyrst og fremst þegar ég er að horfa á sjónvarpið, keyra (sérstaklega á kvöldin) og annað sem krefst þess að ég sjái vel frá mér.

Ég er búin að fara í tvær gleraugnaverslanir, Optical Studio í Smáralind og Augað í Kringlunni, og máta gleraugu. Fann gleraugu í báðum búðunum sem ég gat alveg sætt mig við. Þau kostuðu á bilinu 25-30 þúsund.
Það skal tekið fram að ég get ekki keypt gleraugu fyrir smáaura í Tiger eða Bónus. Það eru bara fjarsýnisgleraugu.

Hvað segið þið þarna úti? Hvað er eðlilegt verð á gleraugum? Er eitthvað sérstakt sem maður þarf að hafa í huga þegar maður er að velja gleraugu? Hvaða gleraugnaverslunum mælið þið með?

Jafnrétti

Jafnrétti er mér hugleikið.

Ég vil að konur og karlar standi jafnfætis í þjóðfélaginu. Að kyn skipti ekki máli þegar við veljum okkur nám, vinnu, áhugamál o.s.frv. Að kyn skipti ekki máli þegar við fáum launin okkar, þegar við sinnum húsverkum, þegar við önnumst börnin okkar o.s.frv.

Ég hristi stundum hausinn yfir „þessum femínistum“ en ég held að þeir (ég veit þó ekki alveg hversu hlynnt ég er femínískri málfræði) séu samt nauðsynlegir í samfélaginu. Femínistar vekja okkur til umhugsunar.
Mér finnst samt konur hafa gengið nógu langt í því að líkjast körlum. Ef þú vilt breyta heiminum, byrjaðu á sjálfum þér. Ég held að við konur séum búnar að breyta okkur nóg í bili. Nú finnst mér vera kominn tími á karlanna að breyta heiminum. Þeir hafa auðvitað nálgast okkur t.d. með því að annast börn og húsverk í ríkara mæli. En ég vil sjá breytingar á fleiri sviðum. Ég vil t.d. sjá átak í því að hvetja karlmenn til að læra kvennafög s.s. hjúkrunarfræði, leik- og grunnskólakennslu og bókasafns- og upplýsingafræði. Við þurfum að hafa karla og konur allsstaðar í öllum störfum og helst í sem jöfnustum hlutföllum. Börnin okkar verða að geta séð að þú getur orðið hvað sem er, óháð kyni. Við þurfum fyrirmyndir af báðum kynjum.

Ég vil alltaf að hæfasti einstaklingurinn fái starfið. Þessa setningu heyrir maður oft í umræðu um jafnréttismál. Ég tek heilshugar undir en ég vil samt meina að kona sé miklu oftar hæfasti einstaklingurinn heldur en menn vilja vera að láta. Mér finnst alltaf jafnkjánalegt þegar Sjálfsstæðiskonur koma fram eftir prófkjör og kosningar og lýsa yfir vonbrigðum með skarðan hlut kvenna, bæta svo að hæfustu einstaklingarnir eigi að komast að. Sjálfsstæðiskonur eru bara greinilega ekki nógu hæfar.

Ég skoðaði heimasíður allra stjórnmálaflokkanna í dag. Fór þá að spá hvort allir flokkar nema VG væru með kvenfélög. Komst að því að aðeins Framsóknarflokkurinn og Sjálfsstæðisflokkurinn eru með slík félög. Svolítið merkilegt í ljósi þess að konur standa fremur illa í þessum stjórnmálaflokkum, sérstaklega Sjálfsstæðisflokknum. Sennilega eru þessi félög ennþá starfandi vegna hefðar enda Framsóknarflokurinn stofnaður 1916 og Sjálfsstæðisflokurinn 1929. Mér finnst gott að vera í flokki þar sem ekki er þörf fyrir svona félög. Konur eru ekki minnihlutahópur í VG sem þarf sérpartý, strákarnir koma í partý með okkur.

Hver er stefna Sjálfsstæðisflokksins?

Ég átti skemmtilegt samtal á fimmtudagskvöldið samt vakti mig til umhugsunar um stefnur stjórnmálaflokka. Ég fór að skoða málið núna áðan og fór inná heimasíður stjórnmálaflokkanna fimm í leit að stefnum flokkanna. Á öllum síðunum var að finna einhverja stefnu. Í fjórum tilfellum var um að ræða fremur stuttar og hnitmiðaðar stefnur þar sem kom skýrt fram hver væru áhersluatriði flokkanna. En stefna Sjálfstæðisflokksins er ritlingur sem Davíð Oddsson skrifaði árið 1981! Hún er ekkert sérstaklega hnitmiðuð og stór hluti hennar fer í tala um sögu Sjálfsstæðisflokksins og hvað hann sé nú miklu betri en svokallaðir félagshyggjuflokkar.

Ég veit vel að stefnur flokkanna grundvallast líka á ýmsum yfirlýsingum og ályktunum og síðast en ekki síst verkum flokkanna. Mér finnst samt lágmark að stjórnmálaflokkar marki sér stutta og hnitmiðaða stefnu sem segir hvað flokkurinn stendur fyrir.

Reyndar er ekkert alltaf að marka stefnur flokkanna. Ef ég læsi bara stefnu Framsóknarflokksins og vissi ekkert meira um flokkinn þá gæti ég vel hugsað mér að kjósa hann.

Stefna Vinstri Grænna

Stefna Samfylkingarinnar

Stefna Framsóknarflokksins

Stefna Frjálslynda flokksins

Stefna? Sjálfstæðisflokksins