Fermingarafmæli, egg og gleraugu

Ég gleymdi 10 ára fermingarafmælinu mínu! Og það var enginn að minna mig á það! Ég fermdist 23. mars 1997 og átti því 10 ára fermingarafmæli á föstudaginn. En það verður haldið uppá það með pomp og prakt (og hvítvíni) í sumar með fermingarsystkinunum.

Ég keypti mér Haribo-nammiegg í Bónus áðan. Loksins fæ ég páskaegg sem mér finnst bragðgott. En ætli ég verði samt ekki að skella mér á eitt lítið Nóa-egg líka, svona til að fá málshátt.

Gleraugun mín eru skítug.

Helgin

Þá er helgin að baki. Virkilega skemmtileg en voðalega er ég samt eitthvað þreytt.

Borðuðum með Svenna, Hrönn, Frey og Bryndísi á fimmtudagskvöldið. Mjög gaman að hitta þau og Freyr var svo tillitsamur að brosa til mín 🙂

Fór á ráðstefnu í tilefni 50 ára afmælis kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði á Íslandi á föstudaginn. Margir skemmtilegir fyrirlestrar og skemmtilegt spjall í öllum löngu tengslanetshléunum.

Fór í vísindaferð í Framsóknarflokkinn á seinnipartinn á föstudaginn. Það var ljómandi skemmtilegt og hvítvínið rann svo sannarlega ljúflega (og hratt) niður. Það voru líflegar umræður og Jónína Bjartmarz staðfesti að Framsókn er ekkert að fara að halla sér til vinstri í vor og heyrðist mér á öllu að Framsókn vildi helst taka upp slagorð Sjallanna; Stétt með stétt. En þetta var virkilega skemmtilegt, enda er ég mikil áhugamanneskja um pólitískar umræður (og hvítvín).

Svo var hátíðarkvöldverður með bókasafns- og upplýsingafræðingum. Þriggja rétta máltíð á Hótel Sögu í góðum félagsskap (og meira hvítvín!).

Náði í ömmu og Ástu Hönnu á flugvöllinn um hádegi á laugardaginn. Borðuðum í Norræna húsinu ásamt Svenna og Frey (sem var reyndar nýbúinn að fá sinn hádegisverð). Þær voru að sjá Frey í fyrsta sinn.

Í gærkvöldi var matarboð hjá Halla bókasafns- og upplýsingafræðingi. Þar var ég í þeirri skemmtilegu stöðu að vera eina stelpan með fjórum karlkyns bókasafns- og upplýsingafræðingum (Nilli hefur reyndar engan rétt á bera þennan fallega titil en starfar samt sem slíkur). Það eru ca. jafnmargir karlmenn og voru á hátíðarkvöldverðinum á föstudaginn, nema hvað þar voru líka 75 konur! Því miður komst Hjördís ekki en vonandi getur klíkan hist öll í einu fljótlega. En hvað um það þetta var þriggja rétta máltíð sem er einhver sú besta sem ég hef fengið lengi (Hótel Saga átti aldrei sjens í þessa máltíð) og hvítvín og rauðvín eins og maður gat í sig látið. Frábært kvöld í góðum félagsskap. Er ekki bara málið að stofna matarklúbb? (og borða alltaf hjá Halla 😉 )

Í dag fór ég með ömmu í hádegismat í Bakarameistarann og svo í Kringluna. Keyptum ekkert nema Biblíu. Svo var haldið á Langholtsveginn til Gullu. Alltaf gaman að koma þangað. Amma var semsagt „au-pair“ hjá Gullu árið 1952 og pabbi bjó hjá henni einn vetur ca. 1973.

Kvöldið fór svo bara í afslöppun og tiltekt.

Vinnuvikan er framundan.

Hitt og þetta

Ég hef ekki nagað neglurnar í hátt í fjóra mánuði núna, ég held að það sé met. Það er gott að vera með snyrtilegar neglur. „Vanskapaða“ nöglin mín lítur meira að segja bara nokkuð vel út. Ég hlýt að hafa byrjað að naga hana í móðurkviði og þess vegna sé hún svona. Þegar ég fell í nagbindindi þá verður hún líka alltaf fyrsta fórnarlambið. Greyið litla. Ég fór í handsnyrtingu um daginn til að verðlauna mig fyrir dugnaðinn. Það var ágætt, samt kannski ekki alveg peninganna virði, bara betra að gera þetta í rólegheitum heima nema maður vaði í peningum.

Ég gerði skattaskýrsluna í gær. Það tók ca. hálftíma. Einfaldara núna en í fyrra þegar við vorum með íbúðakaup á skýrslunni. Þetta er afskaplega einfalt núna þegar búið er að færa flestar tölur inn fyrirfram og það sem uppá vantar er að mestu leyti hægt að flytja úr heimabankanum. Stundum einfalda tölvur lífið. Og, já það stefnir í gott partý 1. ágúst 🙂

Ég hitti Flóka Nilla- og Sibbuson í fyrsta skipti á föstudaginn. Hann er voða sætur. Hann sýndi okkur bæði sínar verstu og bestu hliðar. Hann var ekkert of glaður með að ég væri að halda á honum (enda kannski ekki með vönustu hendur í heimi þegar kemur að ungabörnum, en það lagast vonandi einn daginn ;)) en svo var hann voða kátur með að fá að sitja sjálfur og spjalla við mömmu sína. Flóki er einum degi yngri en Freyr frændi. Eftir heimsókina til Flóka er ég farin að hlakka enn meir til að hitta Frey um næstu helgi, því hann hefur örugglega breyst heilan helling síðan ég sá hann síðast.

Ég skúraði í dag. Það gerist sjaldan en er afskaplega vandað þegar það gerist. Klappið fyrir mér.

Við Óli erum búin að vera saman í 2 mánuði og ætlum að halda því áfram.

Á lífi

Ég er á lífi og hef það fínt. Blogga þegar ég verð í stuði til þess. En þið megið endilega skilja eftir athugasemdir í þartilgerðu kerfi svo ég viti að þið séuð á lífi líka.

Bjór

Okkur Óla virðist vera afskaplega vel treystandi fyrir bjór. Nú er svo komið að fjórar manneskjur eiga bjór á heimili okkar.

Rósa: 2 litlir Víkíng
Heiða: 1 Carlsberg í flösku
Hjördís Páls: 1 stór Lite
Sigrún Ísleifs: 1 lítinn Víking

Bjórarnir fara á uppboð í næsta partýi ef eigendur vitja þeirra ekki fljótlega.

Afmælismyndir

Var að setja inn myndir frá afmælinu í gærkvöldi. Myndirnar eru hér fyrir þá sem eru búnir að skrá sig á myndasíðuna. Aðrir þurfa að skrá sig hér – og bíða samþykkis. Ekki vera feimin við að skrá ykkur.

Bekkjarmót?

Nú er kominn mars. Er eitthvað að frétta af bekkjarmóti? Hef ekkert heyrt. Verð að yfirheyra stelpurnar annaðkvöld. Hvernig væri að opna bloggsíðu fyrir liðið og jafnvel myndasíðu líka. Ég er farin að huga að því að skanna allar fallegu grunnskólamyndirnar 😉 Ég er kannski skipulagsfrík en það verður samt að fara að láta alla vita svo menn geti skipulagt sumarfríið með þetta í huga.

Landsvirkjun og jafnrétti

Fór í vísindaferð með Þjóðbrók í Landsvirkjun í dag. Þar var kyrjaður fallegur svanasöngur um ágæti Landsvirkjunar. Jújú, vissulega stöndum við okkur vel miðað við mörg önnur ríki heimsins. Vissulega er betra að nota vatnsafl heldur en olíu og kol til að búa til rafmagn. Mér finnst samt algjör óþarfi að virkja jökulárnar okkar með tilheyrandi lónum sem fyllast af aur á „nokkrum árum“ (hef heyrt tölur á bilinu 80-400 ár). Mér finnst líka að við hefðum getað gert margt „skemmtilegra“ fyrir 100 milljarða en að byggja Kárahnjúkavirkjun.

En að öðru. Getur einhver lunkinn femínisti útskýrt fyrir mér hvað kynjuð fjárlagagerð og kyngreindar upplýsingar þýðir? Ég þarf sennilega að læra meira í kynjafræði. Femínistar skilgreina sig sem karl eða konu sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Ég velti því fyrir mér hvort að jafnréttissinni sé karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið ná og vill ekki gera neitt í því. Ég vil meina að ég sé jafnréttissinni og vilji gera eitthvað til að ná jafnrétti. En ég vil jafnrétti fyrir bæði kynin. Ég vil að þegar rætt er um kynfrelsi eigi það bæði við um kynfrelsi kvenna og karla. Ég vil að bæði karlar og konur sem verða fyrir heimilisofbeldi fái vernd. Ég vil úrræði fyrir bæði konur og karla sem stunda vændi eða eru seld mansali. Nú geri ég mér alveg grein fyrir því að konur eru í miklum meirihluta sem verða fyrir kynferðisofbeldi en karlar verða samt sem áður fyrir því líka. Við megum ekki gleyma því.
Ég vil miklu frekar jöfn réttindi fyrir bæði kynin heldur en kvenréttindi. Ég held að það skili okkur meiru. En kannski er ég bara eitthvað að misskilja…

Afmæli

Eftir 4 tíma og 14 mínútur eru 24 ár síðan ég kom í heiminn. Það var kl. 3.08 á sjúkrahúsinu á Norðfirði þann 2. mars árið 1983.

Ég er mikið afmælisbarn. Mér finnst gaman að eiga afmæli. Mér finnst gaman að gera mér dagamun á afmælisdaginn minn. Mér finnst merkilegt að eiga afmæli og það þarf ekki að vera „stórafmæli“ til þess að ég geri mér dagamun, vona að ég vaxi aldrei upp úr því. Raunar finnst mér afar merkilegt að hafa fæðst. Það eru svo margar undarlegar tilviljanir sem verða til þess að maður verður til. Ég ætla að leyfa mér að vera væmin og segja að ég er þakklát fyrir að vera sú sem ég er, hér og nú. Ég er þakklát forfeðrum mínum fyrir allar litlu og stóru tilviljanirnar sem urðu til þess að ég varð til.