Flokkum og skilum

Ég fékk svolítið æði í gærkvöldi og fór að skoða www.sorpa.is. Og nú er ég komin með flokkunaræði (ekki eftir Dewey samt). Það er nefnilega hægt að flokka og skila meginu af sorpinu.

Flestir vita að hægt er að skila flöskum og dósum og fá 10 kall fyrir stykkið og að hægt er að skila rafhlöðum og öðrum spilliefnum en vissir þú að það er hægt að flokka…
-dagblöð og pappír (það væri hægt að framleiða klósettpappír fyrir alla Íslendinga með þeim pappír sem nú þegar er skilað)
-fernur og pappa (t.d. utan af morgunkorni og kexi)
-bylgjupappa (t.d. pizzukassa)
-málm (t.d. niðursuðudósir, álpappír og krukkulok)
-gler og postulín (t.d. krukkur)
-plast (t.d. jógúrtdósir, plastbakkar, plastpokar og sósuflöskur)
-kertavax
-föt og klæði (líka slitin föt, rúmföt, handklæði og fleira)
-skó
-endurnýtanlegt dót (sem er svo selt í Góða hirðinum)
-timbur
-rafeindatæki
-hjólbarðar

Svo að ég er á leiðinni í IKEA að kaupa þrjár ruslafötur – eina fyrir gler, eina fyrir málm og eina fyrir plast. Endurvinnsla rokkar!

Strætó

Fyrst hækka þeir fargjöldin, svo lengja þeir biðtímann! Er mér boðið í jarðarför strætókerfisins?

Hvað í ósköpunum eru Sjallarnir og Bingi að hugsa? Eru loftmengun og umferðarteppur ekki eitt af stóru málunum sem borgarstjórn Reykjavíkur þarf að horfast í augu við? Af hverju eiga almenningssamgöngur að skila hagnaði? Getum við ekki allt eins krafist þess að ráðherrabílarnir skili hagnaði?

Frá 1. júní verður staðan sú að það kostar 280 krónur að fara eina ferð með strætó og þeir ganga á 30 mínútna fresti. Þrjár spurningar fyrir meirihluta borgarstjórnar…
1. Er ykkur alveg sama um strætókerfið?
2. Berið þið enga virðingu fyrir tíma fólks?
3. Finnst ykkur þetta boðlegt fyrir ferðamenn?

Hvað kosta 28,9 km af malbiki?

Ég lét mig hafa það að keyra til Vopnafjarðar eftir vinnu í dag, fór reyndar tveimur tímum fyrr úr vinnunni til að hafa rýmri tíma.
Þetta gekk ljómandi vel. Hafði félagsskap Rósu á leiðinni til Akureyrar. Vart hægt að hugsa sér betri ferðafélaga. Í Hrútafirði: „Já, það var líka svo fallegt í Borgarnesi, ég bara kom því ekki að fyrr en núna við tölum svo mikið“. Á Akureyri skutlaðist ég til Hafdísar, Mumma og Sóleyjar að ná í dót og skilaði svo Rósu af mér við Leiruna. Svo lagði ég í hann til Vopnafjarðar. Það gekk líka ljómandi vel. Var tekin af löggunni við afleggjarann til Húsavíkur. Einu sinni verður allt fyrst. Þeir gátu þó ekki nappað mig fyrir neitt ólöglegt. Báðu bara um að fá að sjá ökuskírteinið mitt (sem var auðvitað á vísum stað) og óskuðu mér svo góðrar ferðar. Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er eiginlega of góður. Beinn og breiður vegur svo maður gæti auðveldlega misst einbeitinguna og keyrt útaf. Vopnafjarðarheiðin hins vegar krefst allrar athygli með öllum sínum holum, þvottabrettum, útskotum og stórgrýti. Frá Reykjavík til Vopnafjarðar eru aðeins 28,9 km (samkvæmt áreiðanlegum Micru-mælingum) ómalbikaðir. Væri ekki bara ráð að henda olíumöl á þessa 28,9 km og hætta að rífast um Hofsárdalsleið og Vestrárdalsleið? Þá myndi ég leggja það í vana minn að skreppa til Vopnafjarðar eftir vinnu.