Hvað kosta 28,9 km af malbiki?

Ég lét mig hafa það að keyra til Vopnafjarðar eftir vinnu í dag, fór reyndar tveimur tímum fyrr úr vinnunni til að hafa rýmri tíma.
Þetta gekk ljómandi vel. Hafði félagsskap Rósu á leiðinni til Akureyrar. Vart hægt að hugsa sér betri ferðafélaga. Í Hrútafirði: „Já, það var líka svo fallegt í Borgarnesi, ég bara kom því ekki að fyrr en núna við tölum svo mikið“. Á Akureyri skutlaðist ég til Hafdísar, Mumma og Sóleyjar að ná í dót og skilaði svo Rósu af mér við Leiruna. Svo lagði ég í hann til Vopnafjarðar. Það gekk líka ljómandi vel. Var tekin af löggunni við afleggjarann til Húsavíkur. Einu sinni verður allt fyrst. Þeir gátu þó ekki nappað mig fyrir neitt ólöglegt. Báðu bara um að fá að sjá ökuskírteinið mitt (sem var auðvitað á vísum stað) og óskuðu mér svo góðrar ferðar. Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er eiginlega of góður. Beinn og breiður vegur svo maður gæti auðveldlega misst einbeitinguna og keyrt útaf. Vopnafjarðarheiðin hins vegar krefst allrar athygli með öllum sínum holum, þvottabrettum, útskotum og stórgrýti. Frá Reykjavík til Vopnafjarðar eru aðeins 28,9 km (samkvæmt áreiðanlegum Micru-mælingum) ómalbikaðir. Væri ekki bara ráð að henda olíumöl á þessa 28,9 km og hætta að rífast um Hofsárdalsleið og Vestrárdalsleið? Þá myndi ég leggja það í vana minn að skreppa til Vopnafjarðar eftir vinnu.