Vopnfirðingur, Þorparinn og saga Vopnafjarðar

Þegar ég var ca. 13 ára var gefið út blað á Vopnafirði sem hét Vopnfirðingur. Mig minnir að Sigrún Odds og Hafþór Róberts (bæði kennararnir mínir til margra ára) hafi haft veg og vanda að því. Það var gaman að hafa blað sem fjallaði bara um það sem var að gerast á Vopnafirði. Þessi blöð eru eflaust til á mörgum vopnfirskum heimilum niðrí geymslu eða uppá háalofti Ég var að athuga hvort þetta blað væri einhversstaðar til skráð í Gegni en svo er ekki. Ætli þessi blöð séu ekki til á Bókasafni Vopnafjarðar og Þjóðdeild Landsbókasafnsins?

Núna er gefið út blað með svipuðu sniði á Vopnafirði. Blaðið heitir Þorparinn og er gefið út hálfsmánaðarlega. Fyrrnefndur Hafþór Róberts gefur blaðið út. Hann á mikið hrós skilið fyrir það. Ég er búin að renna í gegnum nokkur blöð núna og þetta er mjög gott og þarft blað. Ég er búin að lesa mér til um margt merkilegt sem er að gerast á Vopnafirði þessa dagana og mánuðina. Svo ég nefni dæmi er nýbúið að opna hérna nýtt gistiheimili þar sem einnig er boðið uppá sjóstangveiði og hákarlaveiði fyrir ferðamenn, Ungmennafélagið Einherji er búið að fá glæsilega félagsaðstöðu og fjölskyldan í Háteigi er búin að standa í gríðarlegi uppbyggingu á kúabúinu sínu. Ég prófaði líka að leita að Þorparanum á Gegni en fann ekkert. Það er afskaplega mikilvægt að varðveita þessi blöð svo þau verði aðgengileg fyrir almenning og fræðimenn, bæði núna og í framtíðinni.

Ég skrifaði færslu í maí í fyrra um nauðsyn þess að skrifa meira um Vopnafjörð. Heyrði einhversstaðar að það væri komið á dagskrá að skrifa sögu Vopnafjarðar, man bara ekki lengur hver var að tala um það. Nýlega er komin út Norðfjarðarsaga eftir Ögmund Helgason, ég er búin að lesa töluvert af henni og hugsaði reglulega um hvað það væri gaman ef það væri til sambærileg bók um Vopnafjörð. Það hefur nefnilega heilmargt merkilegt gerst á Vopnafirði og er enn að gerast.