Strympa

Ég er komin í bókaskáp heimilisins. Strympa eftir Peyo varð fyrir valinu að þessu sinni, teiknimyndasaga um Strumpanna. Bók sem Svenni bróðir fékk í afmælisgjöf frá Sunnu og Drífu 1986. Ég er nýbúin að vera á teiknimyndasögunámskeiði í vinnunni og er þess vegna dottin í það að lesa teiknimyndasögur í tíma og ótíma.

Strympa er mjög áhugaverð saga sem snerti ýmsa strengi hjá mér.
Fyrir þá sem ekki vita er Strympa búin til af Kjartani galdrakarli með það í huga að hefna sín grimmilega á Strumpunum. Hráefnið í Strympu er athyglisvert; í hana dugir ein hnefafylli af leir, perlur fyrir tennur, safírar fyrir augu, silki fyrir hár og dálítið af blárri málningu til að tryggja rétt litarhaft. En svo þarf að gæða hana lífi og þá verður uppskriftin öllu flóknari og skrautlegri. Uppskrift að lifandi kvenbrúðu; eina skeið af hégóma, væna sneið af undirferli, þrjú krókódílstár, einn hænuhaus, malaða höggormstungu, nokkur korn af ráðkænsku, nokkrir hnefar af skaphita, agnarögn af hvítum lygum, dálítið af sælkerahætti, eina skeið af óheilindum, eina fingurbjörg af hirðuleysi, hroka af hnífsoddi, ögn af öfundsýki, vænan skammt af tilfinningasemi, ögn af fákænsku, blandað saman við slægð, þynnt með miklu hugarflugi, jafnað með dálítilli þrjósku, eitt kerti, brunnið í báða enda.
Um leið og mér finnst þessi steríótýpa sem þarna er dregin upp fyndin er litli femínistinn innra með mér sármóðgaður fyrir hönd kvenþjóðarinnar.

Kjartani galdrakarli tekst að hefna sín á Strumpunum með Strympu. Hún reynist vera algerlega óþolandi. Hún spyr endalaust heimskulegra spurninga, er óþolandi upptekin af útlitinu og svo fær hún furðulegar hugmyndir eins að mála steinana bleika og halda dansiball. Strumparnir ákveða síðan að hefna sín á Strympu með því að pískra um það sín á milli að hún sé feit. Hún fer auðvitað alveg í mínus og lætur ekki sjá sig utandyra eftir það. Æðstistrumpur tekur að sér að flíkka aðeins uppá hana. Strympa var upphaflega með dökkt, frekar stutt og svolítið úfið hár en Æðstistrumpur gerir það ljóst og sítt og litar líka á henni augnhárin. Þá verða allir strumparnir ástfangnir af Strympu og eftir það finnast þeim heimskulegu spurningarnar og furðulegu hugmyndirnar bara krúttlegar og vilja allt fyrir hana gera. Þetta grunnhyggna lið!

Mæli annars með þessari færslu um Tinna hjá Magnúsi Teits. Ég er líka að vinna í því að lesa Tinna. Búin að lesa fjórar af 24.