Í sveitinni og í sundi

Ég hef það bara gott hérna í sveitinni. Það er í ýmsu að snúast þessa dagana; taka á móti lömbum, gefa, brynna, hreinsa rennuna, krubba af, taka hildar, bera undir, merkja, marka, láta út, gefa pela, láta sjúga, venja undir og fleira og fleira. Það er gaman þegar vel gengur en stundum koma dagar þar sem allt gengur á afturfótunum og þá er ekki eins gaman.

Reynir afi skrapp frá Norðfirði í heimsókn til okkar í dag. Hann var að sækja sængina og koddann sem ég keypti fyrir hann um daginn og harðfisk sem mamma keypti fyrir hann (sá bakkfirski er víst sá allra besti). Það var gaman að sjá hann aðeins þó stutt væri. Við mamma skruppum með honum í sund. Ég synti 550 m sem er sennilega það mesta sem ég hef synt í einni ferð í Selárdalslaug síðan ég var þar í skólasundi. Reyndar felst sund í 12,5 m laug helst í því að spyrna sér í bakkann en ég er nokkuð góð í því 😉