Heep, Purple, Lónið, Godfather, My so-called life og Elliðaárdalur

Ég er komin aftur til borgarinnar. Flugið hingað gekk merkilega vel, bara allt samkvæmt áætlun. Gunnsteinn afi, Ásta Hanna og mamma skutluðu mér í Egilsstaði og svo komu Reynir afi og Óla frá Norðfirði og borðuðu með okkur.
Óli og sólin tóku svo á móti mér á Reykjavíkurflugvelli, en þau hafði ég ekki séð í 10 daga (reyndar smá ýkjur, sólin gægðist fram alveg tvisvar meðan ég var á Vopnafirði).

Við Óli fórum svo á tónleikana með Uriah Heep og Deep Purple.  Ég var búin að hlakka mikið til að sjá Uriah Heep á tónleikum og þeir stóðu sko alveg undir því. Þvílík snilld að sjá þá og heyra. Við vorum framarlega beint fyrir framan Mick Box og það var bara frábært. Mikil gæsahúð fylgdi July Morning og mikið stuð að fá Easy Livin í uppklappinu. Verst að þeir skyldu bara spila í klukkutíma. Ég hafði ekki miklar væntingar til Deep Purple en þeir stóðu eiginlega ekki undir þeim. En jújú, það var alveg gaman að heyra í þeim.

Á mánudaginn fórum við í Bláa lónið. Ég vann 2 miða í það á Þjóðbrókarþorrablótinu í febrúar. Merkilegt að ég hef unnið í öllum spurningakeppnum á vegum Þjóðbrókar sem ég hef tekið þátt í. Jólakvissin í fyrra og hittifyrra og svo þetta. Veit ekki hvort það segir meira um mig eða þjóðfræðinema almennt 😉 En Lónið var fínt. Ágætt að skreppa þangað annað slagið. Gott að maka á sig drullu og slappa af 🙂

Þegar ég kom aftur úr sveitinni til borgarinnar beið mín afmælisgjöf nr. 2 frá Óla. My so-called life á DVD!!! Ég elskaði þessa þætti og geri enn!
Við Óli gerðum svo með okkur samning. Mánudagskvöldið fór því í að horfa á fyrstu Godfather-myndina. Stórlega ofmetin (ég meina hún er í fyrsta sæti á top 250 listanum á imdb.com!) en engu að síður ágæt. Svo horfðum við á fyrsta þáttinn af My so-called life. Þeir hafa elst merkilega vel, 90’s er æði. Nú er bara að finna tíma til að horfa á næstu Godfather mynd.

Það var indælt veður í dag. Við Óli röltum niðrí Elliðaárdal eftir vinnu hjá mér í kvöld. Það var yndislegt. Við ættum að gera það oftar.

Hjördís og Helga áttu afmæli í gær (28. maí). Mér finnst fyndið að þær eru fæddar nákvæmlega sama dag og þær hafa báðar lært bókasafns- og upplýsingafræði. En þær eru samt mjög ólíkar. Til hamingju báðar tvær 🙂

Góða nótt, elskurnar mínar.

3 thoughts on “Heep, Purple, Lónið, Godfather, My so-called life og Elliðaárdalur”

  1. Þér er velkomið að fá þá lánaða, þegar við erum búin að horfa á þá. Spurning hvað mér gengur vel að horfa á Godfather 😉

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *