Kæra dagbók

Þá er best að halda áfram með dagbókina 😉

Tók þátt í yndislegri geðveiki á fimmtudaginn. Ég fór í Toys´R´Us með öllu hina geðbilaða fólkinu. Stóð meira að segja í röð úti í næðingnum. Þetta er fínasta búð og nóg til þarna. Gerði sérlega úttekt á spilahillunni hjá þeim og það var ágætis úrval, meira að segja hægt að fá bingóvél sem gæti komið sér vel suma daga ársins. En manni varð samt hálfóglatt yfir neyslubrjálæðinu, fólk með kúfaðar innkaupakerrur af leikföngum, ótrúúúlegt.
Hitti svo mömmu aðeins áður en hún fór á ASÍ-djamm. Hún fór svo heim á föstudeginum.

Ég fór á fyrsta starfsmannadjammið í nýju vinnunni á föstudaginn. Fyrst voru bjór og samlokur í vinnunni. Svo var okkur smalað uppí rútu og keyrt með okkur uppí Kjós. Þar á Stjórinn bústað sem við fengum til afnota. Þar var nóg að borða og drekka. Hápunkturinn var Tekílahafnarbolti með vafasömum reglum. Okkur var smalað aftur uppí rútu og haldið að veiðihúsinu Laxá í Leirársveit. Þar fengum við mjög góða sveppasúpu sem ég át yfir mig af. Vorum svo komin aftur í bæinn fyrir miðnættið og þá var ég alveg búin á því og dreif mig bara heim.

Á laugardagskvöldið kom Hrönn í „innflutningspartý“ til mín. Það eru ekki allir sem fá svona sérmeðferð 😉 En hún hafði aldrei komið í „nýju“ íbúðina áður. Hún var svo sæt að færa mér rós og kertastjaka í innflutningsgjöf. Takk fyrir mig.
Ég bauð henni í mat í uppáhaldskjúklingaréttinn minn og auðvitað var Bónusís með Marssósu og jarðarberjum í eftirrétt. Jummí! Spjölluðum svo frameftir nóttu.

Á sunnudaginn fór ég og spilaði við Hjördísi og Halla. Það var mjög skemmtilegt. Spiluðum Trivial og Pass the Pigs og ég vann bæði. Nananananana! 😉 Við stefnum að því að hittast oftar á næstunni og gera eitthvað sniðugt saman. Jólaföndur er líklegast næst á dagskrá.

Bústaður, vírusvörn, Ken og mútta

Ég fór í bústað með saumaklúbbnum um helgina. Fórum í Brekkuskóg. Það var ferlega gaman. Við gerðum allt sem maður á að gera í bústað; fórum í gönguferð (reyndar afskaplega stutta), gúffuðum í okkur nammi, hlustuðum á eðalmúsík (ég er rebell, tekex og kremkex) elduðum góðan mat (sem kostaði alveg 300 kall á mann), láum í heita pottinum, spiluðum og sváfum út (og sumir nánast úti).

Danni kíkti til mín á mánudagskvöldið og ég reddaði vírusvörninni á tölvunni hans (reyndar með góðri hjálp frá Írlandi) og svo átum við snakk og kók (hér á bæ eru sko allir dagar nammidagar) og spjölluðum um skjalastjórn 🙂

Í gær fór ég í fyrsta skipti á áhorfendapallana í Ráðhúsinu og sá þar Ken taka við borginni og ég er ekki frá því að ég hafi séð Glanna glæp bregða fyrir.

Í dag kom svo múttan mín til borgarinnar. Borðaði með henni í Kringlunni í hádeginu og sleppti henni lausri þar á meðan ég kláraði vinnudaginn. Fór svo með henni í fleiri búðir og enduðum á að borða í Smáralind (þetta útálandilið hangir bara í búðum þegar það kemur til borgarinnar). Óskaplega gott að fá svona fjölskyldufélagsskap.

Góða nótt!

Nagladekk

Hvað er málið með þennan fjandans nagladekkjafasisma?! Fólk á ekki að þurfa að fá samviskubit yfir að vera á nagladekkjum. Mér finnst raunar fáránlegt að berjast gegn nagladekkjum. Það væri miklu eðlilegra að berjast gegn stórum bílum á götum borgarinnar og berjast gegn því að fólk keyri eitt í bíl í vinnu eða skóla þegar það getur alveg eins tekið strætó. En umræðan er alltaf þannig að „allir hinir“ eiga að taka strætó. „Ég hef nú bara aldrei getað sett mig inní þetta strætókerfi“ Give me a break!

Mér þætti áhugavert að sjá muninn á þeirri svifryksmengun sem litli bílinn minn á nagladekkjunum (er reyndar ekki komin á þeim enn) skapar og stóri hlunkajeppinn á sumar/heilsársdekkjum.

Mér finnst það ætti að setja aukaskatta á jeppa. Það eru fáir sem þurfa á því að halda að eiga stóra jeppa, nema þá kannski helst til að runka sér á þeim einhversstaðar uppá heiði.

Grasekkjan

Ef ég byggi ein myndi ég…

…hanga meira á netinu
…horfa minna á sjónvarpið
…borða meira nammi (jafnvel í öll mál)
…elda minna
…hlusta meira á tónlist
…þrífa minna
…hitta vini mína svipað mikið
…oftar láta mig hafa það að fara eitthvað ein
…drekka meira kók
…lesa jafnlítið
…eiga alveg jafn erfitt með að vakna á morgnanna
…eiga alveg jafn erfitt með að koma mér í rúmið á kvöldin
…og svo videre

Niðurstaðan eftir að hafa verið grasekkja í 25 daga er helst sú að ég borða meira nammi, drekk meira kók, hangi meira á netinu og hlusta meira á tónlist þegar ég er ein. Mér finnst ekkert af þessu eftirsóknarvert til lengri tíma nema tónlistin.
Það er sennilega hverjum manni hollt að búa einn í smá tíma. Ég er búin að læra heilmargt um sjálfa mig á þessum stutta tíma. Það er nefnilega stundum svo auðvelt að kenna öðrum um hvernig maður sjálfur er.

Dagarnir líða

Long time, no blog! Reyndar ekki langur tími miðað við oft áður en…

Á sunnudaginn fór ég í Vantrúarlunch. Gestrisnin og veitingarnar hjá Matta og Gyðu klikkuðu ekki frekar en fyrr daginn. Og félagsskapurinn svosem ágætur líka 😉
Eftir lunchið skellti ég mér í sund. Það var bara svo hrikalega gott veður á sunnudaginn að það var ekki hægt að vera inni. Synti 550 m og virðist bara vera í nokkuð góðu sundformi þrátt fyrir að hafa ekkert synt í 2 mánuði. Þarf að gera meira af þessu.
Fór til Rósu og Jónbjörns um kvöldið og horfði með þeim á Næturvaktina. Það eru nokkuð smellnir þættir 🙂

Á mánudagskvöldið fórum við Rósa í bíó. Sáum Heima 🙂 Mér fannst hún æði og væri alveg til í að fara aftur. Hún var falleg, hún var hljómfögur, hún var fyndin, hún vakti gæsahúð, hún fyllti mig stolti, hún fyllti mig kjánahrolli, hún vakti hjá mér löngun til að fara á ródtripp um Ísland. Ég mæli með henni.

Í gærkvöldi fór ég á kaffihús með saumaklúbbnum. Fórum á Kaffi Mílanó sem er alltaf voða næs. Plönuðum margt en kjöftuðum meira 🙂

Ég ætla að vera heima hjá mér í kvöld.

Stjörnuskoðun

Ég eyddi kvöldinu í að sinna nördalegasta áhugamálinu mínu, stjörnuskoðun. Ég fékk stjörnusjónauka í afmælisgjöf frá Óla þegar ég varð 23 ára. Ég notaði hann svolítið þá en svo ekkert allan síðasta vetur (nema bara til að dást að honum inní stofu).
Við Sverrir Guðmunds vorum samferða til Krýsuvíkur þar sem við hittum fleiri stjörnuglópa. Frekar fyndið að hitta hóp af fólki sem maður þekkir ekki og sjá ekki neitt. Stefni að því að mæta á félagsfund hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness fljótlega og sjá framan í þessa gaura.
Ég var í svolitlum vandræðum með sjónaukann af því að miðið á honum virkar ekki sem skyldi en með góðri hjálp sá ég nú samt ýmislegt, t.d. Mars og sjöstirnið. Rétt áður en við fórum stillti Grétar? fyrir mig sjónaukann og núna veit ég betur hvernig hann virkar og hef einhverja glóru um það hvað allar þessar skrúfur og stillingar gera. Stefni að því að eyða morgundeginum í að kíkja á nágrannana 😉 Ætla líka að kíkja í stjörnuskoðun aftur fljótlega og jafnvel fara á stjörnuskoðunarnámskeið sem verður í janúar.

Niður með friðarsúluna!