Stjörnuskoðun

Ég eyddi kvöldinu í að sinna nördalegasta áhugamálinu mínu, stjörnuskoðun. Ég fékk stjörnusjónauka í afmælisgjöf frá Óla þegar ég varð 23 ára. Ég notaði hann svolítið þá en svo ekkert allan síðasta vetur (nema bara til að dást að honum inní stofu).
Við Sverrir Guðmunds vorum samferða til Krýsuvíkur þar sem við hittum fleiri stjörnuglópa. Frekar fyndið að hitta hóp af fólki sem maður þekkir ekki og sjá ekki neitt. Stefni að því að mæta á félagsfund hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness fljótlega og sjá framan í þessa gaura.
Ég var í svolitlum vandræðum með sjónaukann af því að miðið á honum virkar ekki sem skyldi en með góðri hjálp sá ég nú samt ýmislegt, t.d. Mars og sjöstirnið. Rétt áður en við fórum stillti Grétar? fyrir mig sjónaukann og núna veit ég betur hvernig hann virkar og hef einhverja glóru um það hvað allar þessar skrúfur og stillingar gera. Stefni að því að eyða morgundeginum í að kíkja á nágrannana 😉 Ætla líka að kíkja í stjörnuskoðun aftur fljótlega og jafnvel fara á stjörnuskoðunarnámskeið sem verður í janúar.

Niður með friðarsúluna!