Jólin í Reykjavík

Fyrir þá sem eru í jólakortahugleiðingum og eru að hugleiða að senda okkur jólakort upplýsist það að við Óli verðum heima í Reykjavík um jólin. Og svo má líka alveg senda okkur pakka og bjóða okkur í jólaboð í Reykjavík 😉

Ég minni svo á laufabrauðsgerðina á miðvikudaginn. Allir áhugasamir sem við þekkjum eru velkomnir.

Jæja, ætla að halda áfram að jólastússast. Það er ekkert langt í að það verði bara svolítið fínt hjá mér 🙂 Ekki seinna vænna því það er von á Ólanum heim á morgun 🙂

Laufabrauð

Hin árlega laufabrauðsgerð verður 19. desember þetta árið. Þetta er miðvikudagur og er mæting um fimmleytið eða bara þegar fólk kemst, við verðum að eitthvað fram eftir kvöldi. Ef einhverjir eru áhugasamir um að fletja út mega þeir mæta fyrr. Ekki hafa áhyggjur af kvöldmat því við pössum uppá að enginn verði svangur 😉

Vinir og kunningjar velkomnir. Látið mig eða Óla vita ef þið viljið vera með, í gegnum síma, msn, tölvupóst eða einfaldlega með kommenti hér á blogginu.

Jólin, jólin, jólin koma brátt… 🙂

Hliðarspor Ágústs

Ég las nýju bókina hans Ágústs Borgþórs í vikunni. Hliðarspor heitir hún. Fékk hana lánaða á bókasafninu. Bókin er ágætis afþreying og er fyrsta bókin sem ég klára í langan tíma. Hún fjallar um tvo gifta miðaldra rithöfunda sem eru í einhverskonar miðaldrakreppu. Þeir eiga báðir í samböndum við sér yngri konur, hvor á sinn hátt. Annar á í „andlegu“ sambandi“ en hinn líkamlegu.

Það sem mér fannst áhugaverðast í bókinni voru lýsingar á samskiptum þessara tveggja miðaldra hjóna. Hvernig kallarnir þola ekki að eyða öllum helgum í að dytta að heimilinu, fara í matarboð og versla og hvernig konurnar eru sífellt nöldrandi og fjarlægar (í hugum eiginmanna sinna). Ekki veit ég hvort þetta er raunsönn lýsing á íslensku meðalhjónabandi en við Óli ætlum sko ekki að vera svona þegar við verðum 45 😉

Mér fannst plottið í bókinni ekki alveg nógu sterkt, hefði þurft að prjóna meira í kringum það til að villa um fyrir lesandanum (mér náttúrlega!). En plottið var samt nokkuð sniðugt.

Bókin er mjög raunsæ. Á köflum svo raunsæ að ég velti því fyrir mér hvort að rithöfundurinn (Ágúst auðvitað) væri nokkuð að skrifa um sjálfan sig (en ég held nú örugglega að svo sé ekki).

En mæli með henni. Fæst í öllum betri bókabúðum.

Jájá

Getur einhver mælt með góðri snyrtistofu sem er með gott andlitsbað (sem kostar ekki formúgu)? Er að spá í að fara í svoleiðis fyrir jólin.

En ég ætla ekki í klippingu fyrir jólin, ætla frekar að gera eitthvað annað fyrir peninginn (eins og að fara í andlitsbað 😉 ). Ég ætla ekki heldur að kaupa mér jólaföt (nema að ég rekist á eitthvað ómótstæðilegt), það er ekki útilokað að ég verði bara í fermingarkjólnum 🙂

Er voða lítið farin að gera fyrir jólin, keypti samt megnið af jólagjöfunum á Írlandi og er búin að redda jólakortunum, á bara eftir að skrifa á þau. En helgin verður „helguð“ jóladunderí. Helgin þar á eftir verður helguð djammi, ætla á Megas með Helgu og Brjáni á föstudagskvöldinu og svo er virðulegt fimmtugsafmæli á laugardagskvöldinu. Og svo kemur Óli. Og svo koma jólin 🙂

En já, ef einhver mælir með andlitsbaði, látið mig vita.

Haha

Ég vil að allir sem telja sig ekki eiga samleið með Þjóðkirkjunni skrái sig úr henni, en þar sem nú er kominn 1. desember, liggur ykkur ekki svo á. En gerið það samt næsta árið.

Já, ég er trúleysingi. A T H E I S T!

Og á morgun leik ég engil…

Mér finnst Dr. Gunni æði. Fyrir 100 árum var ég ekki til. Og ég og þú verðum frekar gleymd og grafin eftir 100 ár. Finnst þetta frábær pæling. Dr. Gunni segir allt sem segja þarf.

En ég er sátt við þau ár sem mér eru gefin, ég vona að ég fái fleiri. Á næsta ári verð ég 25 ára og þá verður nú gaman að lifa. [Eygló dansar um stofuna og fangar því að vera 24 og 3/4 ára]

Ég væri nefnilega þakklát fyrir að fá helmingi meira tíma en ég hef nú þegar fengið og ef það sem búið er væri nú bara 1/4 væri ég hoppandi kát. En það er þessi óvissa sem er svo spennandi. Þessar endalausu tilviljanir sem gera það að verkum að ég er til. Þessar endalausu tilviljanir sem gera það að verkum að ég er eins og ég er 🙂

Ég hef gert margt skemmtilegt síðan ég bloggaði síðast.  Hef hitt marga og gert margt skemmtilegt. Það er sko ekki dauður punktur í lífi mínu, tölvan sér til þess 😉 En án gríns þá er margt í gangi.

Ég hlakka þó mest til þess að fá Ólann heim og búa til laufabrauð með honum (og öllum hinum sem ætla að koma). Ég meika það samt alveg að vera ein, grasekkjuhlutverkið hentar mér ágætlega, svona tímabundið.
Tíminn líður hratt en hann er samt styttri en leiðin til stjarnanna (sumra allavega). Alheimurinn er stórkostlegur.

Jólin, jólin, jólin koma brátt. Jólaskapið kemur smátt og smátt 🙂

Desember er kominn. Juppí