Hliðarspor Ágústs

Ég las nýju bókina hans Ágústs Borgþórs í vikunni. Hliðarspor heitir hún. Fékk hana lánaða á bókasafninu. Bókin er ágætis afþreying og er fyrsta bókin sem ég klára í langan tíma. Hún fjallar um tvo gifta miðaldra rithöfunda sem eru í einhverskonar miðaldrakreppu. Þeir eiga báðir í samböndum við sér yngri konur, hvor á sinn hátt. Annar á í „andlegu“ sambandi“ en hinn líkamlegu.

Það sem mér fannst áhugaverðast í bókinni voru lýsingar á samskiptum þessara tveggja miðaldra hjóna. Hvernig kallarnir þola ekki að eyða öllum helgum í að dytta að heimilinu, fara í matarboð og versla og hvernig konurnar eru sífellt nöldrandi og fjarlægar (í hugum eiginmanna sinna). Ekki veit ég hvort þetta er raunsönn lýsing á íslensku meðalhjónabandi en við Óli ætlum sko ekki að vera svona þegar við verðum 45 😉

Mér fannst plottið í bókinni ekki alveg nógu sterkt, hefði þurft að prjóna meira í kringum það til að villa um fyrir lesandanum (mér náttúrlega!). En plottið var samt nokkuð sniðugt.

Bókin er mjög raunsæ. Á köflum svo raunsæ að ég velti því fyrir mér hvort að rithöfundurinn (Ágúst auðvitað) væri nokkuð að skrifa um sjálfan sig (en ég held nú örugglega að svo sé ekki).

En mæli með henni. Fæst í öllum betri bókabúðum.

One thought on “Hliðarspor Ágústs”

  1. Sæl og takk fyrir umsögnina. Ástæðan fyrir að ég kommenta er sú að ég vil koma því á framfæri að ég er ekki að skrifa um sjálfan mig í bókinni. Þ.e. ég hef ekki lent í því sem mennirnir lenda í og ég tel hjónaband mitt ekki vera líkt þeirra hjónaböndum. En þetta er minn reynsluheimur, þetta er efni sem ég á auðvelt með að setja mig inn í.

    Mér finnst ekkert auðveldara að gera atburði sem ég hef upplifað raunverulega í sögu en uppdiktaða atburði. – Eitt erfiðasta ritverk sem ég hef unnið er stutt smásaga sem heitir Hverfa út í heiminn. Hún er innan við tíu blaðsíður og ég var marga mánuði með hana. Hún er sjálfsævisöguleg en flestir sem lesa hana halda að hún sé skáldskapur. Það er ákveðin tækni að gera lýsingar svo raunsæislegar að þær virðist byggðar á raunverulegum atburðum. Það er eitt af því sem ég kann – en svo er svo margt annað sem ég kann ekki og læt vera að spreyta mig á.

    Gleðilegt nýtt ár og kærar kveðjur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *