Stjörnufræði og stjörnuskoðun

Ég var á stjörnuskoðunarnámskeiði í gærkvöldi og fyrrakvöld. Það var gaman. Helmingurinn af námskeiðinu fjallaði um stjörnusjónauka og hinn helmingurinn um það sem sést á himninum og það sem sést ekki; tunglið, reikistjörnur, sólir, vetrarbrautir, gasþokur, stjörnuþyrpingar og so videre. Komst að því að það er ýmislegt smálegt sem mig vantar fyrir stjörnuskoðunina t.d. tösku fyrir kíkinn, rautt vasaljós, laser til að benda á stjörnur, sólsíu og 32 mm augngler. En ég held ég láti stjörnuljósmyndun alveg eiga sig enda til nóg af slíkum nördum á landinu. Núna kann ég nokkurnveginn að stilla kíkinn, þarf bara að leggjast í stífar æfingar til að ná góðum tökum á honum en sennilega viðrar nú ekki til þess um helgina. Mér skilst reyndar að það sé afskaplega gagnlegt að kíkja á stelpurnar í næsta húsi til að ná tökum á því að nota stjörnusjónauka 😉

Skemmtilegri parturinn af námskeiðinu voru fyrirlestrarnir frá Sverri og Kára. Mér finnst allar pælingar um allt þetta dótarí þarna úti stórkostlegar. Mér finnst þetta stundum hljóma frekar eins og eitthvað ævintýri heldur en raunveruleiki. Ísland er stórt. Ég á aldrei eftir að sjá það allt. Jörðin er stór. Ég á ekki eftir að sjá nema lítið brot af henni. Sólkerfið okkar er risastórt. Vetrarbrautin okkar er hjúts en hún er bara pínkuponsupartur af alheiminum.

Áhugi minn á stjörnufræði kviknaði þegar ég var að læra jarðfræði haustið 2001 í FÁ. Þegar ég gerði mér grein fyrir því að Júpíter og Satúrnus hefðu ekkert eiginlegt yfirborð eins og jörðin þ.e. væru gashnettir var áhugi minn vakinn. Það er svo margt stórfenglegt þarna úti, svo stórfenglegt að maður verður reglulega á svipinn eins og Carl Sagan í Cosmos 😉 Í framhaldinu las ég mér slatta til og gekk í Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness. Svo gerðist nú frekar lítið í nokkur ár nema að ég las póstlista Stjörnuskoðunarfélagsins og glápti annaðslagið uppí himininn. Þegar ég varð 22 ára fékk ég Íslenskan stjörnuatlas í afmælisgjöf frá mömmu og pabba. Ég las inngangskaflanna en nennti lítið að setja mig inní kortin. Las líka eitthvað af bókum af bókasafninu um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Þegar ég varð 23 ára tókst Óla að koma mér alveg svakalega á óvart og gefa mér stjörnusjónauka í afmælisgjöf. Við vorum dugleg að fara með hann út fram á vorið. Fórum einu sinni á Þingvöll og einu sinni í sumarbústað en oftast fórum við bara með hann hérna útí garðinn. Það sem við skoðuðum oftast var Satúrnus og Tunglið.
Síðasta vetur var kíkirinn bara inní stofu og safnaði ryki. En hann fékk að fara til Krýsuvíkur núna í haust.

Núna er svo bara að sökkva sér í lestur á Nútímastjörnufræði sem ég keypti á námskeiðinu og vonast eftir betra veðri.

5 thoughts on “Stjörnufræði og stjörnuskoðun”

  1. Hvar og hvenær sást þú Carl Sagan í Cosmos?! Ég var ekki nema rétt svo kominn á aldur til að muna eftir því þegar þeir voru sýndir í Sjónvarpinu; var þetta ekki svona sirka 1981-2, í síðasta lagi?

  2. Ég fékk einu sinni í afmælisgjöf að stjarna var skírð Dagbjört 😉 Hún er svo lítil að hún sést varla en ég á kort af því hvar hún er og hvenær er best að sjá hana.. ertu ekki til í að finna hana fyrir mig? 😉

  3. Hljómar allt mjög spennandi:) Þú verður endilega að hafa sýnikennslu einhverntíman og miðla þekkingu þinni á stjörnunum;)

    Hlakka til að sjá þig um helgina:)

  4. Ef hún sést varla þá hefur kíkirinn minn sennilega ekki mikið í hana. En það má reyna 😉

    Það væri nú gaman að draga saumaklúbbinn með í stjörnuskoðun. Já, það er skemmtileg helgi framundan 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *