Sléttujárn

Og af því að það virkaði svo vel að fá ráð varðandi linsur, ætla ég líka að spyrja um ráð varðandi sléttujárn 🙂

Málið er að ég ætla að kaupa mér sléttujárn í næstu viku. En ég hef ekki hundsvit á sléttujárnum. Veit bara að gamla járnið mitt er ekki að gera sig. Getið þið mælt með einhverjum járnum sem mögulega gætu fengist í Elko? Og hvað þarf maður að hafa í huga? Og eru einhver sérstök hárefni sem þið mælið með að nota þegar maður er að slétta á sér hárið?

Njótið helgarinnar 🙂

Linsumátun

Ég fór í linsumátun áðan. Niðurstaðan varð að ég fékk linsur með -1,00, eins og gleraugun mín eru. Ég fór í Optical Studio í Smáralind og þar kostar linsumátun 2000 kr. Það gekk nú svona frekar brösuglega að máta. Ég er náttúrlega hrikalega viðkvæm að því leyti að ég blikka augunum við minnsta áreiti. En þetta gekk eftir nokkrar tilraunir. Lykilatriðið er að toga efra augnlokið upp með löngutöng vinstri handar og neðra augnlokið niður með löngutöng hægri handar. Svo þarf linsan að snúa rétt og liggja kúpt á vísifingri hægri handar. Svo þarf linsan að „grípa augað“. Svo á að loka auganu og horfa upp, niður, hægri, vinstri til að leyfa linsunni að jafna sig. Svo er maður bara good to go, þangað til þarf að taka hana úr. Já og það er mikilvægt að þvo sér um hendurnar þegar maður er að eiga við linsurnar. Og ef illa gengur að setja linsuna í, er gott að bleyta í henni inná milli með linsuvökva.

Það má ekki sofa með linsur, ekki einu sinni í smá stund. Það má fara í sund með linsur, en verður að hafa sundgleraugu ef maður ætlar að synda. Ekki æskilegt að hafa linsurnar lengur en 10-12 tíma í einu, en 18 tímar eru hámark.

Ég fékk svo nokkrar með mér heim til að æfa mig af Johnsons dagslinsum. Náði reyndar að nudda aðra linsuna úr mér áðan, tveimur tímum eftir að hún fór í. Semsagt ekki æskilegt að nudda augun harkalega þegar maður er með linsur, dööhhh.

Þetta eru nú aðallega minnisatriði fyrir mig. Ég hugsa að ég noti linsurnar ekki daglega, heldur meira svona „spari“ t.d. í stjörnuskoðun, gönguferðum og öðrum aðstæðum sem óþægilegt er að vera með gleraugun en samt gott eða nauðsynlegt að sjá vel.

Og takk fyrir góðu ráðin 🙂

Linsur

Er einhver þarna úti sem þekkir inná linsur? Mig langar að prófa að fá mér linsur, er með a.m.k. -1,25 (hefur samt hugsanlega versnað síðan í síðustu mælingu) og langar að prófa daglinsur. Eða eru mánaðarlinsur kannski betri? Látið endilega í ykkur heyra sem hafið linsureynslu.

Hvað kostar útlitið?

Hvað ætli meðalkonan á Íslandi eyði í útlitið á ári? Við erum að tala um skuggalega háar tölur.

Það vantar eiginlega alveg í mig pæjugenið. Ég geri lítið í því að líta vel út. Ég hef enga sérstaka ánægju af því að snyrta mig til. Reyni þó að vera þokkalega snyrtileg og vildi stundum að ég hefði jafn mikinn metnað í þessum málum og margar kynsystur mínar.

Ég var aðeins að slumpa á það hvað ég eyði á ári í snyrtivörur (hársnyrtivörur, krem, maskara, gloss og þannig) og snyrtiþjónustu (klippingu, plokkun og litun, fótsnyrtingu og þannig). Þessi tala yrði sennilega aldrei undir 90 þúsund krónum. Samt fer ég bara 2-3 á ári í klippingu og þá yfirleitt á stofur í ódýrari kantinum, hjá frænkum mínum á Norðfirði eða hjá vinkonu minni sem klippir heima. Ég fer ca. 3 á ári í plokkun og litun á stofu. Ég fer ca. einu sinni á ári í eitthvað snyrtistofudekur eins og fótsnyrtingu eða handsnyrtingu. Ég kaupi afskaplega lítið af farða, ca. 1-2 maskara á ári, kannski 2-3 gloss, 1 meik og svo eitthvað smotterí umfram það. Ég kaupi ódýr krem og kaupi oftast sjampó og hárnæringu í Bónus en kaupi samt 1-2 á ári einhverjar fínni hárvörur á stofum. Svo er ýmislegt fleira sem þarf að kaupa til að líta þokkalega út. Þetta kostar mig lágmark 90000 kr. á ári, það er eins og ein ágætis utanlandsferð. Ég myndi giska að meðalkonan á Íslandi eyði ekki minna en 200000 kr. á ári í þetta því eins og áður sagði er ég einstaklega lítil pæja og kaupi ódýrar snyrtivörur. Algengt verð fyrir klippingu og litun/strípur er t.d. á bilinu 15-18 þúsund og ef maður fer á tveggja mánaða fresti þá gerir það eitt og sér a.m.k. 90 þúsund krónur á ári. 

Og svo þarf að kaupa föt, fylgihluti og skartgripi. Ég giska að ég eyði svona 150 þúsundum á ári í þessa hluti. Varðandi fataval er ég líka mjög lítil pæja, kaupi oft föt á útsölum og dýrasta flíkin sem á ég kostaði sennilega um 10.000 kr. Flest fötin mín eru keypt í Next, Hagkaup og H&M. Ég á ekki fleiri en 15 skópör og ég er yfirleitt alltaf í sömu skónum. Það vantar líka í mig skógenið.
Ég giska að venjuleg íslensk kona eyði um 300 þúsundum á ári í föt, fylgihluti og skartgripi.

Niðurstaðan er því að ég eyði um 240 þúsundum á ári í útlitið. Það er afskaplega lítið miðað við allt, samt finnst mér það hellingur því það má gera ýmislegt skemmtilegra eða gagnlegra fyrir þennan pening. Mitt gisk er að meðalkona á Íslandi eyði um hálfri milljón á ári í útlitið og það er sennilega frekar varlega áætlað.

Hvað eyðir þú miklu í útlitið?

Sunnudagur

Núna langar mig til að rölta um London með honum Óla mínum. En það er víst ekki í boði.

Næstmest langar mig að fara eitthvað út í náttúruna t.d. uppí Hvalfjörð eða útá Reykjanes og rölta eitthvað um þar. Þá er bara að finna einhvern sem vill fara með mér, ég er voða lítið fyrir að fara eitthvað svona ein.

En hvernig sem allt veltist fer ég á rúntinn út á Reykjanes í kvöld til að sækja Ólann.

Sólarupprás og Sigur Rós

Lífið er stórkostlegt. Sólarupprás er eitt af því sem gerir lífið stórkostlegt, Sigur Rós er annað. Saman verður þetta betra en nokkur víma.

Það er eiginlega sorglegt hvað maður upplifir sólarupprás sjaldan. Það er svo stórkostlegt að fylgjast með henni.

Las frábært spakmæli í bók um daginn sem er svo satt. Fagur morgunn, góð máltíð, vel unnið verk og þægilegur svefn. Slíkir hlutir skipta miklu máli fyrir líf okkar. Við getum notið lífsins og við eigum að syngja um það eins og fuglarnir. J. Z. Young.

Laugardagsmiðdegi

Ég er svo mikil svefnpurka. Afrekaði að sofa til næstum tvö og missti af því að fá gesti í hádeginu. En ég ætti þá að vera úthvíld.

Núna er ég mikið að spá í hvernig ég eigi að eyða deginum. Svo margir möguleikar. Veðrið úti er eiginlega of gott til að gera nokkuð innivið.

Var að lesa ótrúlega heimskulegt viðtal Við Rósu Ingólfs og dóttur hennar. Kaflinn um femínistanna og jafnréttið er svo ótrúlega heimskulegur að ég veit ekki hvernig er best að lýsa því. Rósa vill ekki að konur séu á þingi og finnst feðraorlof heimskulegt, konur eiga bara að vera fallegar, klikkir svo út með því að segja að jafnrétti náist aldrei. Það næst a.m.k. aldrei með svona hugsanagangi.

Ísbjarnafár

Ég held að við ættum að taka upp þá reglu að skjóta strax þá ísbirni sem þvælast til Íslands og menn verða varir við. Í fyrsta lagi stafar alltaf nokkur hætta af þeim því að nánast hvar sem þeir ganga á land eru þeir nálægt byggð (nema kannski á Hornströndum). Í öðru lagi er líklegt að þeir séu illa á sig komnir eftir langa ferð til Íslands (nema hugsanlega í þeim tilfellum þegar mikill hafís er við landið). Í þriðja lagi eru þetta gríðarlega kostnaðarsamar og hættulegar aðgerðir að flytja þá aftur til síns „heima“ og á meðan erum við að teppa mikilvæg björgunartæki eins og þyrlur og varðskip.

Ég veit vel að þeir eru í útrýmingarhættu en mér finnst það bara ekki þess virði að vera að púkka uppá þessi örfáu dýr sem villast hingað þó að það lúkki voða vel gagnvart „heiminum“.

Þetta finnst mér án þess að ég hafi nokkuð kynnt mér málið frekar en með lestri frétta undanfarnar vikur.

Meira sumar og sól

Það spáir bara 10-15 stiga hita og sól svo langt sem augað eygir. Það er eiginlega besta veður sem hægt er að hugsa sér. Ég er ekki hrifin af of miklum hita.

Ég var eiginlega búin að ákveða að taka mér frí eftir hádegi í dag. Í morgun var svo sendur út póstur um að allir sem hefðu tök á mættu taka sér sólarfrí eftir hádegi 🙂 Ég hugsa að ég taki mér nokkra styttri daga í næstu viku líka til að vinna uppá móti yfirvinnu síðustu vikna, sérstaklega ef veðurspáin gengur eftir.

Í tilefni sólarfrísins fór ég á Subway og keypti mér stóran bát á 600 kall (eitthvað tilboð hjá þeim þessa vikuna svo það er spurning um að lifa bara á Subway um helgina) og fór með hann heim og borðaði út á verönd á meðan ég fletti blöðunum. Fór svo í sund og synti heilan kílómeter, hef aldrei áður synt svo mikið í einni lotu. Merkilegast fannst mér að það var ekkert svo erfitt þrátt fyrir mikla sundleti síðustu vikur. Svo hékk ég aðeins í pottunum. Sit svo úti með tölvuna núna, maður sér reyndar frekar illa á skjáinn í allri þessari birtu en það sleppur.

Njótið sumarsins

Sumar og sól

Nú er ég orðin alein í Reykjavík. Fyrst fór Óli til N-Írlands, svo fóru Svenni, Hrönn og Freyr til Frakklands og svo fóru amma, afi og Ásta Hanna aftur til Vopnafjarðar. Það eru semsagt búnir að vera fjölskyldudagar hjá mér, sem er góð tilbreyting. Núna eru vinadagar teknir við, fór í saumaklúbb til Írisar í kvöld og svo ætlum við að hittast annaðkvöld bókasafnsgellur. Svo er helgin frekar óráðin sem er bara ágætt.

Fór áðan á rúntinn til að skoða fallega sólarlagið og Snæfellsnesið. Tók nokkrar myndir. Ég elska íslenskt sumar.

Er farin að hlakka til sumarfrísins 🙂