Hvað kostar útlitið?

Hvað ætli meðalkonan á Íslandi eyði í útlitið á ári? Við erum að tala um skuggalega háar tölur.

Það vantar eiginlega alveg í mig pæjugenið. Ég geri lítið í því að líta vel út. Ég hef enga sérstaka ánægju af því að snyrta mig til. Reyni þó að vera þokkalega snyrtileg og vildi stundum að ég hefði jafn mikinn metnað í þessum málum og margar kynsystur mínar.

Ég var aðeins að slumpa á það hvað ég eyði á ári í snyrtivörur (hársnyrtivörur, krem, maskara, gloss og þannig) og snyrtiþjónustu (klippingu, plokkun og litun, fótsnyrtingu og þannig). Þessi tala yrði sennilega aldrei undir 90 þúsund krónum. Samt fer ég bara 2-3 á ári í klippingu og þá yfirleitt á stofur í ódýrari kantinum, hjá frænkum mínum á Norðfirði eða hjá vinkonu minni sem klippir heima. Ég fer ca. 3 á ári í plokkun og litun á stofu. Ég fer ca. einu sinni á ári í eitthvað snyrtistofudekur eins og fótsnyrtingu eða handsnyrtingu. Ég kaupi afskaplega lítið af farða, ca. 1-2 maskara á ári, kannski 2-3 gloss, 1 meik og svo eitthvað smotterí umfram það. Ég kaupi ódýr krem og kaupi oftast sjampó og hárnæringu í Bónus en kaupi samt 1-2 á ári einhverjar fínni hárvörur á stofum. Svo er ýmislegt fleira sem þarf að kaupa til að líta þokkalega út. Þetta kostar mig lágmark 90000 kr. á ári, það er eins og ein ágætis utanlandsferð. Ég myndi giska að meðalkonan á Íslandi eyði ekki minna en 200000 kr. á ári í þetta því eins og áður sagði er ég einstaklega lítil pæja og kaupi ódýrar snyrtivörur. Algengt verð fyrir klippingu og litun/strípur er t.d. á bilinu 15-18 þúsund og ef maður fer á tveggja mánaða fresti þá gerir það eitt og sér a.m.k. 90 þúsund krónur á ári. 

Og svo þarf að kaupa föt, fylgihluti og skartgripi. Ég giska að ég eyði svona 150 þúsundum á ári í þessa hluti. Varðandi fataval er ég líka mjög lítil pæja, kaupi oft föt á útsölum og dýrasta flíkin sem á ég kostaði sennilega um 10.000 kr. Flest fötin mín eru keypt í Next, Hagkaup og H&M. Ég á ekki fleiri en 15 skópör og ég er yfirleitt alltaf í sömu skónum. Það vantar líka í mig skógenið.
Ég giska að venjuleg íslensk kona eyði um 300 þúsundum á ári í föt, fylgihluti og skartgripi.

Niðurstaðan er því að ég eyði um 240 þúsundum á ári í útlitið. Það er afskaplega lítið miðað við allt, samt finnst mér það hellingur því það má gera ýmislegt skemmtilegra eða gagnlegra fyrir þennan pening. Mitt gisk er að meðalkona á Íslandi eyði um hálfri milljón á ári í útlitið og það er sennilega frekar varlega áætlað.

Hvað eyðir þú miklu í útlitið?

4 thoughts on “Hvað kostar útlitið?”

 1. Ég held að þessar tölur sem þú nefnir séu ekki fjarri lagi. Ég hef tamið mér ósiði eins og að nota dýrar hárvörur og eyði því aðeins meiru en þú. Ég finn samt sjaldan fyrir pæjugeninu.

  Vona annars bara að þið Óli hafið það gott. Það gengur mjög vel hjá okkur litlu fjölskyldunni.

  Kv. Ida.

 2. Hef ekki gert kostnaðaráætlun á útlitinu.Er sennilega ódýrari en þú, enda bara sveitakelling. En hvenær fór skógenið úr þér? Ég man þá tíð að það var virkt 😉

 3. Mig grunar að ég slái öll met skóeign, eða skorti á henni, mér telst til að ég eigi 10 nothæf skópör og þá eru bæði takkaskór og reiðskór inni í þeirri tölu. Annars hef ég ekki hugmynd um hvað ég eyði almennt miklu í föt, snyrtingu og snyrtivörur, núna í bili meðan maður er bara endalaust á námsmannabudget vill það allavega verða fáránlega mikið út undan, hef t.d. ekki farið í klippingu í hálft ár því ég einfaldlega hef ekki tímt því :/ Samt tekst mér að eyða hellings upphæðum í ýmislegt annað ónauðsynlegra, ætli það þýði ekki bara að útlitið sé ekki sérlega ofarlega á forgangslistanum hjá mér? 😉

 4. Pæjugenið er algerlega fjarverandi hjá mér líka. Ég hugsa að ég nái meira að segja að slá þig út í litlum kostnaði.

  Síðasta klipping sem ég fékk, og þá var meira en ár síðan ég fékk þá þar á undan, kostaði mig 1000 krónur og það var 12 ára frænka mín sem framkvæmdi hana.

  Síðustu buxur sem ég keypti, og er bara mjög sátt við, kostuðu mig 99 krónur!

  Snyrtivörur forðast ég að kaupa því ég hvort eð er hendi þeim oft ónotuðum. Kaupi helst maskara og andlitskrem eftir þörfum eða nokkrum sinnum yfir árið.

  Ég fer aldrei á snyrtistofu og kannski á hárgreiðslustofu ca. einu sinni á þriggja ára fresti.

  Dýrasta flíkin mín kostaði reyndar 30 þúsund krónur en það er cintamani dúnúlpa sem ég fékk gjafabréf upp í þegar ég var þrítug.

  Ég ákvað að þykjast blind á alla tískustrauma þegar ég flutti suður yfir heiðar og bera við sveitastelpu-sakleysi ef einhver myndi setja út á útganginn á mér.

  En ég kann kannski alveg að velja mér fólk í kringum mig því ég hef ekki fengið mörg komment á það hvað ég sé sveitaleg. Held ég hafi fengið bara komment frá einum karlmanni. Ég mátti víst alveg við því að fara í ljós og svo spurði hann hvort mér hefði aldrei dottið í hug að fara í brjóstastækkun. Ég held að það verði ansi langt í það.

  Ég hef nóg annað við tímann minn og peningana að gera heldur en að rembast við það að vera falleg. Ég er svo andskoti skemmtileg líka að það væri ekki á það bætandi að vera óþolandi sæt líka! 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *