Hvað kostar útlitið?

Hvað ætli meðalkonan á Íslandi eyði í útlitið á ári? Við erum að tala um skuggalega háar tölur.

Það vantar eiginlega alveg í mig pæjugenið. Ég geri lítið í því að líta vel út. Ég hef enga sérstaka ánægju af því að snyrta mig til. Reyni þó að vera þokkalega snyrtileg og vildi stundum að ég hefði jafn mikinn metnað í þessum málum og margar kynsystur mínar.

Ég var aðeins að slumpa á það hvað ég eyði á ári í snyrtivörur (hársnyrtivörur, krem, maskara, gloss og þannig) og snyrtiþjónustu (klippingu, plokkun og litun, fótsnyrtingu og þannig). Þessi tala yrði sennilega aldrei undir 90 þúsund krónum. Samt fer ég bara 2-3 á ári í klippingu og þá yfirleitt á stofur í ódýrari kantinum, hjá frænkum mínum á Norðfirði eða hjá vinkonu minni sem klippir heima. Ég fer ca. 3 á ári í plokkun og litun á stofu. Ég fer ca. einu sinni á ári í eitthvað snyrtistofudekur eins og fótsnyrtingu eða handsnyrtingu. Ég kaupi afskaplega lítið af farða, ca. 1-2 maskara á ári, kannski 2-3 gloss, 1 meik og svo eitthvað smotterí umfram það. Ég kaupi ódýr krem og kaupi oftast sjampó og hárnæringu í Bónus en kaupi samt 1-2 á ári einhverjar fínni hárvörur á stofum. Svo er ýmislegt fleira sem þarf að kaupa til að líta þokkalega út. Þetta kostar mig lágmark 90000 kr. á ári, það er eins og ein ágætis utanlandsferð. Ég myndi giska að meðalkonan á Íslandi eyði ekki minna en 200000 kr. á ári í þetta því eins og áður sagði er ég einstaklega lítil pæja og kaupi ódýrar snyrtivörur. Algengt verð fyrir klippingu og litun/strípur er t.d. á bilinu 15-18 þúsund og ef maður fer á tveggja mánaða fresti þá gerir það eitt og sér a.m.k. 90 þúsund krónur á ári. 

Og svo þarf að kaupa föt, fylgihluti og skartgripi. Ég giska að ég eyði svona 150 þúsundum á ári í þessa hluti. Varðandi fataval er ég líka mjög lítil pæja, kaupi oft föt á útsölum og dýrasta flíkin sem á ég kostaði sennilega um 10.000 kr. Flest fötin mín eru keypt í Next, Hagkaup og H&M. Ég á ekki fleiri en 15 skópör og ég er yfirleitt alltaf í sömu skónum. Það vantar líka í mig skógenið.
Ég giska að venjuleg íslensk kona eyði um 300 þúsundum á ári í föt, fylgihluti og skartgripi.

Niðurstaðan er því að ég eyði um 240 þúsundum á ári í útlitið. Það er afskaplega lítið miðað við allt, samt finnst mér það hellingur því það má gera ýmislegt skemmtilegra eða gagnlegra fyrir þennan pening. Mitt gisk er að meðalkona á Íslandi eyði um hálfri milljón á ári í útlitið og það er sennilega frekar varlega áætlað.

Hvað eyðir þú miklu í útlitið?