Landslið á fjárvagni

Það er eiginlega alveg kostulegt að fylgjast með skrúðgöngunni sem er í sjónvarpinu núna. Handboltalandsliðið fer þar um fjárvagni meðan lýðurinn hyllir þá. Það er eitthvað krúttlega við þetta.

Þrjú ár í Grýtubakka

Í dag eru þrjú ár síðan við Óli fluttum í Grýtubakkann. Við höfum aldrei búið svo lengi á sama stað. Hingað til höfum við flutt annað hvert ár. En við erum ekkert á leiðinni að flytja í bráð.

Þegar við fluttum inn var Óli búinn að mála alla íbúðina með aðstoð vina og vandamanna á meðan ég var fyrir austan að leggja lokahönd á BA-verkefnið mitt. Ég olíubar svo gólfin í stofunni og eldhúsinu. Kvöldið sem við fengum íbúðina afhenta hafði Óli orð á því hvað gólflistarnir væru ljótir og datt í hug að rífa í einn til að athuga hvort auðvelt væri að ná honum af, eftir það varð ekki aftur snúið. Óli setti nýja gólflista á alla íbúðina. Síðan þá hefur lítið verið framkvæmt á heimilinu. Til marks um hvað þetta er mikið og leiðinlegt verk má geta þess að Svenni bróðir fór létt með að byggja heilt hús en það sem hann hefur ekki enn haft af að klára er einmitt að setja gólflista í húsið.

Til að hjálpa okkur við flutningana fengum við hóp af hraustum karlmönnum. Að öðrum ólöstuðum þá bar Freyr af í hraustleika, lét sig ekki muna um að taka hurðina af hjörunum og hljóp um með þvottavélina eins og hún var kassi með púðum. Minnir að ég hafi lítið þurft að gera annað en að fyrirskipa hvað ætti að fara hvert.

Það kemur alltaf einhver „flutningsfiðringur“ í mig á haustin. Þörf fyrir að taka til í skúffum og skápum og grisja draslið mitt svolítið. Löngun til að laga til, breyta og bæta. Sennilega er best að nýta sér þennan fiðring til gagns.

Hér er svo hægt að lesa allt um íbúðakaupin og gólflistana fyrir áhugasama

Gengið og hamingjan

Jibbí, íslenska handboltalandsliðið er komið í undanúrslit 🙂 Nú léttist brúnin á þjóðarsálinni. Ef svo heppilega vildi til að við næðum gullinu þá gæti sú hamingja enst fram að jólum þrátt fyrir alla kreppuna. Hamingja þjóðarinnar er nefnilega beintengd gengi íslenska handboltalandsliðsins, miklu frekar en gengi íslensku krónunnar.

Bloggiblogg

Já, borgarstjórnin…það þýðir víst ekki að pirra sig á því, bara anda rólega og taka því sem að höndum ber og kannski hrista aðeins höfuðið yfir fréttatímanum og brosa útí annað þegar það á við.

Annars er ýmislegt skemmtilegt framundan eins og saumaklúbbur, Menningarnótt, tónleikar með Hraun, hugsanlega Vopnafjarðarferð, badminton, fæðing Rósu- og Jónbjörns barns, Skotlandsferð og svo fer bara að styttast í jólin 🙂 Haustið er soltið skemmtilegur tími.

Annars er bara mest lítið að frétta.

Skítapakkið í Ráðhúsinu

Er virkilega ekki hægt að kjósa aftur þegar staðan er orðin eins og hún er í dag? Klúður á klúður ofan. Það vill enginn vinna með Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn, skiljanlega. Við sitjum uppi með 6 borgarfulltrúa frá þessum skítaflokki en samkvæmt niðurstöðum skoðanakannanna undanfarið ættu þeir ekki að vera fleiri en fjórir. Ef kosið yrði núna er ég þó fullviss um að fylgið myndi fara vel yfir 30% hjá þeim. Það er í alvörunni til svo mikið af vitlausu fólki í Reykjavík.

Það sem mögulega gæti bjargað þessu er að sexmenningarnir myndu allir segja af sér og kalla inn varamenn sem eru ekki alveg jafn djúpt sokknir í svaðið. Og Hanna Birna ætti að einbeita sér að því að byggja upp starfsframa á öðrum vettvangi. Hennar tími er liðinn í stjórnmálum.

Sjallarnir eru langt komnir með að senda Óla F. aftur í veikindaleyfi og það er kannski það besta sem gæti hent því þá kemur Magga S inn aftur og skárri helmingur borgarstjórnar tæki við aftur.