Gengisspenna

Þessa dagana fyllist ég gríðarlegri spennu um kl. 9.15 á morgnanna. Hvað gerist þá? Jú, markaðirnir opna og…gengið fellur. Ég er með Landsbankavefinn opinn allan daginn og rílóda reglulega og gengi gjaldmiðlanna skoppar upp og niður, stundum um margar krónur í einu rílódi! Mánudagarnir eru sérstaklega spennandi.
Svo fer maður ósjálfrátt að veðja við sjálfan sig… Skyldi danska fara í 20 kallinn í dag? Skyldi Evran fara yfir 150 kallinn fyrir lok vikunnar?

Svo veltir maður aðeins fyrir sér afleiðingunum og veltir því fyrir sér hvort maður ætti að hamast við að versla og versla núna fyrir mánaðarmótin af því að búast má við gríðarlegum verðhækkunum eftir mánaðarmót. Eða ætti maður heldur að vera bjartsýnn og reikna með að gengið sígi niðrá við eftir mánaðarmótin.

Svo getur maður líka velt því fyrir sér hvað maður ætti að taka með sér í nesti til Edinborgar. Því það er ekkert vit í að kaupa sér mat á þessu gengi.

Hvað er skuldatryggingaálag?

Spyr sú sem ekki veit…

Það er oft talað um þetta í fréttunum, skuldatryggingaálag bankanna ýmist hækkar eða lækkar en hækkar samt aðallega þessa dagana og mér skylst að það sé áhyggjuefni. Ég vil vita hverju ég á að hafa áhyggjur af.

Gardínur og gluggatjöld

Kann eitthvert ykkar á svona gluggatjaldadót. Ég er að spá í að láta sauma gardínur fyrir svefnherbergisgluggana hjá okkur, bara einhverjar frekar plain gardínur. Ætlaði að fara í Gardínubúðina í Mjódd en hún er víst bara farin yfir um svo að ég er dáldið lost. Ætli það sé ógeðslega dýrt að láta sauma svona?

Haddaway á leið til landsins!!!…og Týr

OMG, Haddaway er á leið til landsins. Verður á Nasa 3. október. Verst að það eru allar líkur á að ég komist ekki 🙁 Haddaway hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég fór á fyrsta diskótekið í 5. bekk eða eitthvað. Ohh, hvað það er svekkjandi að missa af þessu. Ég treysti á ykkur hin að mæta 😉

En Týr er líka að koma til landsins svo ég er sátt 🙂 Þeir verða á Nasa 4. október. Mikið hlakka ég til. Ég treysti líka á ykkur að mæta þar 🙂

Sveitin

Ég er ekkert mikið að blogga þessa dagana. En það er svo sem ekkert mikið um að vera.

Ég fór í sveitina mína um daginn. Fékk yndislegt veður. Svenni, Hrönn og Freyr litli komu yfir. Það var ósköp gaman að hitta þau. Freyr er farin að tala heilmikið en ég er ekki sú besta í að skilja hann en það fer ekkert á milli mála þegar hann segir Eygló, því það gerir hann afskaplega skýrt og skilmerkilega. Við fórum uppí Urðardal sem var æði þrátt fyrir slakt þol hjá mér. Við tókum Frey með í bakpoka, pabbinn bar hann upp og mamman niður, svo skiptumst við á að týna ber uppí prinsinn í hásætinu 🙂

Ég var svo afskaplega jarðbundinn fyrir austan. Eyddi 12 tímum í að róta í moldinni og grafa eftir gull…auga. Frábært að komast loksins í kartöfluupptöku, fékk svo 11 kg af kartöflum með í nesti.

Ég tók nokkur „verkefni“ með mér austur sem ég afhenti elsku ömmu. Tók með mér eina götótta peysu, eina peysu sem ég vildi fá tölu á og slatta af garni. Amma var ekki lengi að laga götóttu peysuna og búa til hnappagat og festa töluna. Svo var ég að blátt vesti í póstinum áðan sem smellapassar. Ég á bestu ömmu í heimi.

Svo fór ég þrisvar í bestu sundlaug í heimi. Það var ósköp ljúft nema í eitt skiptið þegar fullur veiðikall þurfti endilega að koma í sund á sama tíma og við. Hann var semsagt svo frábær að hann reyndi að koma inní kvennaklefann bæði þegar við vorum í sturtu og þegar við vorum að klæða okkur. Ég er ansi hrædd um að þetta sé það sem koma skal þar sem verið er að reisa veiðihótel í fimm mínútna göngufæri frá sundlauginni. Mér finnst það ekki sniðugt.

Jæja, bara aðeins að láta af mér vita og gleðja aðdáendur mína 🙂

120 milljónir á ári

Það kostar ríkið um 10 milljónir á mánuði eða um 120 milljónir á ári að hækka launin við ljósmæður svo þær fái sæmandi laun. Það eru ekki miklir fjármunir í stóra samhenginu. Hvað ætli mörgum 120 milljónum sé eytt á hverju ári í vitleysu eins og handboltaferðir menntamálaráðherra?

Ég hugsa að viðsemjendur séu setji þessar milljónir ekki fyrir sig. Ég hef grun um að þeir hræðist afleiðingarnar, þ.e. að aðrar kvennastéttir taki uppá því að feta í fótspor ljósmæðra og krefjast leiðréttingu sinna launa.

350 þúsund þykja ekki háar tekjur

Ég hlustaði á viðtal við Geir H. Haarde forsætisráðherra og Steingrím J. Sigfússon formann Vinstri grænna í Kastljósinu í gærkvöldi. Þar var m.a. rætt um hátekjuskatt. Þar sagði forsætisráðherrann orðrétt um hátekjuskattinn: „Hann byrjaði nú í 350 þúsundum, það þykja nú ekki háar tekjur.“

Hátekjuskattur var að fullu afnuminn um áramótin 2005-2006, svo að þessar 350 þúsund væru nú eitthvað hærri í dag hefði hátekjuskatturinn ekki verður lagður af. En mér heyrðist forsætisráðherrann ekki vera spenntur fyrir því að taka upp hátekjuskatt að nýju. Hann vill halda áfram að gera hina ríku ríkari.

Hvernig dettur forsætisráðherra að láta svona út úr sér? Fyrir okkur sem erum með lægri laun en 350 þúsund er þetta eins og blaut tuska í andlitið. Það er fullt af fólki sem er með fínar prófgráður uppá vasann og sinnir krefjandi störfum sem eru með minna en 350 þúsund á mánuði. Það eru heilu stéttirnir þar sem enginn eða fáir hafa meira en 350 þúsund í laun. Má þar bara nefna sem lítil dæmi kennara og ljósmæður. Ég er viss um að þetta fólk væri alveg til í að borga hátekjuskatt hefði það 400 þúsund á mánuði.

En ég get alveg tekið undir orð forsætisráðherrans, 350 þúsund þykja ekki háar tekjur. Mér þætti samt ágætt að hafa þau laun.