Ég hlustaði á viðtal við Geir H. Haarde forsætisráðherra og Steingrím J. Sigfússon formann Vinstri grænna í Kastljósinu í gærkvöldi. Þar var m.a. rætt um hátekjuskatt. Þar sagði forsætisráðherrann orðrétt um hátekjuskattinn: „Hann byrjaði nú í 350 þúsundum, það þykja nú ekki háar tekjur.“
Hátekjuskattur var að fullu afnuminn um áramótin 2005-2006, svo að þessar 350 þúsund væru nú eitthvað hærri í dag hefði hátekjuskatturinn ekki verður lagður af. En mér heyrðist forsætisráðherrann ekki vera spenntur fyrir því að taka upp hátekjuskatt að nýju. Hann vill halda áfram að gera hina ríku ríkari.
Hvernig dettur forsætisráðherra að láta svona út úr sér? Fyrir okkur sem erum með lægri laun en 350 þúsund er þetta eins og blaut tuska í andlitið. Það er fullt af fólki sem er með fínar prófgráður uppá vasann og sinnir krefjandi störfum sem eru með minna en 350 þúsund á mánuði. Það eru heilu stéttirnir þar sem enginn eða fáir hafa meira en 350 þúsund í laun. Má þar bara nefna sem lítil dæmi kennara og ljósmæður. Ég er viss um að þetta fólk væri alveg til í að borga hátekjuskatt hefði það 400 þúsund á mánuði.
En ég get alveg tekið undir orð forsætisráðherrans, 350 þúsund þykja ekki háar tekjur. Mér þætti samt ágætt að hafa þau laun.