350 þúsund þykja ekki háar tekjur

Ég hlustaði á viðtal við Geir H. Haarde forsætisráðherra og Steingrím J. Sigfússon formann Vinstri grænna í Kastljósinu í gærkvöldi. Þar var m.a. rætt um hátekjuskatt. Þar sagði forsætisráðherrann orðrétt um hátekjuskattinn: „Hann byrjaði nú í 350 þúsundum, það þykja nú ekki háar tekjur.“

Hátekjuskattur var að fullu afnuminn um áramótin 2005-2006, svo að þessar 350 þúsund væru nú eitthvað hærri í dag hefði hátekjuskatturinn ekki verður lagður af. En mér heyrðist forsætisráðherrann ekki vera spenntur fyrir því að taka upp hátekjuskatt að nýju. Hann vill halda áfram að gera hina ríku ríkari.

Hvernig dettur forsætisráðherra að láta svona út úr sér? Fyrir okkur sem erum með lægri laun en 350 þúsund er þetta eins og blaut tuska í andlitið. Það er fullt af fólki sem er með fínar prófgráður uppá vasann og sinnir krefjandi störfum sem eru með minna en 350 þúsund á mánuði. Það eru heilu stéttirnir þar sem enginn eða fáir hafa meira en 350 þúsund í laun. Má þar bara nefna sem lítil dæmi kennara og ljósmæður. Ég er viss um að þetta fólk væri alveg til í að borga hátekjuskatt hefði það 400 þúsund á mánuði.

En ég get alveg tekið undir orð forsætisráðherrans, 350 þúsund þykja ekki háar tekjur. Mér þætti samt ágætt að hafa þau laun.

2 thoughts on “350 þúsund þykja ekki háar tekjur”

  1. Mig langar til að bæta við dæmin þín um kennara og ljósmæður að læknakandídatar á Íslandi hafa vel innan við 300 þúsund krónur í laun eftir sex ára nám og mikla ábyrgð í starfi. Þekki strák sem var með nærri því tvöföld þau laun eftir stúdentspróf í átta til fjögur vinnu við forritun.

    Svo sagði Geir eitthvað á þá leið í gærkvöld að það ætti ekki að refsa ungu fólki fyrir dugnað.

  2. Ef við horfum framhjá 350 þúsundköllunum þá finnst mér þessi endurtekna afsökun og réttlæting Geirs (og Ingibjörg notar hana einnig) á að fella hátekjuskattinn niður, ansi veik. Vegna þess að hann var farinn að snerta fólk með meðallaun þá er hann felldur niður. Í stað þess að fella hann niður mátti alveg hækka þessi mörk á móti, t.d. þeir sem væru með kr. 750.000,- á mánuði fengju hann á sig. Þetta eru nú þeir tveir einstaklingar sem hafa hvað mest um stjórn landsins að segja nú um stundir og það verður að segjast að svona málflutningur virkar eins og allir aðrir sjái ekki í gegn um þessi rök. Það er ekki að ástæðulausu að sumir eru í stjórnmálum og aðrir á atvinnumarkaðinum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *