Stemmari að vera ég

Það er furðuleg stemmning á Íslandi í dag. Það veit enginn hvert við stefnum. En miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja og liggja í loftinu virðist þó allt stefna hraðbyri til andskotans. Það er óþægilegt að vita ekki hvað er framundan, auðvitað veit maður það aldrei en það hefur oft verið auðveldara að giska. Fimmtudaginn 16. október skrifaði ég að það væri þessi lúmska óvissa sem væri að plaga mig. Síðan eru liðnar 3 og hálf vika og óvissan hefur bara aukist.

Ég get samt ekki sagt annað en að ég hafi það fínt þrátt fyrir hið furðulega þjóðfélagsástand. Ég reyni að gera mér ýmislegt til skemmtunar þrátt fyrir það. Ég fer í badminton tvisvar í viku með Óla og Sigga og Sigrúnu og stundum Árna Sigrúnarbróður. Ég fór til Edinborgar með Óla og megninu af vinnufélögunum aðra helgina í október, fræddist um skólastarf í Edinborg, borðaði núðlur á 4* hótelherbergi, drakk Tópas á hótelbarnum, verslaði lítið og fór á Queen tónleika. Ég fór á Vantrúarárshátíð um miðjan október sem var auðvitað feiknafjör eins og við var að búast. Sama dag fór ég í afmæli hjá Þóreyju Erlu, dóttur Davíðs, gaman að koma loksins til þeirra. Ég hélt saumaklúbb fyrir saumósgellurnar og við áttum saman kósý kvöldstund. Mamma og Svenni voru í bænum undir lok október, verslaði með mömmu og svo áttum við saman eitt kvöld þar sem við fórum út að borða, tókum ísrúnt og enduðum í kósý sjónvarpskvöldi. Ég fór í útskriftarveislu til Sigrúnar og á Nýdanskra tónleika eitt kvöldið. Ég fór á námskeið í verkefnastjórnun í lok október ásamt Helgu vinkonu. Á fimmtudaginn fór ég út að borða á Ítalíu með nokkrum þjóðfræðigellum sem ég hef ekki hitt lengi, gaman að hitta þær loksins og skiptast á fréttum. Og áðan fórum við til Árnýjar, Hjörvars og fjölskyldu í mat og spil sem stendur alltaf fyrir sínu. Við Óli erum líka alltaf að brasa eitthvað skemmtilegt t.d. erum við nýbúin að horfa á allar Back to the Future myndirnar og svo stendur yfir endalaust Scrubs maraþon. Við skemmtum okkur svo að sjálfsögðu konunglega yfir innkaupaferðum í Bónus, þvottum, uppvaski, bakstri og eldamennsku enda er leikurinn til þess gerður 🙂 Svo nota ég hvert tækifæri til að mótmæla þessu helv… rugli sem íslenska þjóðin er nú látin ganga í gegnum.