2008 var árið sem…

…borgarstjórnarmálin voru í tómu tjóni
…tveir ísbirnir gengu á land á Íslandi í júní
…forsætisráðherra var í afneitun megnið af árinu
…jörð skalf á Suðurlandi
…fullt af fólki missti vinnuna
…gengi íslensku krónunnar hrundi
…Ólafur F. var borgarstjóri í 7 mánuði
…síldin sýktist
…mótmæli voru áberandi
…ráðamenn skitu ítrekað í buxurnar…og eru enn að
…svo margt margt fleira gerðist

Og á persónulegri nótum var 2008 árið sem…

…við Óli trúlofuðum okkur á Trafalgar Square í London, brúðkaup auglýst síðar
…ég fór til London í fyrsta sinn en vonandi ekki síðasta sinn
…ég varð 25 ára
…ég fór á Norðfjörð um páskana
…ég fór í vorbústaðaferð með saumó og þau haugsnjóaði svo við áttum í erfiðleikum með að komast heim
…ég var í viku á Rauðhólum í sauðburði, samkvæmt venju

…ég fór til Svíþjóðar með Óla, Hafdísi, Mumma og Sóleyju
…Anna Steina mágkona og Martin giftu sig í Borlänge
…við áttum tvo góða rigningardaga í Stokkhólmi
…við skruppum frá Stokkhólmi til Köben til að fara á Týstónleika
…Rósa og Jónbjörn giftu sig og eignuðust Ósk Laufeyju
…Siggi og Sigrún giftu sig, sama dag og R og J svo við komumst ekki
…ég fór í fyrsta skipti til Ísafjarðar

…ég fór í haustferð til Vopnafjarðar, tók upp kartöflur og týndi ber
…ég fór á ferna Týstónleika á Íslandi í október
…ég fór með Óla og vinnufélögunum til Edinborgar
…ég fór á Queen tónleika í Glasgow
…var fyrsta heila árið mitt á Menntasviði
…ég átti fullt af góðum stundum með fjölskyldu og vinum en hefði svo gjarnan viljað hafa þær miklu fleiri

Gleðilegt ár og takk fyrir öll gömlu!

Styrkjum björgunarsveitirnar – ekkert endilega með flugeldakaupum

Ég er einlægur aðdáandi flugelda, a.m.k. þegar þeim er skotið upp á viðeigandi tímum eins og gamlárskvöldi, þrettándanum og á skipulögðum flugeldasýningum eins og á menningarnótt. Ég horfi dolfallin á þessi prik skjótast uppí loftið og springa út með marglitum ljósum. En sjálf geri ég lítið af því að kaupa flugelda. Hef yfirleitt látið mér nægja að kaupa nokkur stjörnuljós svona uppá stemmninguna.

Nú er mikið talað um að við eigum að kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitirnar okkar. En það eru til betri leiðir til að styrkja björgunarsveitir heldur en að kaupa 20.000 króna risatertu sem veitir einnar mínútu ánægju eða hvað það nú er sem fólk er að kaupa. Það er hægt að fara á vef Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, velja þar þá upphæð sem þú vilt styrkja Slysavarnarfélagið um og jafnvel velja þá björgunarsveit eða slysavarnadeild sem þú vilt helst styrkja. Þú getur svo valið hvort þú vilt taka þetta út af korti eða fá sendan greiðsluseðil. Þú færð ekkert í hendurnar fyrir peninginn en björgunarsveitin fær peninginn óskiptan.

Njótið áramótanna og vonandi kaupa nú einhverjir flugelda – sem ég get svo horft á alveg frítt 😉

Styrkjum björgunarsveitinar!