13.500 krónur

Mér finnst það algjörlega fáránlegt að að það sé bara hægt að fresta umsömdum launahækkunum af því að sum fyrirtæki eru hugsanlega í vanda. Það vill nefnilega svo til að sumir einstaklingar eru líka í vanda og veitir ekkert af t.d. 13500 krónum aukalega í launaumslagið á mánuði. Afborganir af lánum hafa hækkað gríðarlega síðustu mánuði, sama má segja um verð á matvörum og nánast öllu sem fólk þarf að kaupa til að reka heimili og lifa af.

Verkalýðshreyfingin má ekki bara lúffa. Hún á að berjast fyrir launþega í landinu, ekki veitir af. Þau fyrirtæki sem ekki höndla það að veita starfsfólki sínu 13500 króna launahækkun á mánuði eiga sennilega eftir að rúlla yfirum hvort eð er.

Svo er 13500 ekkert endilega heilög tala, það hefði e.t.v. mátt semja um einhvern milliveg þarna.

Launþegar mega ekki láta halda sér niðri endalaust með þeirri hótun sem er notuð óspart á okkur þessa dagana…að ef þeir haldi ekki kjafti og vinni vinnuna sína (sama á hvaða lúsarlaunum) þá eigi þeir á hættu að missa vinnuna eða maðurinn á næsta borði.

Nýr viðskiptavinur Nýja Kaupþings

Nú er SPRON víst búið að vera. Og þar með er ég orðin viðskiptavinur Kaupþings. Ég er ekkert óskaplega kát með það. En hvaða bankastofnun er skárri? Ef einhverjir af litlu Sparisjóðunum lifa af þá er spurning um að færa sig þangað.

Það er hálfóþægilegt að vita af því að það sé verið að millifæra peningana manns í annan banka. En maður veit svo sem að það verður allt í lagi. Og maður þarf víst ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þeir felli niður lánin hjá manni 😉

Forval VG

Þá er búið að velja í fimm efstu sætin á lista VG í Reykjavíkurkjördæmunum. Ég get verið sátt því mínar uppáhaldskonur eru allar á topp 10. Ég hefði samt alveg viljað sjá Steinunni og Auði sæti ofar eða svo. Katrín fékk algjörlega frábæra kosningu, um 80% þeirra sem kusu í forvalinu settu hana í fyrsta sæti.

Kolbrún Halldórsdóttir kom ekkert sérstaklega vel út úr þessu. Lenti í 6. sæti forvalsins sem þýðir 3. sæti á öðrum hvorum listanum. Mér finnst að hún ætti að draga sig í hlé enda alveg glatað ef hún verður í baráttusæti listans. Hún er óvinsæl utan flokks og umdeild innan flokks. Held hún ætti frekar að einbeita sér að leiklistinni eða einhverju öðru sem hún er betri í en pólitík.

En annars er ég bara sátt við niðurstöðuna 🙂

Barnadót og bílapælingar

Ég er voðalega mikið að hugsa um allskonar barnadót þessa dagana. Það sem ég er helst að velta fyrir mér er hvernig barnavagn maður ætti að kaupa, hvort ömmustólar eru sniðugir, hvort að vagga sé málið og hvernig barnabílstólar eru bestir. Þið megið endilega deila ykkar reynslu því við erum frekar lost í þessu.

Svo erum við líka að íhuga að kaupa nýjan bíl bráðlega (þó við séum ekkert sérlega spennt fyrir því að losa okkur við elsku Micruna). Bíllinn þarf að vera rúmgóður (rúma barnavagn) og sparneytinn (helst ekki eyða mikið meira en Nissan Micra ’95). Og hann má ekki vera eldri en árgerð 2000, ekki óhóflega mikið keyrður og helst ekki kosta mikið, milljón er algert hámark. Ef einhver sem les þetta hefur vit á þessu má líka deila upplýsingunum 🙂

Katrín, Auður og Steinunn

Á morgun er stór dagur. Forval hjá VG í Reykjavík. Þrjár kvinnur eru öruggar um mitt atkvæði; Katrín Jakobsdóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Gæti vel hugsað mér að sjá þær allar inná þingi eftir kosningar. Svo þarf ég að finna sjö aðra álitlega kosti – ég hlýt að finna út úr því.

Já, blogg…

Það hefur ekki verið mikil blogggleði síðustu vikurnar. Einhvernveginn er bloggið svolítið að víkja fyrir Facebook. Blogg er samt miklu skemmtilegra en Face.

Það sem er helst að frétta þessa dagana er auðvitað að ég er ófrísk, komin fimm mánuði á leið. Það gengur voða vel og ég er að verða ansi stór.

Svo er ég líka orðin 26 ára. Ég held jafnvel að ég sé að verða fullorðin en ég hef svosem haldið það nokkrum sinnum áður án þess að nokkuð gerist 😉

Ég skrapp austur í sveitina um helgina og hélt uppá afmælið mitt þar. Gott að hitta fjölskylduna loksins en ég var ekki búin að fara austur í hálft ár.

Hafið það gott 🙂