Vilja Íslendingar í ESB?

Mér finnst frekar furðulegt að túlka niðurstöður kosninganna um helgina þannig að Íslendingar vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Ég efa það að allir sem kusu Samfylkinguna, Borgarahreyfinguna og Framsókn vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Mig grunar að fólk hafi verið að hugsa um margt fleira þegar það var að ákveða hvernig það myndi verja atkvæði sínu eins og t.d. efnahagsmál, atvinnumál, heilbrigðismál og jafnréttismál og bara almennt hvernig menn vilja sjá samfélagið þróast á næstu mánuðum og árum. Og ég efa að allt þetta fólk haldi að ESB sé einhver töfralausn í öllum málum. Svo voru væntanlega margir sem kusu bara sína flokka af gömlum vana án þess að hugsa um málefnin, fortíðina og framtíðina.

Könnun sem var gerð í byrjun apríl (já árið 2009) sýnir að meirihluti landsmanna er andvígur aðildarviðræðum.

En ég er helst á því að við verðum að fara í viðræður svo það sé hægt að fara að hugsa um eitthvað annað. Því ESB umræðan verður yfir og allt um kring hvort sem við sækjum um eða ekki. Það er líka ekkert að því að fá að sjá svart á hvítu hvað er í boði. Annars finnst mér vanta vitræna umræðu um þessi mál, flest sem við heyrum eru bara frasar. Mér finnst ég líka aldrei hafa heyrt neitt af viti frá Samfylkingunni um ESB, bara frasann að við verðum að sækja um.

Sigmundi Davíð ekkert kappsmál að verða þingmaður

Það er frekar spes að heyra formann stjórnmálaflokks sem skipar 1. sæti framboðslista lýsa því yfir 10 dögum fyrir kosningar að það sé honum ekkert sérstakt kappsmál að verða þingmaður og að það séu til mörg skemmtilegri störf. Svolítið eins og að játa ósigur áður en að baráttan er búin.

En hann getur huggað sig við það að ég ætla ekki að kjósa hann svo vonandi fær hann eitthvað skemmtilegra að gera en að húka inná þingi.

Ekki til peningar

Voðalega finnst mér þetta óþægileg frétt. Að Seðlabankinn sé að reyna að koma í veg fyrir að MP kaupi útbúanet Spron því að Kaupþing hafi ekki bolmagn til að greiða út inneignir fyrrum viðskiptavina Spron (sem mögulega myndu færa sig til MP) sem þau voru að „eignast“ fyrir hálfum mánuði.

Þó að ég viti að það eru ekki til pappírspeningar fyrir nærri öllum inneignum alltaf þá gerir þetta manni enn ljósara að það sem maður á inni í banka eru bara tölur á tölvuskjá (og það hefur sennilega verið það sem var fært á milli þarna um daginn, tölurnar á skjánum en engir raunverulegir peningar). Nú langar mig eiginlega enn meira til að færa mig frá Kaupþing til að lenda ekki í því aftur að bankinn minn þurrkist út. En staðan er sjálfsagt ekki mikið betri í Landsbankanum eða Íslandsbanka og staða Sparisjóðanna úti á landi eru enn svolítið óljós.

Það er engin sæla að þurfa að eiga í bankaviðskiptum á Íslandi árið 2009.