Vilja Íslendingar í ESB?

Mér finnst frekar furðulegt að túlka niðurstöður kosninganna um helgina þannig að Íslendingar vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Ég efa það að allir sem kusu Samfylkinguna, Borgarahreyfinguna og Framsókn vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Mig grunar að fólk hafi verið að hugsa um margt fleira þegar það var að ákveða hvernig það myndi verja atkvæði sínu eins og t.d. efnahagsmál, atvinnumál, heilbrigðismál og jafnréttismál og bara almennt hvernig menn vilja sjá samfélagið þróast á næstu mánuðum og árum. Og ég efa að allt þetta fólk haldi að ESB sé einhver töfralausn í öllum málum. Svo voru væntanlega margir sem kusu bara sína flokka af gömlum vana án þess að hugsa um málefnin, fortíðina og framtíðina.

Könnun sem var gerð í byrjun apríl (já árið 2009) sýnir að meirihluti landsmanna er andvígur aðildarviðræðum.

En ég er helst á því að við verðum að fara í viðræður svo það sé hægt að fara að hugsa um eitthvað annað. Því ESB umræðan verður yfir og allt um kring hvort sem við sækjum um eða ekki. Það er líka ekkert að því að fá að sjá svart á hvítu hvað er í boði. Annars finnst mér vanta vitræna umræðu um þessi mál, flest sem við heyrum eru bara frasar. Mér finnst ég líka aldrei hafa heyrt neitt af viti frá Samfylkingunni um ESB, bara frasann að við verðum að sækja um.

4 thoughts on “Vilja Íslendingar í ESB?”

 1. Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti ESB, myndi líklegast segja já við því að fara í aðildarviðræður en á erfitt með að segja hvort ég vilji aðild eða ekki fyrr en það skýrist hvað þetta þýðir fyrir okkur nákvæmlega.

  Það er helst landbúnaðurinn sem ég hef áhyggjur af því þegar/ef við göngum inní Evrópusambandið erum við um leið að ganga í tollabandalag þar sem tollar verða lægri af landbúnaðarvörum framleiddum innan ESB sem eru fluttar til Íslands. Þetta verður líklega til þess að íslenskur landbúnaður dregst saman, a.m.k. einhverjar greinar hans. Auðvitað gott og blessað að einhverjar líkur eru á að neytendur fái ódýrari vörur en ég hef áhyggjur af því að þetta komi hart niður á dreifðari byggðum landsins. Ég vil sjá allt landið í byggð (en sú þróun að byggð í sveitum landsins sé á undanhaldi er reyndar löngu hafin og spurning hvort ESB hafi þar áhrif til góðs eða ills).

  Og aðeins meira um tolla. Þó að tollar af vörum framleiddum í ESB muni lækka koma tollar af vörum framleiddum utan ESB líklegast til með að hækka. Svo kannski kemur þetta út á eitt nema við breytum neysluhegðun okkar.

  Og það kostar að vera í Evrópusambandinu en á móti komum við til með að fá einhverja styrki. Spurningin er bara hvernig dæmið kemur út á endanum. Einhversstaðar sá ég tölur um að þetta myndi kosta 8 milljarða á ári en við myndum fá um 5 milljarða á móti m.a. í formi styrkja.

  En mér finnst sárlega vanta meiri umræðu bæði um kosti og galla. Þetta er nefnilega mál sem hefur áhrif á svo margt í samfélaginu.

 2. Ef ég skil fréttina rétt þá tóku 77,5% þátttakenda afstöðu til þess hvort Ísland ætti að sækja um aðild.

  54,4% af þessum 77,5% voru andsnúin aðildarviðræðum. Fyrirsögnin „Meirihluti landsmanna andvígur umsókn um aðild að Evrópusambandinu“ er því röng (ef ég skil þetta rétt)…

  Annars bara bestu kveðjur til þín og krílisins 🙂
  Ida.

 3. 54,4% þeirra sem tóku afstöðu voru andsnúin aðildarviðræðum. Við vitum auðvitað ekki hvaða afstöðu þeir sem ekki vildu taka þátt í könnuninni hafa. 77,5% er ágætis svarhlutfall, kannanirnar sem voru gerðar fyrir kosningarnar voru yfirleitt með rétt rúmlega 60% svarhlutfall.

  Ég held semsagt að það sé alveg réttlætanlegt að setja fram svona fullyrðingar út frá þessari könnun.

  Svo er annað mál að aðildarviðræður eru eitt og aðild annað og fólk ruglar því kannski aðeins saman. Ég myndi t.d. líklega sjá við aðildarviðræðum en veit ekki með aðild.

  Og sömuleiðis kveðjur til þín Ída og stóra krílisins (sem ég á enn eftir að hitta!) 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *