Óléttublogg…

Best að blogga smá. Helv.. Facebook er alveg búið að taka yfir megnið af tímanum sem maður eyðir í tölvunni. Það er eitthvað við Facebook sem dregur mig þangað inn aftur og aftur og yfirleitt oft á dag. Ég skoða statusana hjá Facebook vinum mínum, tek netpróf, sendi skilaboð, skrifa á veggi, skoða myndir o.s.frv. Það er einhvernveginn endalaust hægt að hanga þarna inni. Það er svo sem áhugavert að sjá hvað þessi og hinn er að gera, hvað hann var að elda, hvert hann ætlar að fara um helgina, hvað hann var að kaupa, hvað honum finnst um ummæli einhvers pólítíkusar, hvað honum finnst um veðrið o.s.frv. En þetta verður til þess að manni finnst maður „vera í sambandi“ við fólk sem maður á í raun aldrei „raunveruleg“ samskipti við.

Það er annars lítið að frétta. Ég er bara ólétt og það kemst lítið annað að þessa dagana. Ég er orðin þung á mér og finn fyrir því í hverju skrefi að ég sé ólétt. Er með nokkra skemmtilega fylgikvilla eins og brjóstsviða og grindarverki og þarf endalaust að pissa en er annars bara hress. Fólk hefur almennt mikinn áhuga á heilsufari mínu núna. Krílið lætur vita af sér reglulega og það er mjög gaman að finna það sparka og ekki síður að sjá þegar bumban gengur í bylgjum 🙂 Svo er ég endalaust að hugsa um barnadót. Erum búin að kaupa kerru, bílstól og taubleyjur, búin að fá ýmislegt dót og föt frá Rósu vinkonu og Árnýju og Hjörvari og svo fáum við  vöggu og skiptiborð að austan eftir nokkrar vikur. Svo eru vagnapælingar í gangi þessa dagana.
Núna eru bara tveir mánuðir þangað til þetta brestur allt saman á. Ég er ekkert mjög stressuð fyrir þessu öllu og bjartsýn á að þetta gangi vel.

Um daginn tókum við til í geymslunni, hentum slatta og endurskipulögðum slatta. Svo nú er geymslan orðin snyrtileg og hægt að fara að hlaða meira dóti þar inn 😉 Endurskipulögðum líka aðeins hérna uppi. Þetta er auðvitað allt gert til að undirbúa komu barnsins.

Góðar stundir…