Verjum störfin eða hvað?

Nú eru kosningar framundan. Ég bý í Reykjavík og fæ því að kjósa til borgarstjórnar. Sumir flokkar hafa það á stefnuskrá sinni að verja störfin hjá borginni og jafnvel að halda áfram að verja störfin. Það er göfugt og gott markmið. Nú vinn ég hjá borginni og jú mikið rétt það er ekki verið að segja upp fólki. En það er afskaplega lítið um nýráðningar, ef einhver hættir t.d. vegna aldurs, eða fer í veikindaleyfi, fæðingarorlof og þess háttar er oft ekki ráðið inn í staðinn eða eins og í mínu fæðingarorlofi þar sem ráðin var 50% afleysing í mitt 100% starf.

Að mínu viti er ekki verið að verja störfin. Það er verið að leggja helling af störfum niður. Að mati Vinnumálastofnunnar hafa 38 þúsund störf tapast á landinu síðan í október 2008. Þrjátíuogáttaþúsund störf tapast á 20 mánuðum. Hvað skyldu mörg störf hafa tapast hjá Reykjavíkurborg?