Við erum komin heim eftir gott frí á Vopnafirði og Akureyri. Gott að komast í sveitina þó það hefði mátt vera lengra stopp (eins og alltaf). Gunnsteinn alveg að fíla sig með öllum ættingjunum og dýrunum – en honum leist illa á þegar mamma hans var komin með Loga 3 mánaða frænda hans í fangið. Kom til mín og knúsaði mig óskaplega (sem hann er ekki vanur að gera svona uppúr þurru) og danglaði svo í frændann (sem betur varð honum ekki meint af því). Skrýtið að sjá afbrýðissemina brjótast svona út hjá honum.
Gunnsteinn naut þess vel að hitta ömmu sína og afa sinn. Fór með afa í fjárhúsið að skoða kindurnar og höfðu báðir gaman af. Gunnsteinn fór svo ófáar ferðir í búrið með ömmu (hann gat sjálfur opnað hurðina að búrinu) og þar þurfti mikið að spjalla enda margt að sjá 🙂 Svo var leikið við hvolpa bæði úti og inni.
Gunnsteinn hitti þrjá langafa í ferðinni og svo auðvitað langömmuna. Gunnþór langafa hittum við á Kjarnalundi, þar þurfti Gunnsteinn mikið að príla í stigum og skoða inní herbergi fólksins og gerði svo tilraun til að sleppa út en gömul lipur kona náði að elta hann uppi (mamman var ekkert að hugsa um hann ;-)). Reynir langafi var svo í heimsókn hjá ömmu og afa á Rauðhólum og við náðum að hitta hann í ca. hálftíma áður en hann þurfti að fara aftur á Norðfjörð. Og svo hittum við Gunnstein langafa og Ástu langömmu nokkrum sinnum meðan við stoppuðum á Vopnafirði.
Svo hitti Gunnsteinn frænkur sínar á Akureyri. Gunnsteinn og Sunna er orðnir jafnaldrar, þessir tveir mánuðir sem eru á milli þeirra eru nokkurn veginn horfnir.
Við spiluðum við Hafdísi og Mumma og líka við Ástu Hönnu frænku. Prófuðum Activity og mér fannst það mjög skemmtilegt, gengur út á að leika, teikna og lýsa orðum. Prófuðum líka Party Alias, var ekki jafnhrifin af því – venjulega Aliasið á betur við mig 🙂 Svo spiluðum við Þú veist og höfðum gaman af, mæli alveg með því.
Þó að fríið hafi verið gott er ekki beinlínis hægt að segja að maður sé úthvíldur því það tekur töluvert á að ferðast svona mikið á svona stuttum tíma. Svo tekur líka á að eltast við Gunnstein allan daginn, því það má helst ekki líta af honum því þá er hann búinn að finna sér eitthvað með tökkum eða eitthvað brothætt til að hamast í, eða búin að príla uppá stól eða upp stiga eða búinn að finna hundamat eða annað gúmmelaði á gólfinu og stinga því uppí sig. Semsagt stanslaust stuð 🙂