Bleikar stelpur og bláir strákar

Las þennan pistil og fór einu sinni sem oftar að pæla í því hvernig við ölum Gunnstein upp – og almennt hvernig fólk elur upp börnin sín.

Mér finnst svolítið merkilegt að við förum að velja stelpuleikföng og strákaleikföng eiginlega strax við fæðingu. Gunnsteinn á t.d. ekkert bleikt leikfang – flestar 17 mánaða stelpur eiga væntanlega bleikt leikfang, sennilega mörg. Í jólagjöf fékk Gunnsteinn þrjá bíla en ekki eina dúkku. Ef hann væri stelpa hefði dúkka líklega verið algengasta gjöfin.

Ég er líka rosalega „lituð“. Finnst ég t.d. voða djörf þegar ég set Gunnstein í fjólublátt. Sá unglingsstrák í Bónus um daginn með bleika vettlinga og var rosalega mikið að pæla í því. Ég veit ekki hvort ég myndi leggja í það að kaupa bleik föt á Gunnstein, nema þá kannski skyrtu, það er einhvernveginn viðurkennt að sé í lagi. En mér finnst voða leiðinlegt að flest „strákaföt“ eru með einhverjum trukkamyndum eða skrímslum. „Stelpufötin“ eru hins vegar með blómum og fiðrildum og einhverju svona krúttlegu – ég gæti náttúrlega alveg keypt þau – en þau eru einhvernveginn of stelpuleg…