Bernskulæsi Gunnsteins

Hef síðustu daga verið að hugsa mikið um læsi og lestur. Aðallega út frá honum Gunnsteini mínum og því hvernig hann færist alltaf nær og nær því að geta lesið. Hann þekkir orðið alla bókstafina, bæði litla og stóra stafi. Þekkir orðið sum orð bara af því að sjá þau – og, ís, amma, jól, að…, kann að skrifa nafnið sitt og annarra fjölskyldumeðlima. Og hann leikur sér mikið með orðin, rímar, býr til bullvísur og fleira. Semsagt margt að gerast í málþroskanum og bernskulæsinu, sem er nýjasta orðið í mínum orðaforða.

Það hefur svosem frá upphafi verið markmið hjá okkur að halda að honum bókum. Byrjuðum að lesa fyrir hann á hverju kvöldi þegar hann var 3 mánaða. Nói litli er þreyttur var lesin hér á hverju kvöldi í marga mánuði og svo tók Tumi er lítill við. Og það hefur alltaf verið föst venja að lesa 1-2 bækur fyrir svefninn (nema hvað að stundum fær hann þá hótun að ekkert verði lesið ef hann gerir ekki þetta eða hitt (taka saman dótið, hátta og slíkt) og stöku sinnum þarf að standa við þá hótun). Hann var innan við eins árs þegar við vorum farin að fara reglulega með hann á bókasafn, svo hann þekkir ekki annað. Óli hefur svo verið að kynna hann fyrir teiknimyndasögum og þeir hafa í sameiningu útbúið teiknimyndasögur í gegnum forrit á netinu þar sem Gunnsteinn hefur fengið ágætis æfingu í að skrifa þar sem hver persóna og hver mynd þarf að fá heiti. Og Gunnsteinn var örugglega ekki mikið meira en 2 ára þegar hann var farin að þekkja ýmis vörumerki eins og IKEA, BYKO og Hagkaup sem að er örugglega ágætis byrjun á lestrarkunnáttu.

Í vikunni var ég að leita mér að upplýsingum um Byrjendalæsi sem er ákveðin aðferð við lestrarkennslu sem er notuð í nokkrum grunnskólum og rakst þá á Lesvefinn sem er með mikið af áhugaverðu lesefni um lestur.  Og í framhaldinu mundi ég eftir því að vinnustaðurinn minn vann Læsisstefnu fyrir leikskóla meðan ég var í fæðingarorlofinu og þar er líka margt áhugavert.

Og nú er klukkan að verða tvö og líklega kominn tími á að lesa fyrir svefninn 😉 Mikið er annars skemmtilegt að blogga!