Allar færslur eftir Eygló

Bernskulæsi Gunnsteins

Hef síðustu daga verið að hugsa mikið um læsi og lestur. Aðallega út frá honum Gunnsteini mínum og því hvernig hann færist alltaf nær og nær því að geta lesið. Hann þekkir orðið alla bókstafina, bæði litla og stóra stafi. Þekkir orðið sum orð bara af því að sjá þau – og, ís, amma, jól, að…, kann að skrifa nafnið sitt og annarra fjölskyldumeðlima. Og hann leikur sér mikið með orðin, rímar, býr til bullvísur og fleira. Semsagt margt að gerast í málþroskanum og bernskulæsinu, sem er nýjasta orðið í mínum orðaforða.

Það hefur svosem frá upphafi verið markmið hjá okkur að halda að honum bókum. Byrjuðum að lesa fyrir hann á hverju kvöldi þegar hann var 3 mánaða. Nói litli er þreyttur var lesin hér á hverju kvöldi í marga mánuði og svo tók Tumi er lítill við. Og það hefur alltaf verið föst venja að lesa 1-2 bækur fyrir svefninn (nema hvað að stundum fær hann þá hótun að ekkert verði lesið ef hann gerir ekki þetta eða hitt (taka saman dótið, hátta og slíkt) og stöku sinnum þarf að standa við þá hótun). Hann var innan við eins árs þegar við vorum farin að fara reglulega með hann á bókasafn, svo hann þekkir ekki annað. Óli hefur svo verið að kynna hann fyrir teiknimyndasögum og þeir hafa í sameiningu útbúið teiknimyndasögur í gegnum forrit á netinu þar sem Gunnsteinn hefur fengið ágætis æfingu í að skrifa þar sem hver persóna og hver mynd þarf að fá heiti. Og Gunnsteinn var örugglega ekki mikið meira en 2 ára þegar hann var farin að þekkja ýmis vörumerki eins og IKEA, BYKO og Hagkaup sem að er örugglega ágætis byrjun á lestrarkunnáttu.

Í vikunni var ég að leita mér að upplýsingum um Byrjendalæsi sem er ákveðin aðferð við lestrarkennslu sem er notuð í nokkrum grunnskólum og rakst þá á Lesvefinn sem er með mikið af áhugaverðu lesefni um lestur.  Og í framhaldinu mundi ég eftir því að vinnustaðurinn minn vann Læsisstefnu fyrir leikskóla meðan ég var í fæðingarorlofinu og þar er líka margt áhugavert.

Og nú er klukkan að verða tvö og líklega kominn tími á að lesa fyrir svefninn 😉 Mikið er annars skemmtilegt að blogga!

Andvakablogg

Ég ætlaði að vera voða dugleg að skrifa á þetta blogg þetta árið – en svo eru bara allt í einu alveg að koma jól – alveg eins og ég bjóst við.

Núna er ég andvaka. Var að klára að lesa bókina Einn dagur og er með óskaplega Bretlandseyjaþrá. Langar til Edinborgar, langar til London, langar til Cork. Læt mig dreyma um flögur með ediki og samlokustaði sem krefjast þess að maður fái sér annað hvort smjör eða majónes. Vona að ég geti heimsótt einhvern þessara staða á næstu árum. Kannski maður ætti bara að hoppa upp í flugvél og skella sér.

Er full af  fortíðarþrá  og sakna tíma bloggsins. Facebook er bara ekki nærri því jafn gott og blogg – því blogg er betra en að hitta fólk 😉 Mér finnst óskaplega skemmtilegt að detta niðrí að lesa gamlar bloggfærslur annað slagið og fá innsýn í hugsanir mínar fyrir nokkrum árum síðan. Og í bloggi er hægt að skrifa svo miklu meira en í Facebook status. Og þrátt fyrir allt nær Facebook alltaf að toga í mann aftur. Þrátt fyrir fýluna sem fylgir því þegar maður sér að fólk hefur eytt manni af vinalistanum eða þegar maður sér að fólk var að gera eitthvað skemmtilegra en að hanga með mér. Sennilega verður áramótaheitið fyrir 2012 líka að blogga meira og FB-ast minna 🙂

Eigið góðar desemberstundir og verið góð hvert við annað.

Bleikar stelpur og bláir strákar

Las þennan pistil og fór einu sinni sem oftar að pæla í því hvernig við ölum Gunnstein upp – og almennt hvernig fólk elur upp börnin sín.

Mér finnst svolítið merkilegt að við förum að velja stelpuleikföng og strákaleikföng eiginlega strax við fæðingu. Gunnsteinn á t.d. ekkert bleikt leikfang – flestar 17 mánaða stelpur eiga væntanlega bleikt leikfang, sennilega mörg. Í jólagjöf fékk Gunnsteinn þrjá bíla en ekki eina dúkku. Ef hann væri stelpa hefði dúkka líklega verið algengasta gjöfin.

Ég er líka rosalega „lituð“. Finnst ég t.d. voða djörf þegar ég set Gunnstein í fjólublátt. Sá unglingsstrák í Bónus um daginn með bleika vettlinga og var rosalega mikið að pæla í því. Ég veit ekki hvort ég myndi leggja í það að kaupa bleik föt á Gunnstein, nema þá kannski skyrtu, það er einhvernveginn viðurkennt að sé í lagi. En mér finnst voða leiðinlegt að flest „strákaföt“ eru með einhverjum trukkamyndum eða skrímslum. „Stelpufötin“ eru hins vegar með blómum og fiðrildum og einhverju svona krúttlegu – ég gæti náttúrlega alveg keypt þau – en þau eru einhvernveginn of stelpuleg…

Jól 2010/2011 búin – jól 2011/2012 handan við hornið

Þá eru jólin búin einu sinni enn – og eftir nokkra mánuði verður maður steinhissa á því að jólin séu að nálgast einu sinni enn. Tíminn líður. Við erum búin að pakka okkar jólum niður í kassa. Ég var ekkert mjög sorgmædd yfir því í þetta sinn, var bara alveg tilbúin í að pakka þeim saman. Stundum hef ég viljað halda í jólin sem lengst en núna er ég bara einhvernveginn til í slaginn, tilbúin að takast á við nýtt ár. En jólin eru reyndar svo miklu meira en skraut í kassa. Jólaminningarnar fara vissulega í geymslu en það er tiltölulega fljótlegt að ná í þær (allavega enn sem komið er). Og svo eigum við ennþá helling af jólanammi sem við bíðum eftir að bjóða einhverjum góðum vinum sem reka inn nefið 😉

Ruslarugl í borginni

Þvílík endemis vitleysa hjá Reykjavíkurborg að ætla að hætta sækja sorp sem er meira en 15 metrum frá sorpbíl nema að íbúar borgi aukagjald. Hinir möguleikarnir er að dröslast sjálfur með tunnuna „uppá veg“ eða færa sorpgeymsluna. Þeir gera ráð fyrir að um helmingur sorptunna sé fjær en 15 metra. Nú bý ég í þeim enda blokkarinnar sem er fjærst bílastæðinu, ætli mín sorpgeymsla sé ekki lengra en 15 metra frá bílastæðinu? Með þessu rugli á að „spara“ borginni einhverjar milljónir en sá sparnaður kemur auðvitað beint úr vasa borgaranna.

Það væri nær að leggja meiri áherslu á flokkun sorps og gera hana auðveldari fyrir borgarbúa.

Áramótafrí 2010-2011

Við erum komin heim eftir gott frí á Vopnafirði og Akureyri. Gott að komast í sveitina þó það hefði mátt vera lengra stopp (eins og alltaf). Gunnsteinn alveg að fíla sig með öllum ættingjunum og dýrunum – en honum leist illa á þegar mamma hans var komin með Loga 3 mánaða frænda hans í fangið. Kom til mín og knúsaði mig óskaplega (sem hann er ekki vanur að gera svona uppúr þurru) og danglaði svo í frændann (sem betur varð honum ekki meint af því). Skrýtið að sjá afbrýðissemina brjótast svona út hjá honum.

Gunnsteinn naut þess vel að hitta ömmu sína og afa sinn. Fór með afa í fjárhúsið að skoða kindurnar og höfðu báðir gaman af. Gunnsteinn fór svo ófáar ferðir í búrið með ömmu (hann gat sjálfur opnað hurðina að búrinu) og þar þurfti mikið að spjalla enda margt að sjá 🙂 Svo var leikið við hvolpa bæði úti og inni.

Gunnsteinn hitti þrjá langafa í ferðinni og svo auðvitað langömmuna. Gunnþór langafa hittum við á Kjarnalundi, þar þurfti Gunnsteinn mikið að príla í stigum og skoða inní herbergi fólksins og gerði svo tilraun til að sleppa út en gömul lipur kona náði að elta hann uppi (mamman var ekkert að hugsa um hann ;-)). Reynir langafi var svo í heimsókn hjá ömmu og afa á Rauðhólum og við náðum að hitta hann í ca. hálftíma áður en hann þurfti að fara aftur á Norðfjörð. Og svo hittum við Gunnstein langafa og Ástu langömmu nokkrum sinnum meðan við stoppuðum á Vopnafirði.

Svo hitti Gunnsteinn frænkur sínar á Akureyri. Gunnsteinn og Sunna er orðnir jafnaldrar, þessir tveir mánuðir sem eru á milli þeirra eru nokkurn veginn horfnir.

Við spiluðum við Hafdísi og Mumma og líka við Ástu Hönnu frænku. Prófuðum Activity og mér fannst það mjög skemmtilegt, gengur út á að leika, teikna og lýsa orðum. Prófuðum líka Party Alias, var ekki jafnhrifin af því – venjulega Aliasið á betur við mig 🙂 Svo spiluðum við Þú veist og höfðum gaman af, mæli alveg með því.

Þó að fríið hafi verið gott er ekki beinlínis hægt að segja að maður sé úthvíldur því það tekur töluvert á að ferðast svona mikið á svona stuttum tíma. Svo tekur líka á að eltast við Gunnstein allan daginn, því það má helst ekki líta af honum því þá er hann búinn að finna sér eitthvað með tökkum eða eitthvað brothætt til að hamast í, eða búin að príla uppá stól eða upp stiga eða búinn að finna hundamat eða annað gúmmelaði á gólfinu og stinga því uppí sig. Semsagt stanslaust stuð 🙂

Verjum störfin eða hvað?

Nú eru kosningar framundan. Ég bý í Reykjavík og fæ því að kjósa til borgarstjórnar. Sumir flokkar hafa það á stefnuskrá sinni að verja störfin hjá borginni og jafnvel að halda áfram að verja störfin. Það er göfugt og gott markmið. Nú vinn ég hjá borginni og jú mikið rétt það er ekki verið að segja upp fólki. En það er afskaplega lítið um nýráðningar, ef einhver hættir t.d. vegna aldurs, eða fer í veikindaleyfi, fæðingarorlof og þess háttar er oft ekki ráðið inn í staðinn eða eins og í mínu fæðingarorlofi þar sem ráðin var 50% afleysing í mitt 100% starf.

Að mínu viti er ekki verið að verja störfin. Það er verið að leggja helling af störfum niður. Að mati Vinnumálastofnunnar hafa 38 þúsund störf tapast á landinu síðan í október 2008. Þrjátíuogáttaþúsund störf tapast á 20 mánuðum. Hvað skyldu mörg störf hafa tapast hjá Reykjavíkurborg?

Fæðingarorlof mínus einn

Ég verð bara að viðurkenna það að það sýður á mér yfir því að það eigi að stytta fæðingarorlofið! Þetta er svo mikil svívirða og heimska að það er ekki nokkru lagi líkt. Eins og er lítur út fyrir að niðurstaðan verði sú að fæðingarorlofið verði stytt um einn mánuð og eftir því sem ég skil þetta er það að af sameiginlegum rétti foreldranna þ.e. móðir fær enn þrjá mánuði merkta sér, faðir fær þrjá mánuði merkta sér og svo eru þá tveir mánuðir sem foreldrar mega deila eftir hentugleikum. Nú er það svo að í flestum tilfellum tekur móðir þessa sameiginlegu mánuði sem hafa hingað til verið þrír og fyrir því er m.a. ein mikilvæg ástæða – það er ráðlagt að hafa börn að mestu á brjósti til 6 mánaða aldurs!

En ef ég skil rétt hefur fólk þann möguleika að taka þennan mánuð sem á að skera burt launalaust og þá skerðist orlofið um 17% í heild. Á Vísi er talað við Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur Samfylkingarkonu og tekið dæmi um konu með 250 þúsund á mánuði frá Fæðingarorlofssjóði og Sigríður leyfir sér að segja: „Málið er það ef þessi kona er tekjulág þá tekur hún ákvörðun og velur sex mánuði. Hennar fæðingarorlof skerðist tiltillögu lítið því hún er það tekjulág því verið að verja þann hóp. Sé hún aftur á móti í þeim aðstæðum að hún geti fundið aðrar leiðir út úr þessu og velja að fresta einum mánuði þá velur hún það“. Eins og það muni engu hvort hún fær 250 þúsund á mánuði eða 207 þúsund?! Það nefnilega munar fyrir okkur sem erum með lág laun! Ég er t.d. að fá um 190 þúsund út úr Fæðingarorlofssjóði á mánuði núna en í nýja kerfinu myndi ég fá um 158 þúsund, mig munar alveg um 32 þúsund á mánuði sko. Heimska, heimska drasl!

Og hvað er það að segja að fólk fái þennan aukamánuð þegar barnið er orðið þriggja ára! Þegar það hefur kannski ekkert við það að gera, ætli fólk þurfi ekki samt að borga fyrir leikskólaplássið á meðan það tekur sér „fæðingar“orlof með stálpuðu barninu? Og er þetta orlof á launum eða er einungis verið að lengja svokallað foreldraorlof sem er nú þegar til staðar og hefur verið 13 vikur og má taka launalaust einhverntíma áður en barnið verður 8 ára??

Þetta mun líka væntanlega þýða aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Þetta þýðir væntanlega að börnin þurfa að fara fyrr til dagforeldra. Sveitarfélögin niðurgreiða daggæslu. Fyrir fulla vistun í Reykjavík er kostnaðurinn t.d. 41.625 kr. á mánuði fyrir Reykjavíkurborg á hvert barn í heilsdagsgæslu. Kostnaðurinn fyrir foreldranna er svo annað eins og oftast meira. Þessi kostnaður sem sparast hjá ríkinu verður semsagt bara sóttur í vasa foreldranna og sveitarfélaganna. Finnst fólki þetta bara í lagi?

Og það er algjörlega út í hött að ætla að skella þessu á með mánaðarfyrirvara. Sumir vita að það tekur um 9 mánuði að gera barn tilbúið til að fæðast í þennan heim. Sumir vita líka að það er ekkert hægt að hætta við þegar ferlið er komið ákveðið langt. Á sama tíma ætla þeir að afnema sjómannaafslátt á fjórum árum. Sjómenn hóta því að sigla í land en foreldrar eiga erfitt með að hætta að sinna börnum sinnum, enda væri ríkisstjórninni sjálfsagt alveg sama!

Mér finnst sárt og ömurlegt að búa í landi þar sem niðurskurðarhnífurinn lendir í ungabörnum.

Mamma, þú hafðir rétt fyrir þér 🙁

Rétt að taka fram að þessi niðurskurður bitnar ekki á mér persónulega.

Fröken pirripú

Ég er fröken pirripú í dag. Gunnsteinn (btw eignaðist son 17. júlí, hef víst ekki minnst á hann áður á þessu bloggi ;-)) er búinn að eiga óvenju erfiðan dag og ég öll einhvernveginn upptrekkt og uppskrúfuð m.a. þess vegna. Stundum mætti ég reyndar alveg verið upptrekktari og uppskrúfaðari og svara fyrir mig og rífast. En það er annað mál (eða ekki).

Mér leiðist alveg ógurlega allt sem er í fréttum. Stundum fylgist ég lítið sem ekkert með fréttum í 2-3 daga. Svo horfi ég á fréttir og það er bara sama helvítis argaþrasið, allt einhvernveginn í sömu hjólförum. Og endalausar arfavitlausar hugmyndir og tillögur lagðar á borð og sumar étnar. Finnst t.d. algerlega út í hött að ætla að skerða atvinnuleysisbætur 18-24 ára fólks og heimski félagsmálaráðherrann dregur upp þá mynd að þetta fólk sé bara einhverjir fokkings ónytjungar sem snúa sólarhringnum við, éti óhollustu og hafi engan áhuga á að vera í vinnu eða skóla. Auðvitað þarf að gera eitthvað fyrir þetta fólk en að skerða bæturnar er alveg út úr korti. Og svo á að fara að þvinga fólkið sem er „á Féló“ til að fara á einhver námskeið, sem eru sjálfsagt tilgangslaus og heimskuleg, annars fái það ekki bætur. Og svo er það blessað húsnæðislánaúrræði fyrrnefnds ráðherra sem á eftir að setja þá sem það nýta í enn verri stöðu (amk ef fólk hefur efni á að borga af lánunum hvort sem er). Við erum allavega búin að segja okkur frá þessari vitleysu. Og þjóðfundurinn – bara eitthvað frasakjaftæði.

Ohhhhh…