Allar færslur eftir Eygló

Lánaúrræðabull

Nýjasta útspil félagsmálaráðherra er ekki beinlínis gáfulegt. Það gerir ráð fyrir því að afborganir lána lækki þannig að þær verði eins og fyrir hrun, miðað við 1. janúar 2008 á verðtryggðum lánum og 2. maí 2008 á gengistryggðum lánum. Gott og blessað, þetta myndi t.d. lækka greiðslubirgði minna húsnæðislána um ca. 14.000 kr. á mánuði. EN það er ekki gert ráð fyrir því að höfuðstóllinn lækki til samræmis, hann helst sá sami!! Höfuðstóll míns láns hefur t.d. hækkað um hátt í 3 milljónir síðan 1. janúar 2008. Það sem eftir stendur þegar búið er að borga af láninu út lánstímann plús þrjú ár verður afskrifað. Í mínu tilfelli þýðir þetta að ég verð orðinn 65 ára þegar restin af láninu mínu verður afskrifað og tók ég þó lánið þegar ég var 22 ára, flestir eru eldri en það þegar þeir taka húsnæðislán.

Þetta svokallaða úrræði er svo mikið bull. Hvað svo þegar við viljum stækka við okkur, flytja í annað hverfi eða annað bæjarfélag? Semsagt hvað gerist þegar við viljum selja? Fæstir kaupa húsnæði með það í huga að búa þar í 40 ár. Ef höfuðstóllinn helst sá sami og við ákveðum að borga minna af honum samkvæmt þessu „úrræði“ þá sitjum við enn frekar í súpunni. Lánið bara hleður enn hraðar utan á sig. Og hvað? Ég sé ekki annað en að við þyrftum að borga verulega með íbúðinni þegar við viljum selja og þó erum við ekki í slæmri stöðu miðað við marga.

Félagsmálaráðherra talaði um að það væri hægt að yfirtaka lánin og færa þau með sér milli íbúða. Hver vill yfirtaka einhver svona monster lán sem eru hærri en fasteignamat eignanna þegar hann getur tekið venjulegt lán hjá Íbúðalánasjóði? Þýðir þetta ekki bara að þeir sem eru með íbúðalán í dag munu sitja uppi með þau allt til dauðadags?

Annaðhvort verður að færa höfuðstólinn niður eða hreinlega sleppa þessu og „leyfa“ fólki að verða gjaldþrota.

Vörugjöld

Það er nú ekki alveg í lagi með þessa ríkisstjórn. Ef ég er að skilja hlutina rétt verður lögð aukin vörugjöld á matvörur frá 1. september. Og ekki bara gos og nammi, heldur líka t.d. niðursuðuvörur, kaffi og te. Nú hefur matarverð hækkað gríðarlega síðasta árið og einhvernveginn finnst mér ekki á það bætandi. Og eins og með áfengis-, tóbaks- og bensíngjöldin þá fer þetta beint útí vísitöluna sem síðan eykur verðbólguna og hækkar verðtryggðu lánin.

Bensín

Hvað er að hjá þessum fjandans olíufélögum?

Í lok maí hækkuðu ÖLL olíufélögin hjá sér bensínverð um ca. 12 krónur, daginn eftir að Alþingi samþykkti hækkun á bensíngjaldi. Svo fóru neytendasamtökin eitthvað að skipta sér af og kom þá í ljós að það var kolólöglegt að hækka bensínverðið strax á þær birgðir sem til voru fyrir. Gjaldið átti aðeins að leggjast að það sem ætti eftir að kaupa inn til landsins. Gott og vel, ÖLL olíufélögin voða sorrí, sumir endurgreiddu en aðrir lofuðu að leggja gróðann til góðgerðarmála.

En svo nokkrum dögum seinna hækkaði bensínverðið aftur í ca. 173 krónur, ekki veit ég af hverju. Og aftur hækkaði verðið nokkrum dögum síðar í ca. 178 krónur. Og svo núna fyrir nokkrum dögum lækkaði verðið aftur um ca. 3 krónur í 175 krónur. Hvurslags andskotans leikur að tölum er þetta? Varla eru menn að kaupa inn á nokkurra daga fresti?

Og nýjasta nýtt. Skeljungur er búinn að hækka hjá sér bensínið um 12 krónurnar aftur og kostar bensínið hjá þeim núna 189 krónur. Í lok maí eftir bensíngjaldshækkun kostaði bensínið um 179 en núna í lok júní kostar bensínið 189 krónur eftir bensíngjaldshækkun. Hvaða 10 krónur eru þetta sem þeir náðu að smyrja á þetta aukalega í einum mánuði? Ha?! Þeir voru alveg örugglega ekki að hækka launin hjá starfsfólkinu sínu og það hafa ekki verið slíkar sveiflur á genginu í mánuðinum að þetta réttlæti þvílíka hækkun.

Þetta eru glæpamenn!

Hækkun

Ég er ekkert voða hress með þessa hækkun á bensíni, olíu, áfengi og tóbaki. Sérstaklega ekki þegar þetta verður til þess að lánin hækka, jafnvel hjá fólki sem aldrei kaupir neitt af þessum vörum.

Það eina sem ég nota af þessu (a.m.k. þessa dagana) er bensínið. Og ég er hreint ekki glöð með að þurfa að borga enn meira fyrir lítrann en ríkissjóður ætlar núna að fá 20 kall af lítranum í staðinn fyrir 10 kall áður (ef ég skil þetta rétt) og nýjustu tölur segja að lítrinn kosti 181 krónu. Og hvernig er með þessi olíufélög, eru þau ekki í bullandi samráði ennþá, bara passa uppá að eyða tölvupóstunum sínum?? Ég hef líka grun um að þetta ýti ekki beinlínis undir að menn ferðist innanlands í sumar. Þetta ýtir undir að fólk ferðist ekki neitt, sem er auðvitað mjög umhverfisvænt en ekkert spes fyrir efnahagskerfið.

Og hvernig fer þessi hækkun með Strætó – hvort verður fargjaldið hækkað eða þjónustan skorin enn meira niður?

Óléttublogg…

Best að blogga smá. Helv.. Facebook er alveg búið að taka yfir megnið af tímanum sem maður eyðir í tölvunni. Það er eitthvað við Facebook sem dregur mig þangað inn aftur og aftur og yfirleitt oft á dag. Ég skoða statusana hjá Facebook vinum mínum, tek netpróf, sendi skilaboð, skrifa á veggi, skoða myndir o.s.frv. Það er einhvernveginn endalaust hægt að hanga þarna inni. Það er svo sem áhugavert að sjá hvað þessi og hinn er að gera, hvað hann var að elda, hvert hann ætlar að fara um helgina, hvað hann var að kaupa, hvað honum finnst um ummæli einhvers pólítíkusar, hvað honum finnst um veðrið o.s.frv. En þetta verður til þess að manni finnst maður „vera í sambandi“ við fólk sem maður á í raun aldrei „raunveruleg“ samskipti við.

Það er annars lítið að frétta. Ég er bara ólétt og það kemst lítið annað að þessa dagana. Ég er orðin þung á mér og finn fyrir því í hverju skrefi að ég sé ólétt. Er með nokkra skemmtilega fylgikvilla eins og brjóstsviða og grindarverki og þarf endalaust að pissa en er annars bara hress. Fólk hefur almennt mikinn áhuga á heilsufari mínu núna. Krílið lætur vita af sér reglulega og það er mjög gaman að finna það sparka og ekki síður að sjá þegar bumban gengur í bylgjum 🙂 Svo er ég endalaust að hugsa um barnadót. Erum búin að kaupa kerru, bílstól og taubleyjur, búin að fá ýmislegt dót og föt frá Rósu vinkonu og Árnýju og Hjörvari og svo fáum við  vöggu og skiptiborð að austan eftir nokkrar vikur. Svo eru vagnapælingar í gangi þessa dagana.
Núna eru bara tveir mánuðir þangað til þetta brestur allt saman á. Ég er ekkert mjög stressuð fyrir þessu öllu og bjartsýn á að þetta gangi vel.

Um daginn tókum við til í geymslunni, hentum slatta og endurskipulögðum slatta. Svo nú er geymslan orðin snyrtileg og hægt að fara að hlaða meira dóti þar inn 😉 Endurskipulögðum líka aðeins hérna uppi. Þetta er auðvitað allt gert til að undirbúa komu barnsins.

Góðar stundir…

Vilja Íslendingar í ESB?

Mér finnst frekar furðulegt að túlka niðurstöður kosninganna um helgina þannig að Íslendingar vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Ég efa það að allir sem kusu Samfylkinguna, Borgarahreyfinguna og Framsókn vilji ólmir komast í Evrópusambandið. Mig grunar að fólk hafi verið að hugsa um margt fleira þegar það var að ákveða hvernig það myndi verja atkvæði sínu eins og t.d. efnahagsmál, atvinnumál, heilbrigðismál og jafnréttismál og bara almennt hvernig menn vilja sjá samfélagið þróast á næstu mánuðum og árum. Og ég efa að allt þetta fólk haldi að ESB sé einhver töfralausn í öllum málum. Svo voru væntanlega margir sem kusu bara sína flokka af gömlum vana án þess að hugsa um málefnin, fortíðina og framtíðina.

Könnun sem var gerð í byrjun apríl (já árið 2009) sýnir að meirihluti landsmanna er andvígur aðildarviðræðum.

En ég er helst á því að við verðum að fara í viðræður svo það sé hægt að fara að hugsa um eitthvað annað. Því ESB umræðan verður yfir og allt um kring hvort sem við sækjum um eða ekki. Það er líka ekkert að því að fá að sjá svart á hvítu hvað er í boði. Annars finnst mér vanta vitræna umræðu um þessi mál, flest sem við heyrum eru bara frasar. Mér finnst ég líka aldrei hafa heyrt neitt af viti frá Samfylkingunni um ESB, bara frasann að við verðum að sækja um.

Sigmundi Davíð ekkert kappsmál að verða þingmaður

Það er frekar spes að heyra formann stjórnmálaflokks sem skipar 1. sæti framboðslista lýsa því yfir 10 dögum fyrir kosningar að það sé honum ekkert sérstakt kappsmál að verða þingmaður og að það séu til mörg skemmtilegri störf. Svolítið eins og að játa ósigur áður en að baráttan er búin.

En hann getur huggað sig við það að ég ætla ekki að kjósa hann svo vonandi fær hann eitthvað skemmtilegra að gera en að húka inná þingi.

Ekki til peningar

Voðalega finnst mér þetta óþægileg frétt. Að Seðlabankinn sé að reyna að koma í veg fyrir að MP kaupi útbúanet Spron því að Kaupþing hafi ekki bolmagn til að greiða út inneignir fyrrum viðskiptavina Spron (sem mögulega myndu færa sig til MP) sem þau voru að „eignast“ fyrir hálfum mánuði.

Þó að ég viti að það eru ekki til pappírspeningar fyrir nærri öllum inneignum alltaf þá gerir þetta manni enn ljósara að það sem maður á inni í banka eru bara tölur á tölvuskjá (og það hefur sennilega verið það sem var fært á milli þarna um daginn, tölurnar á skjánum en engir raunverulegir peningar). Nú langar mig eiginlega enn meira til að færa mig frá Kaupþing til að lenda ekki í því aftur að bankinn minn þurrkist út. En staðan er sjálfsagt ekki mikið betri í Landsbankanum eða Íslandsbanka og staða Sparisjóðanna úti á landi eru enn svolítið óljós.

Það er engin sæla að þurfa að eiga í bankaviðskiptum á Íslandi árið 2009.

13.500 krónur

Mér finnst það algjörlega fáránlegt að að það sé bara hægt að fresta umsömdum launahækkunum af því að sum fyrirtæki eru hugsanlega í vanda. Það vill nefnilega svo til að sumir einstaklingar eru líka í vanda og veitir ekkert af t.d. 13500 krónum aukalega í launaumslagið á mánuði. Afborganir af lánum hafa hækkað gríðarlega síðustu mánuði, sama má segja um verð á matvörum og nánast öllu sem fólk þarf að kaupa til að reka heimili og lifa af.

Verkalýðshreyfingin má ekki bara lúffa. Hún á að berjast fyrir launþega í landinu, ekki veitir af. Þau fyrirtæki sem ekki höndla það að veita starfsfólki sínu 13500 króna launahækkun á mánuði eiga sennilega eftir að rúlla yfirum hvort eð er.

Svo er 13500 ekkert endilega heilög tala, það hefði e.t.v. mátt semja um einhvern milliveg þarna.

Launþegar mega ekki láta halda sér niðri endalaust með þeirri hótun sem er notuð óspart á okkur þessa dagana…að ef þeir haldi ekki kjafti og vinni vinnuna sína (sama á hvaða lúsarlaunum) þá eigi þeir á hættu að missa vinnuna eða maðurinn á næsta borði.