Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt

Ég er 22 ára, eins mánaða og einnar viku gömul

Rosalega er maður nú duglegur við að blogga hérna. Hef greinilega ekki bloggað í meira en mánuð…voðalega líður tíminn.

Það er nóg að gera hjá manni þessa dagana. Ég þarf að skila þremur stórum verkefnum á næstu vikum og mér líður ekkert of vel yfir því. Hefði náttúrlega átt að vera löngu byrjuð á þeim en þrátt fyrir fögur fyrirheit þá endar þetta alltaf í einhverjum trassaskap. En ætli þetta reddist núna eins og alltaf…ætla rétt að vona það. Óheppilegt að missa allt niðrum sig á lokasprettinum.

Er annars búin að gera alveg fullt síðasta mánuðinn, nenni samt voða lítið að tjá mig um það.

Það var bakkað á mig í dag, sem betur fer voða laust svo það sást ekkert á bílunum. Það er þá mitt annað umferðaróhapp (þar sem ég er undir stýri) þar sem ekkert sést á bílnum eða mér á eftir.

Jæja, það verður spennandi að sjá hvenær ég blogga næst.
Góða nótt

Bátaljós

Í dag fékk ég gíróseðill inn um lúguna sem höfðaði mjög sterkt til mín. Já, gíróseðill sem höfðaði til mín.

Framan á umslaginu er gluggi með nafninu mínu og heimilisfanginu, undir honum stendur Hristið umslagið! og til hliðar er mynd af björungarbát og fyrir ofan stendur Bátaljós. Merki slysavarnafélagsins Landsbjargar er svo við hliðina á því.

Ég hristi umslagið og það hringlar í því. Ég opna umslagið, forvitin að vita hvað sé í því. Það er rauður eldspýtustokur með björgunarbát framan á og á stendur Bátaljós.

Og svo er auðvitað gíróseðill þar sem fram kemur að þetta sé styrktarsöfnun fyrir björgunarbátum um allt land. Það eru 9 björgunarbátar til nú þegar en það vantar 5 í viðbót til að loka hringnum.

Af hverju höfðar þetta svona sterkt til mín? Í fyrsta lagi er eitthvað heillandi við þennan eldspýtustokk. Í öðru lagi er smá lesning um Landsbjörgu á gíróseðlinum og m.a. fjallað um unglingadeildirnar. Það rifjar upp allar þær góðu minningar sem ég á um það þegar ég var í unglingadeild björungarsveitarinnar. Og í þriðja lagi stendur á gíróseðlinum Bátaljós: Tendraðu ljós fyrir sjófarendur sem er eitthvað sem við höfum fjallað mjög mikið um í þjóðfræðinni undanfarið þ.e. þann sið að láta ljós loga í glugga þegar einhver nákominn er á sjó. Og ég gæti talið upp fleiri atriði og allt verður þetta til þess að mig langar virkilega að borga þennan gíróseðil.

Svo ég held að ég slái til og borgi gíróseðilinn. Fyrsti styrktargíróseðillinn sem ég borga, hinir hafa allir lent í ruslinu…

Ég er ekki hætt að blogga. Mig hefur bara ekki langað að blogga lengi. Samt hugsa ég reglulega í bloggum. Er stundum búin að móta bloggfærslu í huganum, en hún kemst ekki niður í puttana og á skjáinn. Sumar komast fram á varirnar, sumar geymi ég í huganum, aðrar eru glataðar að eilífu. En hvað með það?

Sumarið er bráðum búið. Ég er búin að gera heilmargt í sumar, en eins og venjulega ekki nógu mikið. Hvenær skyldi ég sætta við að gera ekki nógu mikið? Búið að vera ágætt sumar, en ég hlakka til vetrarins. Eins og venjulega þá lifi ég í framtíðinni.

Var ég búin að minnast á að Walkabout með Sugarcubes er yndislegt lag?

Föstudagsskap III

Ég átti nú eiginlega frekar von á dauða mínum heldur en því að fyllast skyndilega óbilandi viðskiptafræðiáhuga. Viðskiptafræði var svona álíka fjarlæg mér og læknis- eða hjúkrunarfræði (þeir sem þekkja mig vita að ég get ekki talað um blóð áfallalaust, svo að ég efast um að ég gæti höndlað fyrirlestra í þeim greinum). En já…viðskiptafræðiáhugi minn kviknaði reyndar ekki alveg af sjálfu sér, það vill bara svo til að ég er núna í námskeiði sem heitir Skjala- og önnur upplýsingastjórn og þar er m.a. verið að fjalla um gæðastjórnun, þekkingarstjórnun og mannauðsstjórnum (jájá, voða fínt orð, er það sama og starfsmannastjórnun) og það vill svo til að þetta fellur allt undir viðskiptafræði en tengist bókasafns- og upplýsingafræðin talsvert. Þ.e.a.s. þú hefur ekki almennilega gæða-, þekkingar- eða mannauðsstjórnun án þess að hafa góða skjalastjórnun.

Svo að núna er draumurinn að fara í Háskólann í Reykjavík (já og borga múltímonní í skólagjöld) og taka diplómu í Stjórnun og starfsmannamálum. Það lítur út fyrir að vera mjög spennandi og eiginlega bara ekkert námskeið sem leit út fyrir að vera leiðinlegt nema kannski Fjárhagsbókhald (en maður lærði nú svo mikið í bókfærslunni hjá Ástu Ólafs að það verður pís of keik).

En ég ætla nú að byrja á því að klára bókasafns-og upplýsingafræðina fyrst samt og líka vinna svolítið fyrst (til að safna fyrir skólagjöldunum skiljiði) svo að þessu verður skellt á framtíðarplanið með Náms- og starfsráðgjafarnáminu og Kennsluréttindanáminu. En vá hvað ég er spennt fyrir þessu!

En ég er ennþá í föstudagsskapi…og stefnir bara í ágætis föstudagskvöld, úrslit í Gettu Betur og svo getur vel verið að ég skelli mér í afganga frá afmælisveislunni sem ég var í í gærkvöldi…þar voru mjög jummígóðar veitingar.

Góða helgi!

Óskað eftir svartri vinnu

Í Fréttablaðinu í dag er kostuleg smáauglýsing. Hún hljómar svona: „33ja ára gömul kona óskar eftir svartri vinnu, ýmislegt kemur til greina. Upplýsingar í síma 848 5131.“

Hvað er að fólki…maður auglýsir ekki eftir svartri vinnu! Finnst það alveg á mörkunum hjá Fréttablaðinu að vera að birta svona lagað. Vona að Ríkisskattstjóri hringi í hana og bjóði henni vinnu.

Febrúar

Jæja, þá er febrúar genginn í garð, meira að segja óvenjulangur þetta árið. Og í eldhúsinu blasir við ný mynd á Föroya myndakalendariinu. Mynd febrúarmánaðar sýnir Eiðisvatn, Eiði og Eiðiskoll ásamt Esturoy.
Gleðilegan febrúar!

Niðurbrotinn bloggari

Nú hef ég ekki bloggað í 11 daga og ENGINN hefur kvartað! Ég er niðurbrotinn bloggari, hér áður fyrr átti ég mér þó einhverja aðdáendur en þeir eru greinilega búnir að missa allan áhuga á mér. Óli er meira að segja hættur að nenna að röfla í mér um að blogga.

En eins og hlustendur vita þá er ég nú mest að þessu fyrir sjálfa mig svo að niðurbrotið er ekki alvarlegt.

Framundan

Það er ýmislegt framundan. Ber þar hæst tónleika með Foo Fighters, flutninga, skóla og flutninga „útiálandiliðs“ til höfuðborgarinnar. Mikið hlakka ég til. Mest hlakka ég til flutninganna. Það er svo gaman að koma sér fyrir á nýjum stað, gaman að ákveða stað fyrir hvern hlut og sjá þetta allt raðast saman á nokkrum dögum. Það verður líka gaman að kaupa húsgögn. Þetta verður í fyrsta sinn sem við flytjum í íbúð þar sem við eigum allt innbúið sjálf, það verður gaman. Það eru mjög margir kostir sem þessir flutningar hafa í för með sér 🙂

Það verður líka gaman að byrja aftur í skólanum. Bara sterk tilhlökkun, enginn kvíðahnútur eins og í janúar þegar ég var að byrja og þekkti engann, núna þekki ég dágóðan slatta af fólki sem er í b&u. Svo verður líka gaman að búa til félagslíf 😉

Mér finnst undarlegt til þess að hugsa að eftir 2 sólarhringa þá verð ég á Foo Fighters tónleikum. Hef bara hlakka of mikið til flutninga til að geta hlakkað til tónleikanna. En það verður örugglega bara enn meira gaman fyrir vikið.

Eva og Heiða flytja svo hingað einhverntíma í byrjun september, það verður gaman gaman. Heiða verður meira að segja nágranni minn.
Svenni bróðir og Hrönn flytja hingað um næstu helgi og við verðum enn meiri nágrannar, í sömu götu og allt.

Á þessu má sjá að ég er bara að springa úr tilhlökkun og sé haustið í dýrðarljóma. Vona að það standi undir væntingum, það þarf e-ð meiriháttar að fara úrskeiðis til að klúðra þessu.