Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt

Nýr viðskiptavinur Nýja Kaupþings

Nú er SPRON víst búið að vera. Og þar með er ég orðin viðskiptavinur Kaupþings. Ég er ekkert óskaplega kát með það. En hvaða bankastofnun er skárri? Ef einhverjir af litlu Sparisjóðunum lifa af þá er spurning um að færa sig þangað.

Það er hálfóþægilegt að vita af því að það sé verið að millifæra peningana manns í annan banka. En maður veit svo sem að það verður allt í lagi. Og maður þarf víst ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þeir felli niður lánin hjá manni 😉

Forval VG

Þá er búið að velja í fimm efstu sætin á lista VG í Reykjavíkurkjördæmunum. Ég get verið sátt því mínar uppáhaldskonur eru allar á topp 10. Ég hefði samt alveg viljað sjá Steinunni og Auði sæti ofar eða svo. Katrín fékk algjörlega frábæra kosningu, um 80% þeirra sem kusu í forvalinu settu hana í fyrsta sæti.

Kolbrún Halldórsdóttir kom ekkert sérstaklega vel út úr þessu. Lenti í 6. sæti forvalsins sem þýðir 3. sæti á öðrum hvorum listanum. Mér finnst að hún ætti að draga sig í hlé enda alveg glatað ef hún verður í baráttusæti listans. Hún er óvinsæl utan flokks og umdeild innan flokks. Held hún ætti frekar að einbeita sér að leiklistinni eða einhverju öðru sem hún er betri í en pólitík.

En annars er ég bara sátt við niðurstöðuna 🙂

Barnadót og bílapælingar

Ég er voðalega mikið að hugsa um allskonar barnadót þessa dagana. Það sem ég er helst að velta fyrir mér er hvernig barnavagn maður ætti að kaupa, hvort ömmustólar eru sniðugir, hvort að vagga sé málið og hvernig barnabílstólar eru bestir. Þið megið endilega deila ykkar reynslu því við erum frekar lost í þessu.

Svo erum við líka að íhuga að kaupa nýjan bíl bráðlega (þó við séum ekkert sérlega spennt fyrir því að losa okkur við elsku Micruna). Bíllinn þarf að vera rúmgóður (rúma barnavagn) og sparneytinn (helst ekki eyða mikið meira en Nissan Micra ’95). Og hann má ekki vera eldri en árgerð 2000, ekki óhóflega mikið keyrður og helst ekki kosta mikið, milljón er algert hámark. Ef einhver sem les þetta hefur vit á þessu má líka deila upplýsingunum 🙂

Katrín, Auður og Steinunn

Á morgun er stór dagur. Forval hjá VG í Reykjavík. Þrjár kvinnur eru öruggar um mitt atkvæði; Katrín Jakobsdóttir, Auður Lilja Erlingsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Gæti vel hugsað mér að sjá þær allar inná þingi eftir kosningar. Svo þarf ég að finna sjö aðra álitlega kosti – ég hlýt að finna út úr því.

Já, blogg…

Það hefur ekki verið mikil blogggleði síðustu vikurnar. Einhvernveginn er bloggið svolítið að víkja fyrir Facebook. Blogg er samt miklu skemmtilegra en Face.

Það sem er helst að frétta þessa dagana er auðvitað að ég er ófrísk, komin fimm mánuði á leið. Það gengur voða vel og ég er að verða ansi stór.

Svo er ég líka orðin 26 ára. Ég held jafnvel að ég sé að verða fullorðin en ég hef svosem haldið það nokkrum sinnum áður án þess að nokkuð gerist 😉

Ég skrapp austur í sveitina um helgina og hélt uppá afmælið mitt þar. Gott að hitta fjölskylduna loksins en ég var ekki búin að fara austur í hálft ár.

Hafið það gott 🙂

Blogg

Ég er ánægð með nýju ríkisstjórnina.
Mér finnst ömurlegt hvað það eru margir atvinnulausir.
Ég hlakka til að fá að kjósa en ég nenni ekki þrasinu sem fylgir kosningum.
Mér finnst ömurlegt hvað það eru til litlir peningar í landinu – og ekki síður hvernig peningum hefur verið sóað síðustu ár.
Ég vona að klárað verði að byggja upp veginn til Vopnafjarðar og farið í aðrar brýnar vegaframkvæmdir – og að það skapi atvinnu fyrir slatta af fólki.
Ég vona að spilling og einkavinavæðing verði upprætt á Íslandi.
Mér er ekki vel við Sjálfstæðisflokkinn og flestallt sem hann hefur fram að færa og vona að fólk hafi vit á að gefa honum ekki atkvæði sitt 25. apríl.

Ég hlakka til sumarsins.
Mig langar í nám – en fer væntanlega ekki í það alveg á næstunni.
Mig langar ekkert til útlanda en mig langar til Vopnafjarðar.
Ég er ekki lengur stjórnarmeðlimur í Vantrú en Óli er orðinn formaður.
Við keyptum borðstofuborð og stóla um daginn.
Ég á bráðum þrítugan Óla.
Ég er að borða jógúrthúðaðar rúsínur.

Ég held að Facebook hafi stolið getunni til að blogga frá mörgum – allir hættir að blogga nema Óli, Matti og Stebbi (og svo allir stjórnmálaþrasararnir en ég tel þá ekki með).

Sjallar

Sjallarnir halda áfram að leika sama gamla leikinn, setja upp pókerfésin og segja að þetta sé allt öðrum að kenna. Fara með Samfylkinguna alveg eins og Framsókn forðum. Enda eru Sjallar vélmenni á meðan annað fólk er mannlegt og hefur tilfinningar.

Janis 27?

Er einhver búin að fara og sjá Janis 27 í Óperunni? Og hvernig var?

Mig langar að fara en vantar bara einhvern með mér. Ef maður er 25 ára eða yngri kostar bara 1750, annars eru miðarnar á bilinu 2500-4500 kr., eftir hversu góð sæti maður vill. Ég á reyndar orðið fáa vini sem eru 25 eða yngri, en þeir fyrirfinnast nú alveg 😉 Og ég verð að drífa mig á næstu tveimur mánuðum því að 2. mars verð ég „úrelt“.

2008 var árið sem…

…borgarstjórnarmálin voru í tómu tjóni
…tveir ísbirnir gengu á land á Íslandi í júní
…forsætisráðherra var í afneitun megnið af árinu
…jörð skalf á Suðurlandi
…fullt af fólki missti vinnuna
…gengi íslensku krónunnar hrundi
…Ólafur F. var borgarstjóri í 7 mánuði
…síldin sýktist
…mótmæli voru áberandi
…ráðamenn skitu ítrekað í buxurnar…og eru enn að
…svo margt margt fleira gerðist

Og á persónulegri nótum var 2008 árið sem…

…við Óli trúlofuðum okkur á Trafalgar Square í London, brúðkaup auglýst síðar
…ég fór til London í fyrsta sinn en vonandi ekki síðasta sinn
…ég varð 25 ára
…ég fór á Norðfjörð um páskana
…ég fór í vorbústaðaferð með saumó og þau haugsnjóaði svo við áttum í erfiðleikum með að komast heim
…ég var í viku á Rauðhólum í sauðburði, samkvæmt venju

…ég fór til Svíþjóðar með Óla, Hafdísi, Mumma og Sóleyju
…Anna Steina mágkona og Martin giftu sig í Borlänge
…við áttum tvo góða rigningardaga í Stokkhólmi
…við skruppum frá Stokkhólmi til Köben til að fara á Týstónleika
…Rósa og Jónbjörn giftu sig og eignuðust Ósk Laufeyju
…Siggi og Sigrún giftu sig, sama dag og R og J svo við komumst ekki
…ég fór í fyrsta skipti til Ísafjarðar

…ég fór í haustferð til Vopnafjarðar, tók upp kartöflur og týndi ber
…ég fór á ferna Týstónleika á Íslandi í október
…ég fór með Óla og vinnufélögunum til Edinborgar
…ég fór á Queen tónleika í Glasgow
…var fyrsta heila árið mitt á Menntasviði
…ég átti fullt af góðum stundum með fjölskyldu og vinum en hefði svo gjarnan viljað hafa þær miklu fleiri

Gleðilegt ár og takk fyrir öll gömlu!