Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt

Styrkjum björgunarsveitirnar – ekkert endilega með flugeldakaupum

Ég er einlægur aðdáandi flugelda, a.m.k. þegar þeim er skotið upp á viðeigandi tímum eins og gamlárskvöldi, þrettándanum og á skipulögðum flugeldasýningum eins og á menningarnótt. Ég horfi dolfallin á þessi prik skjótast uppí loftið og springa út með marglitum ljósum. En sjálf geri ég lítið af því að kaupa flugelda. Hef yfirleitt látið mér nægja að kaupa nokkur stjörnuljós svona uppá stemmninguna.

Nú er mikið talað um að við eigum að kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitirnar okkar. En það eru til betri leiðir til að styrkja björgunarsveitir heldur en að kaupa 20.000 króna risatertu sem veitir einnar mínútu ánægju eða hvað það nú er sem fólk er að kaupa. Það er hægt að fara á vef Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, velja þar þá upphæð sem þú vilt styrkja Slysavarnarfélagið um og jafnvel velja þá björgunarsveit eða slysavarnadeild sem þú vilt helst styrkja. Þú getur svo valið hvort þú vilt taka þetta út af korti eða fá sendan greiðsluseðil. Þú færð ekkert í hendurnar fyrir peninginn en björgunarsveitin fær peninginn óskiptan.

Njótið áramótanna og vonandi kaupa nú einhverjir flugelda – sem ég get svo horft á alveg frítt 😉

Styrkjum björgunarsveitinar!

Svæðisútvarpið

Mér finnst fáránlegt að ætla að leggja niður svæðisútsendingar RÚV frá Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði. Bara algjörlega fáránlegt! Frekar ætti að leggja niður Kastljósið. Fréttir af landsbyggðinni fá alveg nógu litla athygli þó þetta bætist ekki ofaná. Þetta er svo fáránleg forgangsröðun hjá Ríkisútvarpi allra landsmanna að það er ekki nokkru lagi líkt.

Ekki bara lögbrot…

Þetta snýst ekki bara um lögbrot. Þetta snýst ekki síður um siðleysi, andvaraleysi og röð mistaka. Er það virkilega svo að fólki finnist það ekki þurfa að segja af sér nema það hafi framið hardcore lögbrot?

Afsagnir

Ég sé ekki annað fyrir mér en að Bjarni Harðar verði að taka pokann sinn á morgun. Óheppilegt fyrir karlugluna „að lenda í þessu“. Framsóknarmenn keppast um að blogga um að hann verði að segja af sér…og þá voru eftir sex. Þarf svo ekki Valgerður að segja af sér líka? Það finnst mér.

Það er afskaplega sorglegt að þeir sem eru ekki lúnknari en þetta að fela spillingarslóðina sína verði að segja af sér. Á meðan hinir sem eru aðeins betri í að sýsla með tölvupóst til dæmis sitja sem fastast. Og það þó að glæpir þeirra séu enn stærri.

Já, ég er andvaka…

?

Ég spyr: „Hvar er Geir?“

Verður IMF lánið tekið fyrir í dag? Maður heyrir ekkert nema óljósar sögusagnir af því að svo verði ekki. Verður bara ruglið og óvissan látin malla áfram fram að næstu mánaðarmótum? Og hvað missa margir vinnuna þá? Og hvað fara margir á hausinn þá? Ég vildi að ég gæti bara hætt að hugsa um þetta…

Stemmari að vera ég

Það er furðuleg stemmning á Íslandi í dag. Það veit enginn hvert við stefnum. En miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja og liggja í loftinu virðist þó allt stefna hraðbyri til andskotans. Það er óþægilegt að vita ekki hvað er framundan, auðvitað veit maður það aldrei en það hefur oft verið auðveldara að giska. Fimmtudaginn 16. október skrifaði ég að það væri þessi lúmska óvissa sem væri að plaga mig. Síðan eru liðnar 3 og hálf vika og óvissan hefur bara aukist.

Ég get samt ekki sagt annað en að ég hafi það fínt þrátt fyrir hið furðulega þjóðfélagsástand. Ég reyni að gera mér ýmislegt til skemmtunar þrátt fyrir það. Ég fer í badminton tvisvar í viku með Óla og Sigga og Sigrúnu og stundum Árna Sigrúnarbróður. Ég fór til Edinborgar með Óla og megninu af vinnufélögunum aðra helgina í október, fræddist um skólastarf í Edinborg, borðaði núðlur á 4* hótelherbergi, drakk Tópas á hótelbarnum, verslaði lítið og fór á Queen tónleika. Ég fór á Vantrúarárshátíð um miðjan október sem var auðvitað feiknafjör eins og við var að búast. Sama dag fór ég í afmæli hjá Þóreyju Erlu, dóttur Davíðs, gaman að koma loksins til þeirra. Ég hélt saumaklúbb fyrir saumósgellurnar og við áttum saman kósý kvöldstund. Mamma og Svenni voru í bænum undir lok október, verslaði með mömmu og svo áttum við saman eitt kvöld þar sem við fórum út að borða, tókum ísrúnt og enduðum í kósý sjónvarpskvöldi. Ég fór í útskriftarveislu til Sigrúnar og á Nýdanskra tónleika eitt kvöldið. Ég fór á námskeið í verkefnastjórnun í lok október ásamt Helgu vinkonu. Á fimmtudaginn fór ég út að borða á Ítalíu með nokkrum þjóðfræðigellum sem ég hef ekki hitt lengi, gaman að hitta þær loksins og skiptast á fréttum. Og áðan fórum við til Árnýjar, Hjörvars og fjölskyldu í mat og spil sem stendur alltaf fyrir sínu. Við Óli erum líka alltaf að brasa eitthvað skemmtilegt t.d. erum við nýbúin að horfa á allar Back to the Future myndirnar og svo stendur yfir endalaust Scrubs maraþon. Við skemmtum okkur svo að sjálfsögðu konunglega yfir innkaupaferðum í Bónus, þvottum, uppvaski, bakstri og eldamennsku enda er leikurinn til þess gerður 🙂 Svo nota ég hvert tækifæri til að mótmæla þessu helv… rugli sem íslenska þjóðin er nú látin ganga í gegnum.

Mótmæli á laugardaginn

Mér finnst alltof margir Íslendingar vera sofandi. Við sitjum uppi með handónýta stjórn og spillingin grasserar í öllum hornum en það heyrist alltof lítið í fólki.

Á laugardaginn höfum við tækifæri til að koma saman og mótmæla! Vera með læti og sýna að okkur er ekki sama. Ég vil sjá fólk safnast þúsundum saman og helst tugþúsundum. Mér finnst það ekki gild afsökun að fólk vilji gera eitthvað með börnunum sínum á laugardögum. Auðvitað er nauðsynlegt að njóta stunda með fjölskyldunni en það má sameina þetta tvennt. Svo má fara á bókasafnið eða kaffihús eftir mótmælin ef fólki langar að gera eitthvað huggulegt.  Og í guðanna bænum ekki láta það stuða ykkur að nokkrir einstaklingar með svarta fána hrópi Drepum auðvaldið.

Það er ágæt mótmælaleið að blogga eða stofna grúppur á Facebook EN ráðamenn þessa lands sjá það fæstir og sjaldnast kemst það í fréttirnar. Mótmæli koma í fréttunum bæði innan lands og utan og sýnir umheiminum að við samþykkjum ekki þetta rugl.

Við verðum að standa með okkur! Alveg eins og við stöndum með samkynhneigðum og íslenska handboltalandsliðinu.

Klukk…

Óli klukkaði mig fyrir margt löngu…

1. Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
– Frystihúsgella á Vopnó
– Brauðpakkari í Kristjánsbakarí
– Gamlafólksaðhlynnari á Hrafnistu
– Deildarbókavörður á Borgarbókasafni

2. Fjórar íslenskar bíómyndir sem ég held upp á:
– Sódóma Reykjavík
– Englar alheimsins
– Nýtt líf
– Óðal feðranna

3. Fjórir staðir sem ég hef búið á:
– Rauðhólar, Vopnafirði
– Stekkjargerði 6, kjallari, Akureyri
– Hvassaleiti 34, bílskúr, Reykjavík
– Eggertsgata 18, stúdentagarðar, Reykjavík

4. Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
– Arthur´s seat í Edinborg
– Långholmenströndin í Stokkhólmi
– Trafalgar Square í London
– Urðardalur í Vopnafirði

5. Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
– How I met Your Mother
– Friends
– Cosmos
– Scrubs

6. Fjórar síður sem ég skoða daglega:
– Mbl.is
– Gmail
– Google Reader
– Facebook

7. Fernt sem ég held upp á matarkyns:
– Mexíkanskur kjúklingaréttur a la Eygló og Óli
– Heimatilbúin pizza a la Óli
– Kjötsúpa a la mamma
– Potato skins á Ruby

8. Fjórar bækur sem ég hef oft lesið:
– Þórubækurnar
– Burt með draslið
– Af bestu lyst
– Madditt

9. Fjórir staðir sem ég myndi helst vilja vera á núna:
– Í mat hjá mömmu og pabba á Rauðhólum
– Í kaffi hjá ömmu, afa og Ástu Hönnu á Kolbeinsgötunni
– Á spjalli við afa á Þiljuvöllunum
– Á gangi með Svenna, Hrönn og Frey um Norðfjörð

10. Fjórir bloggarar sem ég klukka:
– Íris Dögg
– Hjördís Óskars
– Svenni og Hrönn
– Frú Jóhanna

Vígður vefstjóri

…og vígður upplýsingafulltrúi.

Í dag voru Árni Svanur Daníelsson verkefnisstjóri vefmála, og Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir verkefnisstjóri á upplýsingasviði, sviði samkirkjumála og þvertrúarlegra mála, bæði starfsmenn Biskupsstofu, vígð til prests hjá Þjóðkirkjunni.

Til hvers? Hvað hafa vefstjórinn og upplýsingafulltrúinn að gera við prestsvígslu? Gott væri að sjá einhver almennileg rök fyrir því. Það helsta sem mér dettur í hug er að með því fá þau væna launahækkun og æviráðningu gegn því að messa endrum og eins í Dómkirkjunni…

Ég minni á að á vef Þjóðskrár má nálgast eyðublað til að slíta sig frá þessu batteríi. Þeir sem skrá sig utan trúfélaga styrkja Háskólann um ca. 10.000 kr. á ári. Drífið í þessu fyrir 1. desember svo þið borgið ekki þennan pening til Þjóðkirkjunnar fyrir árið 2009.

Útrunnir samningar

Kjarasamningarnir mínir runnu út í gær. Hvenær skyldi verða skrifað undir nýja? Verða kannski lagðir fram samningar uppá 10% lækkun launa? Það virðist vera vinsælt þessa dagana. Er þetta kannski rétti tíminn til að semja um styttingu vinnuvikunnar?