Greinasafn fyrir flokkinn: Almennt

Kosningar

Ég vil fá að kjósa til Alþingis fljótlega. Ég held að heppilegur tími væri eftir áramótin, helst strax í janúar. Núverandi ríkisstjórn er ekki að vinna vel saman og hún á stóra sök á því hvernig komið er og hvernig hefur spilast úr hlutunum síðustu vikur. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn eigi mesta sök á því að þetta fór svona illa. Hann hefur verið í forystu í frjálshyggjukjaftæðinu og gróðahyggjunni. Við þurfum á nýrri hugsun að halda, nýjum hugmyndum, til að reisa samfélagið okkar upp úr rústunum. Og vonandi trúir því enginn lengur að vinstri menn hafi ekkert peningavit.

Þau ykkar sem viljið sjá Alþingiskosningar á næstunni farið á kjosa.is og kvittið.

18% stýrivextir og ónýt króna á floti

Hvað mun það kosta á endanum að setja ónýta gjaldmiðilinn okkar á flot aftur og hækka stýrivexti?

Á meðan dollarinn er í 120 krónum samkvæmt Seðlabankanum segir Forbes 225 krónur…

Af hverju voru menn að lækka stýrivexti um 3,5 prósentustig fyrir hálfum mánuði fyrst menn hækka þá svo aftur um 6 prósentustig í dag?

Mér skilst að þessir háu stýrivextir séu m.a. til að hindra flæði fjármagns frá landinu. Ég hélt að það væri ekki beinlínis vandamál þessa dagana…

Svo margar spurningar, svo lítið um svör…

Biðin

Það er óþægilegt að þurfa bara að bíða og bíða. Mér líður svolítið eins og sé að bíða eftir niðurstöðum úr læknisrannsókn. En við þurfum sennilega að bíða enn um sinn. Það er víst ekkert einfalt mál að búa til þjóðhagsspá fyrir Íslands þessa dagana.

Þetta gerir mig voðalega eirðarlausa og ég hef ekki einbeitingu til að koma neinu af viti í verk.

Nýir tímar – á traustum grunni – my ass!

Ég er að dunda mér við að strá salti í sárin mín með því að lesa stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Það er hlægilegt að lesa stefnuna sem var sett fram á landsfundi flokksins í apríl sl.

Í ályktun um efnahags- og skattamál er klikkt út með þessari klausu:

Landsfundur leggst alfarið gegn þeim hugmyndum sem fram hafa komið um að hækka beri fjármagnstekjuskatt. Slíkt væri tilræði við sparnað í landinu og myndi án efa leiða til flótta fjármagns úr landi, þar sem um kvikan skattstofn er að ræða.

Markmið Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum eru fjölbreytt atvinnulíf, stöðugt verðlag, enn lægri skattar og frelsi í viðskiptum. Einungis þannig verður tryggt að hver og einn fái möguleika til þess að njóta sín. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur allra stétta og allra byggða og vill hafa forystu um samstöðu meðal þjóðarinnar um að efla nýsköpun á frjálsum markaði og nýta sóknarfæri í atvinnulífinu með þátttöku allra þjóðfélagsþegna. Einungis þannig verður Íslendingum áfram skipað í fremstu röð meðal þjóða heims hvað lífskjör varðar.

Þvílíkt djók. Tilræði við sparnað í landinu! Annað í þessari ályktun er aðallega eitthvað kjaftæði um að lækka skatta. Og hvaðan áttu þá peningarnir í uppbyggingu samfélagsins að koma. Átti kannski bara að halda áfram að búa til platpeninga?

Á þessi flokkur einhverja fylgismenn ennþá?

Framtíðin…

Ég er ekkert mjög bjartsýn á framtíðina núna. Og þó er ég ekkert sérstaklega svartsýn. Ég sé fyrir mér að lífið framundan geti verið yndislegt í einfaldleika sínum. Það verður a.m.k. einfalt á meðan maður á fyrir mat og húsnæði. Ég vona að við verðum svo heppin.

Staðreyndin er nefnilega sú að ef við líkjum ástandinu við Titanic (sem mér skylst að Spaugstofan hafi gert á laugardaginn) þá erum við enn í veislunni…en það er verulega farið að síga á seinnihlutann.

Þjóðin fremur glæp

Djöfull er ég pirruð á öllu þessu liði sem er endalaust að tönglast á því að við séum nú öll samsek í þessu klúðri! Ég er fjandakornið ekki sek í þessu máli. Eða á ég að finna til sektar yfir því að hafa tekið húsnæðislán? Að hafa tekið námslán? Að hafa farið til útlanda nokkrum sinnum síðustu árin? Að hafa leyft mér að fara í bíó, í leikhús, út að skemmta mér, út að borða o.s.frv. reglulega? Var ég þar með að taka þátt í helvítis eyðslufylleríinu og á bara skilið að sitja eftir í rústunum og borga af himinháum lánum þar til ég fer á eftirlaun?

Þó að við sitjum öll í súpunni þá eru aðeins fáir einstaklingar sem bera ábyrgð og eru sekir í þessu máli. Þessir menn eru stjórnmálamenn og fyrrverrandi bissnisshálfvitar.

Gengi og gjaldeyrir

Hvað þýðir það þegar eitt pund kostar 390 krónur, ein dönsk króna kostar 40 krónur og ein evra kostar 300 krónur samkvæmt erlendum mörkuðum? Sjá t.d. Forbes. Virkar þetta þannig að ferðamenn sem koma til landsins eru að borga fyrir vörur á þessu erlenda gengi? Gengið sem Seðlabanki Íslands gefur út er u.þ.b. helmingi lægra. Lifum við bara inní einhverri sápukúlu sem er á leiðinni að springa? Ég er reyndar orðin svo dofin að mér finnst bara fínt að danska krónan sé 20 krónur miðað við SÍ, og kannski væri bara fínt ef það væri raunvirði.

Hvenær komumst við út úr þessari gjaldeyriskreppu? Er eitthvað að gerast sem getur hjálpað okkur? Rússar eru voða vinalegir og bjóða í kaffi en hvað fáum við út úr því? Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er tilbúin að hjálpa okkur eitthvað, en hve mikið og hvaða skilyrði verða sett fyrir þeirri hjálp? Einhversstaðar heyrði ég líka að sú hjálp dygði ekki til. Fyrir viku síðan fékk ég alveg í magann yfir þeim orðrómi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þyrfti að koma okkur til bjargar. Núna er það löngu orðin staðreynd að það er verið að ræða við þá. Hvað þolum við þessa gjaldeyriskreppu lengi?

Ég er ekki farin að finna fyrir efnahagsástandinu á eigin skinni. Við Óli höfum bæði vinnu og höfum nóg að bíta og brenna…ennþá. Það er þessi lúmska óvissa í loftinu sem er að plaga mig. En inná milli tek ég smá Heri á þetta – Mér er skítsama!

Villa langamma

Villa langamma hefði orðið 110 ára í dag. Hún var fædd 15. október 1898.

Villa langamma var komin á elliheimili þegar ég fór að muna eftir mér. Íbúðin hennar var ósköp lítil, forstofa, eldhús, stofa og svefnaðstaða, allt í sama rýminu. Svo var baðherbergi og lítil geymsla.

Minningar mínar um langömmu tengjast sterkt nokkrum hlutum. Langamma átti held ég bara eitt leikfang fyrir börn að leika sér að, þetta var púsluspil sem ég púslaði oft þegar ég kom í heimsókn. Ég eignaðist svo þetta púsl. Langamma var nefnilega fús til að gefa hlutina sína, þó hún ætti ekki mikið. Hún gaf mér líka lítið skartgripaskrín, lítinn mokkabolla og fermingarmyndina af pabba. Hugsun langömmu hefur líklegast verið sú að það væri betra að gefa hlutina frá sér meðan hún væri enn á lífi.
Annar hlutur sem ég man sterkt eftir er spiladós. Hún var með fugli framaná. Og þegar maður opnaði hana gat maður fylgst með spilverkinu meðan dósin spilaði lag.
Enn annar hlutur sem ég man eftir var taska sem amma hafði heklað úr plastpokum. Mér fannst mikið til þessarar tösku koma. Langamma bjó líka til minnis-og teikniblokkir úr notuðum gluggaumslögum. Þetta voru góðar bækur til að teikna í og sumar blaðsíðurnar voru með plastinu (gluggunum) af umslögunum og það var ekkert verra að teikna á það. Ég man líka eftir lítilli dúkku sem langamma bjó til. Brúðan var gerð úr smá svamprúllu, plástur var límdur á annan endann og teiknað á hann andlit og svo var saumaður kjóll úr smá efnisbút. Villa langamma var semsagt mikið í því að endurvinna og greinilega mjög skapandi.

En það sem minnir nig mest á Villu langömmu er kandís. Hún átti alltaf til kandís. Þegar maður kom í heimsókn þá fór langamma og náði í kandíspakkann inní skáp. Hún bauð líka oft uppá suðusúkkulaði en ég var meira í kandísnum. Ég ætla að fá mér kandís í tilefni dagsins.

Týr x4

Langaði bara að segja frá því að ég fór á ferna tónleika með Tý um síðustu helgi. Ég væri til í að gera það a.m.k. aðra hverja helgi. Mig hafði ekki grunað að það væru til svona margir síðhærðir karlmenn á landinu, þeir mættu vera fleiri mín vegna.

Ég skrifa kannski meira um þetta síðar.

Glymur dansur í høll,
Dans sláið ring
Glaðir ríða Noregs menn
til Hildar ting