Greinasafn fyrir flokkinn: Bækur

Hliðarspor Ágústs

Ég las nýju bókina hans Ágústs Borgþórs í vikunni. Hliðarspor heitir hún. Fékk hana lánaða á bókasafninu. Bókin er ágætis afþreying og er fyrsta bókin sem ég klára í langan tíma. Hún fjallar um tvo gifta miðaldra rithöfunda sem eru í einhverskonar miðaldrakreppu. Þeir eiga báðir í samböndum við sér yngri konur, hvor á sinn hátt. Annar á í „andlegu“ sambandi“ en hinn líkamlegu.

Það sem mér fannst áhugaverðast í bókinni voru lýsingar á samskiptum þessara tveggja miðaldra hjóna. Hvernig kallarnir þola ekki að eyða öllum helgum í að dytta að heimilinu, fara í matarboð og versla og hvernig konurnar eru sífellt nöldrandi og fjarlægar (í hugum eiginmanna sinna). Ekki veit ég hvort þetta er raunsönn lýsing á íslensku meðalhjónabandi en við Óli ætlum sko ekki að vera svona þegar við verðum 45 😉

Mér fannst plottið í bókinni ekki alveg nógu sterkt, hefði þurft að prjóna meira í kringum það til að villa um fyrir lesandanum (mér náttúrlega!). En plottið var samt nokkuð sniðugt.

Bókin er mjög raunsæ. Á köflum svo raunsæ að ég velti því fyrir mér hvort að rithöfundurinn (Ágúst auðvitað) væri nokkuð að skrifa um sjálfan sig (en ég held nú örugglega að svo sé ekki).

En mæli með henni. Fæst í öllum betri bókabúðum.

Matar- og kaffistell

Ég hef aldrei skilið hvers vegna verðandi brúðhjón langar mest af öllu í rándýrt matar- og kaffistell í brúðargjöf. Það virðist bara vera kvöð á verðandi brúðhjónum að fara í næstu rándýru búsáhaldaverslun og velja sér eitthvað matar- og kaffistell og setja á svokallaðan gjafalista.*

Ég fór semsagt í Europris eftir vinnu og fann þar drauma hversdags matarstellið. Erum búin að leita mikið í mörgum búðum að hentugum diskum, bæði litlum og stórum en höfum ekkert fundið fyrr en nú. Vona bara að Óli sé sammála mér um ágæti þessa stells 😉  4 manna stellið (stórir diskar, litlir diskar, djúpir diskar, bollar og undirskálar) kostaði eins og hálfur diskur úr rándýru stelli.
Ég keypti líka viðbót við kaffistellið okkar, svo nú eigum við 12 manna kaffistell. 6 manna stellið kostaði líklega svipað og tæplega einn bolli úr rándýru stellunum.
En það er ekkert að marka mig, ég fann draumahnífapörin í Bónus 🙂

Ég skrapp líka á gamla góða bókasafnið mitt, las slúður og tók bækur eftir Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson.

Í lokin má svo geta þess að við Óli erum ekki að fara að gifta okkur á næstunni en ef og þegar þar að kemur þá langar okkur bara í eitthvað skemmtilegt í brúðargjöf. Er það ekki Óli?

*Ok, kannski langar einhverja í alvöru í svona voða fín stell 😉

Strympa

Ég er komin í bókaskáp heimilisins. Strympa eftir Peyo varð fyrir valinu að þessu sinni, teiknimyndasaga um Strumpanna. Bók sem Svenni bróðir fékk í afmælisgjöf frá Sunnu og Drífu 1986. Ég er nýbúin að vera á teiknimyndasögunámskeiði í vinnunni og er þess vegna dottin í það að lesa teiknimyndasögur í tíma og ótíma.

Strympa er mjög áhugaverð saga sem snerti ýmsa strengi hjá mér.
Fyrir þá sem ekki vita er Strympa búin til af Kjartani galdrakarli með það í huga að hefna sín grimmilega á Strumpunum. Hráefnið í Strympu er athyglisvert; í hana dugir ein hnefafylli af leir, perlur fyrir tennur, safírar fyrir augu, silki fyrir hár og dálítið af blárri málningu til að tryggja rétt litarhaft. En svo þarf að gæða hana lífi og þá verður uppskriftin öllu flóknari og skrautlegri. Uppskrift að lifandi kvenbrúðu; eina skeið af hégóma, væna sneið af undirferli, þrjú krókódílstár, einn hænuhaus, malaða höggormstungu, nokkur korn af ráðkænsku, nokkrir hnefar af skaphita, agnarögn af hvítum lygum, dálítið af sælkerahætti, eina skeið af óheilindum, eina fingurbjörg af hirðuleysi, hroka af hnífsoddi, ögn af öfundsýki, vænan skammt af tilfinningasemi, ögn af fákænsku, blandað saman við slægð, þynnt með miklu hugarflugi, jafnað með dálítilli þrjósku, eitt kerti, brunnið í báða enda.
Um leið og mér finnst þessi steríótýpa sem þarna er dregin upp fyndin er litli femínistinn innra með mér sármóðgaður fyrir hönd kvenþjóðarinnar.

Kjartani galdrakarli tekst að hefna sín á Strumpunum með Strympu. Hún reynist vera algerlega óþolandi. Hún spyr endalaust heimskulegra spurninga, er óþolandi upptekin af útlitinu og svo fær hún furðulegar hugmyndir eins að mála steinana bleika og halda dansiball. Strumparnir ákveða síðan að hefna sín á Strympu með því að pískra um það sín á milli að hún sé feit. Hún fer auðvitað alveg í mínus og lætur ekki sjá sig utandyra eftir það. Æðstistrumpur tekur að sér að flíkka aðeins uppá hana. Strympa var upphaflega með dökkt, frekar stutt og svolítið úfið hár en Æðstistrumpur gerir það ljóst og sítt og litar líka á henni augnhárin. Þá verða allir strumparnir ástfangnir af Strympu og eftir það finnast þeim heimskulegu spurningarnar og furðulegu hugmyndirnar bara krúttlegar og vilja allt fyrir hana gera. Þetta grunnhyggna lið!

Mæli annars með þessari færslu um Tinna hjá Magnúsi Teits. Ég er líka að vinna í því að lesa Tinna. Búin að lesa fjórar af 24.

Nátthrefna

Mikið væri gott að geta alltaf vakað fram á nótt og sofið fram eftir morgni. Ég hef sagt það áður og stend við það að ég er nátthrafn. Ég er viss að ég næði bestum afköstum í vinnunni ef ég gæti unnið milli 8 á kvöldin og 4 á nóttunni. Verð að koma sólarhringsopnun að í næstu starfsáætlun Borgarbókasafnins.

Mig langar voðalega til Vopnafjarðar núna. Það koma tímabil þar sem ég sakna þess virkilega mikið að eiga ekki fjölskyldu í nágrenninu, og ekki tengdafjölskyldu heldur. Læt mig dreyma um hvað það væri nú gott að geta farið í mat til mömmu og pabba eða skroppið til ömmu og afa til að spila og fá súkkulaðirúsínur og kók.
Það skiptir mig þess vegna verulegu máli að eiga góða vini.

Ég er að verða föðursystir í janúar. Ég hlakka mikið til. Er að upphugsa leiðir til að verða uppáhaldsfrænka. Harpa móðursystir, þetta verður hörð samkeppni! 😉
Er að plana að fara austur í febrúar eða mars og vera í nokkra daga til að knúsa litla krúttið. Lítil börn eru ekkert hversdagsleg fyrir mér.

Óli er að útskrifast á laugardaginn. Þá verður hann líka bókasafns- og upplýsingafræðingur. Veislan verður á sunnudaginn. Er bjartsýni að bjóða 30-40 manns í 80 fm íbúð? Nei, það finnst mér ekki 🙂

Kannski maður ætti að fara að sofa. Ætla fyrst að lesa. Er að lesa seinni hlutann af Persepolis sem við Óli fengum í afmælisgjöf frá Ásgeiri í vor. Las fyrri hlutann strax en hef svo ekki gefið mér tíma í seinni hlutann fyrr en núna. Þetta eru æðislegar bækur.

Góða nótt!

Sumarið hingað til…

Nú hef ég ekkert bloggað í næstum mánuð. Það er ennþá júní og komið enn meira sumar.

Við fórum til Akureyrar um hvítasunnuhelgina. Þar hittum við marga Óla-ættingja. 3 litlar frænkur (Kötlu krútt sáum við í fyrsta skipti), eina systur, 5 frændur, Siggu ömmu, Gunnþór afa og fleiri. Við förum orðið frekar sjaldan til Akureyrar, ég hafði ekki komið í rúmt ár núna (fyrir utan millilendingar á leið til Vopnafjarðar).

Ég fór á Snæfellsnes helgina 9.-12. júní. Amma, afi og Ásta Hanna voru þar í sumarbústað. Það var flennibjart og gott útsýni þegar ég kom á föstudagskvöldinu. Þoka og rigning laugardag og sunnudag. Hávaðarok á mánudeginum þegar ég fór heim aftur. Við gerðum þó ýmislegt þrátt fyrir leiðindaveður. Fórum til Ólafsvíkur og Stykkishólms og skoðuðum þar söfn og rúntuðum um bæina. Sáum rallýkrosskeppni á Hellissandi. Það fannst mér gaman. Svo fórum við í Bjarnarhöfn á Hákarlasetrið og þar voru líka sýnd töfrabrögð í kirkjunni. Hildibrandur er snillingur. Svo grillaði ég í einhverri mestu rigninu sem ég hef lent í. Það var áhugaverð reynsla. Ég verð að fara aftur á Snæfellsnesið fljótlega til að sjá meira.

17. júní helgina komu amma, afi og Ásta Hanna til okkar eftir vikudvöl á Snæfellsnesinu. Ég fékk að rúnta um með þau á stóra sjálfskipta jeppanum þeirra. Það var áhugaverð reynsla fyrir mig sem keyri alltaf um á litlum, beinskiptum bíl. Við fórum í búðir, í kaffi í Perlunni og heimsóknir. Svo grillaði ég, í aðeins betra veðri í þetta skipti. En það varð hálfgerð sviðasteik því það kviknaði í grillolíunni. En það var ekki nema ein sneið sem þurfti að henda.

Á fimmtudagskvöldið fór ég aftur í Perluna. Í þetta sinn með trúleysingum eins og Richard Dawkins, Dan Barker og Óla Gneista. Það var gaman. Það var frábært útsýni úr Perlunni þetta kvöld og gaman að sýna útlendingum borgina og nánasta nágrenni. Snæfellsnesið sást í heild sinni og alltaf finnst mér það jafn tilkomumikil sýn.

Helgin núna hefur verið frekar róleg hjá mér. Óli er á trúleysingjaráðstefnunni (og svífur um af hamingju) svo ég hef mestmegnis verið heima í rólegheitum. Sat út á palli að lesa í sólinni í gær. Það var notalegt. Náði að klára Kleifarvatn, held svei mér þá að ég hafi verið 2 mánuði að lesa hana, gat bara ekki lagt hana frá mér! Hún var svona ágæt, hefur lesið betri Arnaldarbækur. Byrjaði svo að lesa Hulduslóð eftir Lizu Marklund. Það er svona hörmungarævisaga. Hún lofar góðu, gengur allavega hraðar með hana en Kleifarvatn.
Í gærkvöldi fór ég í bíó með Hrönn vinkonu. Fórum að sjá Just my luck. Hún var hún frekar mikil froða. Alveg hægt að brosa að henni en hún skilur ekkert eftir. Svo fór ég til Sigrúnar og Viggós en þar voru Eva, Heiða og Sigga Steina. Svo fórum við í bæinn, ég, Heiða, Sigga og Hrönn en entumst nú ekki þar nema í tæpa tvo tíma. Alltaf finnst mér djammið jafnfyndið. Við stóðum í röð heillengi til að komast inn á Hressó þar sem var pakkað af fólki og eins að vera í gufubaði. Það var röð á klósettið, endaði svo á klósetti þar sem læsingin var biluð og vantaði klósettpappír (en það reddaðist með góðri hjálp frá Heiðu og Siggu). Það er annars ógeðslega fyndið hvernig svona raðir á skemmtistaði virka. Það er endalaust verið að taka fólk fram fyrir mann af því að einhver þekkir dyravörðinn eða eiganda staðarins eða eitthvað. Eins og maður væri tekin framfyrir í röðinni í Bónus. „Hey, ég þekki Jóhannes!, fariði frá!“ Undarleg menning þarna, hefur enginn stundað markvissar mannfræðirannsóknir í miðbæ Reykjavíkur um helgar?

Mamma og pabbi eru að koma á eftir. Þau fara svo til Skotlands á þriðjudaginn. Hlakka til að sjá þau. Ég er strax komin með verkefni fyrir þau. Mamma fær að hjálpa mér við að skipta á þessum tveimur blómum mínum á eftir. Svo ætla ég að fá pabba til að gefa okkur ráðleggingar varðandi grasfræ og áburð og eitur á tréð okkar. Það er nú eins gott að nýta sér það að fá þau í heimsókn 😉 Ég er svo í fríi á morgun svo ég get fundið fleiri verkefni fyrir þau…eða stjanað við þau. Sjáum til.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er búin að skrá mig í nám í opinberri stjórnsýslu í Háskólanum. Þetta er 15 eininga diplómanám á mastersstigi. Ég tek þetta með 100% vinnu, tímarnir eru á morgnanna milli 8 og 10 svo það ætti að ganga upp. Þetta verður örugglega áhugavert, skilst að það sé mikið af fólki með mikla stjórnunarreynslu sem eru í þessu. Ég verð því væntanlega yngst og græninginn í hópnum (eins og venjulega) ;))

Annað sem er að frétta er að ég er farin að stunda sundlaugarnar, hef farið þrisvar í viku síðustu vikur og stefni að því að halda því áfram í sumar allavega. Við höfum verið að fara fyrir vinnu og það virkar bara ágætlega, nema að það er pirrandi þegar það eru sundæfingar því þá er lítið pláss til að synda. Ætlum kannski að prófa að skipta yfir í Breiðholtslaugina. Markmiðið er að synda a.m.k. kílómeter á viku.

Hafið það gott 🙂

Pennavinir, Lítil prinsessa og sauðburður

Jæja, næsta skref í barndómi var að lesa gömul bréf frá pennavinum. Það rifjaði ýmislegt upp. Væri gaman að hafa uppá einhverju af þessu liði. Hef reyndar nú þegar þefað uppi nokkrar bloggsíður. Væri líka áhugavert að fá að skoða bréfin sem ég skrifaði en sennilega bara meira vandræðalegt en áhugavert samt.

Svo færist ég hægt og rólega upp í bókmenntunum. Er orðin 10 ára á þeim vígstöðum. Er að lesa bókina Lítil prinsessa sem ég fékk í afmælisgjöf þegar ég var 10 ára. Man þegar ég las hana fyrst þá var ég sífellt og endalaust að hlaupa yfir í herbergi til mömmu og pabba til að spyrja hvernig hitt og þetta væri borið fram. Erlendu nöfnin fengu nefnilega að halda sér í þýðingunni. Mjög skemmtilegt fyrir þau örugglega!

Sauðburðurinn gengur ágætlega miðað við veður. Ömurlegt náttúrlega að þurfa að hafa allt inni en það hefst einhvernveginn.

Draumalandið

Hver vill koma með mér á fyrirlestur Andra Snæs Magnasonar um Draumalandið? Fyrirlesturinn er í Sólheimasafni (Sólheimum 27) á fimmtudaginn kl. 18.

Svo mæli ég auðvitað með því að allir lesi Draumlandið! Getið fengið hana lánaða hjá mér.

Bækur og blöð

Ákvað að klára Krosstré eftir Jón Hall eftir að Aðalsteinn (frændi Óla) mælti með henni á nýársdag. Mér fannst hún bara nokkuð góð, þegar hún loksins „byrjaði“. Náði að koma á óvart. Er núna að lesa Í fylgd með fullorðnum eftir Steinunni Ólínu. Hún er líka ágæt. Svo tekur við Arnaldar maraþon. Er með Vetrarborgina í láni frá bókasafninu og Dauðarósir og Mýrina frá Árnýju og Hjörvari (búin að vera með þær allar alltof lengi).

Svo hef ég verið að lesa/skoða nýja Gestgjafann og jólaGestgjafann. Það er svo gaman að lesa/skoða uppskriftir. Svo miklu skemmtilegra en að elda.

Hvað hef ég verið að lesa?

Það er langt síðan ég hef skrifað um bækur á þessari síðu. Hef líka verið að lesa afskaplega lítið í vetur.

Í haust las ég Bókasafnslögguna eftir Stephen King. Fannst að ég yrði nú eiginlega að lesa hana fyrst ég væri í þessu námi. Bókin var alveg ágæt en ekki jafn skelfileg og ég bjóst við. Þess má geta í leiðinni að þetta er fyrsta Stephen King bókin sem hef lesið.
Það er alltaf gaman að sjá hvaða mynd rithöfundar draga fram af bókavörðum/bókasafnsfræðingum og í Bókasafnslöggunni var það ekkert sérstaklega fögur mynd…en frk. Lortz var nú samt nokkuð kúl 🙂

Ég fékk tvær íslenskar harmævisögur í jólagjöf, sem sagt Lindu og Ruth. Mjög keimlíkar sögur, helsti munurinn sá að Ruth á börn en ekki Linda. Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst gaman að lesa svona bækur en ég er alveg á þeirri skoðun að hvorug þessara bóka hefði samt átt að koma út núna, þær voru ekki tímabærar. Lok beggja bókanna er vorið 2002 og það er bara mjög stutt síðan, það er ekkert hægt að sjá neitt í skýru ljósi sem gerðist þá. Þær hefðu örugglega skrifað um þessa atburði á allt annan hátt eftir 10 ár. En alveg fínar bækur, mæli með þeim við þá sem hafa gaman af svona bókmenntum.

Eftir jólin las ég bók sem fékk í jólagjöf árið 1997, það var Óskaslóðin eftir Kristjón Kormák Guðjónsson. Ágæt bók sem fjallar um strák sem er í dópinu í Reykjavík. Fannst hálfskrýtið þegar ég las hana núna að ég hefði bara verið 14 ára þegar ég las hana fyrst.

Núna er ég að lesa Föruneyti hringsins eftir Tolkien, er enn sem komið er bara búin að lesa fyrsta kaflann en ég vona að ég endist í að klára hana og hinar 2 líka.

Nóg af bókum í bili…

Matarsögur

Þetta er uppskriftabók þar sem talað er við 17 misfrægar íslenskar konur um mat og þær gefa síðan nokkrar uppskriftir hver. Meðal þeirra sem eiga uppskriftir í bókinni eru Guðrún Eva Mínervudóttir, Siv Friðleifsdóttir, Diddú, Þórunn Lárusdóttir og Dýrleif Örlygsdóttir.
Gaman að kíkja í hana.