Greinasafn fyrir flokkinn: Dagbók

Ammæli

Ég hélt uppá afmælið mitt í kvöld. Bauð nokkrum vel völdum kvensum. Það var gaman að hitta þær allar. Við spiluðum Actionary sem endaði með því að Helga Jóna, Ingibjörg og Lukka unnu með yfirburðum. Ferlega ótillitssamt af þeim að leyfa ekki afmælisbarninu að vinna 😉

En ég sé fram á kaffiboð í næsta afmæli. Þær voru ferlega slappar í drykkjunni. Sumar höfðu reyndar nokkuð skotheldar afsakanir eins og að vera óléttar eða þurfa að vakna í vinnu eða með börnunum sínum á morgun. Hinar eru held ég bara orðnar gamlar 😉

Ég var allavega sú drukknasta í mínu eigin afmæli (sem var ekki erfitt) og er enn að reyna að ná mér niður eða bara að njóta áhrifanna.

Ég fékk frábærar afmælisgjafir. Þær hittu allar í mark. Fékk túlípana (ég elska að fá blóm!) og páskaegg frá Heiðu og Evu. Fékk Bonzai tré frá Sigrúnu (sé fram á regluleg símtöl við Svenna bró á næstunni 😉 ). Fékk nudd frá þjóðfræðigellunum Helgu, Ingibjörgu, Lukku og Jóhönnu. Hef aldrei farið í nudd og hlakka því mikið til að prófa. Fékk Framandi og freistandi og edik og olíur frá Helgu og Kollu. Þær hittu akkúrat á matreiðslubók sem ég á ekki, sem er vel af sér vikið og edikið og olíurnar eiga eftir að koma sér vel við tilraunaeldamennsku. Svo fékk ég sjóngler og tösku undir stjörnusjónaukann frá Saumógellunum Rósu, Ástu, Ingunni, Björgu, Írisi og Lindu. Sem er snilld. Sævar fær sérstakar stuðkveðjur 😉

Svo heyrði ég í Ósk í lok kvöldsins þar sem við ræddum sameiginlega þráhyggju okkar.*

Kannski að maður fari að sofa eða að dansa nakin í stofunni.

 Góða nótt!

*Spilerí

Kæra dagbók

Þá er best að halda áfram með dagbókina 😉

Tók þátt í yndislegri geðveiki á fimmtudaginn. Ég fór í Toys´R´Us með öllu hina geðbilaða fólkinu. Stóð meira að segja í röð úti í næðingnum. Þetta er fínasta búð og nóg til þarna. Gerði sérlega úttekt á spilahillunni hjá þeim og það var ágætis úrval, meira að segja hægt að fá bingóvél sem gæti komið sér vel suma daga ársins. En manni varð samt hálfóglatt yfir neyslubrjálæðinu, fólk með kúfaðar innkaupakerrur af leikföngum, ótrúúúlegt.
Hitti svo mömmu aðeins áður en hún fór á ASÍ-djamm. Hún fór svo heim á föstudeginum.

Ég fór á fyrsta starfsmannadjammið í nýju vinnunni á föstudaginn. Fyrst voru bjór og samlokur í vinnunni. Svo var okkur smalað uppí rútu og keyrt með okkur uppí Kjós. Þar á Stjórinn bústað sem við fengum til afnota. Þar var nóg að borða og drekka. Hápunkturinn var Tekílahafnarbolti með vafasömum reglum. Okkur var smalað aftur uppí rútu og haldið að veiðihúsinu Laxá í Leirársveit. Þar fengum við mjög góða sveppasúpu sem ég át yfir mig af. Vorum svo komin aftur í bæinn fyrir miðnættið og þá var ég alveg búin á því og dreif mig bara heim.

Á laugardagskvöldið kom Hrönn í „innflutningspartý“ til mín. Það eru ekki allir sem fá svona sérmeðferð 😉 En hún hafði aldrei komið í „nýju“ íbúðina áður. Hún var svo sæt að færa mér rós og kertastjaka í innflutningsgjöf. Takk fyrir mig.
Ég bauð henni í mat í uppáhaldskjúklingaréttinn minn og auðvitað var Bónusís með Marssósu og jarðarberjum í eftirrétt. Jummí! Spjölluðum svo frameftir nóttu.

Á sunnudaginn fór ég og spilaði við Hjördísi og Halla. Það var mjög skemmtilegt. Spiluðum Trivial og Pass the Pigs og ég vann bæði. Nananananana! 😉 Við stefnum að því að hittast oftar á næstunni og gera eitthvað sniðugt saman. Jólaföndur er líklegast næst á dagskrá.

Bústaður, vírusvörn, Ken og mútta

Ég fór í bústað með saumaklúbbnum um helgina. Fórum í Brekkuskóg. Það var ferlega gaman. Við gerðum allt sem maður á að gera í bústað; fórum í gönguferð (reyndar afskaplega stutta), gúffuðum í okkur nammi, hlustuðum á eðalmúsík (ég er rebell, tekex og kremkex) elduðum góðan mat (sem kostaði alveg 300 kall á mann), láum í heita pottinum, spiluðum og sváfum út (og sumir nánast úti).

Danni kíkti til mín á mánudagskvöldið og ég reddaði vírusvörninni á tölvunni hans (reyndar með góðri hjálp frá Írlandi) og svo átum við snakk og kók (hér á bæ eru sko allir dagar nammidagar) og spjölluðum um skjalastjórn 🙂

Í gær fór ég í fyrsta skipti á áhorfendapallana í Ráðhúsinu og sá þar Ken taka við borginni og ég er ekki frá því að ég hafi séð Glanna glæp bregða fyrir.

Í dag kom svo múttan mín til borgarinnar. Borðaði með henni í Kringlunni í hádeginu og sleppti henni lausri þar á meðan ég kláraði vinnudaginn. Fór svo með henni í fleiri búðir og enduðum á að borða í Smáralind (þetta útálandilið hangir bara í búðum þegar það kemur til borgarinnar). Óskaplega gott að fá svona fjölskyldufélagsskap.

Góða nótt!

Dagarnir líða

Long time, no blog! Reyndar ekki langur tími miðað við oft áður en…

Á sunnudaginn fór ég í Vantrúarlunch. Gestrisnin og veitingarnar hjá Matta og Gyðu klikkuðu ekki frekar en fyrr daginn. Og félagsskapurinn svosem ágætur líka 😉
Eftir lunchið skellti ég mér í sund. Það var bara svo hrikalega gott veður á sunnudaginn að það var ekki hægt að vera inni. Synti 550 m og virðist bara vera í nokkuð góðu sundformi þrátt fyrir að hafa ekkert synt í 2 mánuði. Þarf að gera meira af þessu.
Fór til Rósu og Jónbjörns um kvöldið og horfði með þeim á Næturvaktina. Það eru nokkuð smellnir þættir 🙂

Á mánudagskvöldið fórum við Rósa í bíó. Sáum Heima 🙂 Mér fannst hún æði og væri alveg til í að fara aftur. Hún var falleg, hún var hljómfögur, hún var fyndin, hún vakti gæsahúð, hún fyllti mig stolti, hún fyllti mig kjánahrolli, hún vakti hjá mér löngun til að fara á ródtripp um Ísland. Ég mæli með henni.

Í gærkvöldi fór ég á kaffihús með saumaklúbbnum. Fórum á Kaffi Mílanó sem er alltaf voða næs. Plönuðum margt en kjöftuðum meira 🙂

Ég ætla að vera heima hjá mér í kvöld.

Godfather, saumó, reyklaus, geymslan og afmæli

Ég hafði það af að horfa á Godfather part II í kvöld. Ég er hægt og bítandi að sigrast á Godfather-fordómum mínum. Þetta eru ágætismyndir. Svo verður lagt í Godfather part III einhverntíma bráðlega, Óli verður að fá að vita hvernig My so-called life endar 😉

Svenni bróðir kíkti á okkur frá miðvikudegi til föstudags. Sáum reyndar ekki mikið af honum, hann er svo duglegur að vinna drengurinn 🙂 En nú fer að styttast í Danmerkurferð. Það verður ljúft.

Það var saumaklúbbur á fimmtudagskvöldið. Þar er búið að innleiða nýja reglu, að segja frá „highs and lows“ frá síðasta hittingi. Ég held að highs-ið mitt hafi verið Uriah Heep tónleikarnir um daginn ásamt því að fara í sveitina mína. En lows-ið er svo low að ég held ég tjái mig ekki um það hér (og gerði það ekki heldur þar, kannski seinna stelpur). Er annars farin að hlakka til að djamma með saumaklúbbnum og fleiru góðu fólki í brúðkaupi ársins 🙂

Við fórum út að borða með Vantrúarliðum á föstudagskvöldið og svo á pöbbarölt. Mikið var gott að vera laus við reykinn. Verður gott að geta farið út að skemmta sér án þess að verða útúrreykt. Það voru heilmiklar umræður og komu fram margar hugmyndir eins og venjulega á svona hittingum. Svo er stefnt að árshátíð á Akureyri í haust, það verður stuð.

Í gær unnum við Óli stórvirki. Við tókum til í geymslunni! Fylltum átta stóra ruslapoka og meira til. Mikið var gott að klára þetta verk af. Nú er geymslan ofursnyrtileg og maður missir ekki geðheilsuna við það eitt að koma þar inn. Fórum svo þrjár ferðir í Sorpu í dag. Næst á dagskrá er að taka til í íbúðinni og setja dót niðrí geymslu 😉

Í gærkvöldi hélt Hjördís uppá afmælið sitt. Hún bauð uppá rosa góða smárétti og freyðivín. Það var gaman að hitta „bókasafnsfræðinördana“, verst að Danna vantaði. Við gáfum Hjördísi myndavél og núna verður hún vonandi dugleg að dæla inn myndum á síðuna sína.

Sæl að sinni. Góða nótt :o*

Heep, Purple, Lónið, Godfather, My so-called life og Elliðaárdalur

Ég er komin aftur til borgarinnar. Flugið hingað gekk merkilega vel, bara allt samkvæmt áætlun. Gunnsteinn afi, Ásta Hanna og mamma skutluðu mér í Egilsstaði og svo komu Reynir afi og Óla frá Norðfirði og borðuðu með okkur.
Óli og sólin tóku svo á móti mér á Reykjavíkurflugvelli, en þau hafði ég ekki séð í 10 daga (reyndar smá ýkjur, sólin gægðist fram alveg tvisvar meðan ég var á Vopnafirði).

Við Óli fórum svo á tónleikana með Uriah Heep og Deep Purple.  Ég var búin að hlakka mikið til að sjá Uriah Heep á tónleikum og þeir stóðu sko alveg undir því. Þvílík snilld að sjá þá og heyra. Við vorum framarlega beint fyrir framan Mick Box og það var bara frábært. Mikil gæsahúð fylgdi July Morning og mikið stuð að fá Easy Livin í uppklappinu. Verst að þeir skyldu bara spila í klukkutíma. Ég hafði ekki miklar væntingar til Deep Purple en þeir stóðu eiginlega ekki undir þeim. En jújú, það var alveg gaman að heyra í þeim.

Á mánudaginn fórum við í Bláa lónið. Ég vann 2 miða í það á Þjóðbrókarþorrablótinu í febrúar. Merkilegt að ég hef unnið í öllum spurningakeppnum á vegum Þjóðbrókar sem ég hef tekið þátt í. Jólakvissin í fyrra og hittifyrra og svo þetta. Veit ekki hvort það segir meira um mig eða þjóðfræðinema almennt 😉 En Lónið var fínt. Ágætt að skreppa þangað annað slagið. Gott að maka á sig drullu og slappa af 🙂

Þegar ég kom aftur úr sveitinni til borgarinnar beið mín afmælisgjöf nr. 2 frá Óla. My so-called life á DVD!!! Ég elskaði þessa þætti og geri enn!
Við Óli gerðum svo með okkur samning. Mánudagskvöldið fór því í að horfa á fyrstu Godfather-myndina. Stórlega ofmetin (ég meina hún er í fyrsta sæti á top 250 listanum á imdb.com!) en engu að síður ágæt. Svo horfðum við á fyrsta þáttinn af My so-called life. Þeir hafa elst merkilega vel, 90’s er æði. Nú er bara að finna tíma til að horfa á næstu Godfather mynd.

Það var indælt veður í dag. Við Óli röltum niðrí Elliðaárdal eftir vinnu hjá mér í kvöld. Það var yndislegt. Við ættum að gera það oftar.

Hjördís og Helga áttu afmæli í gær (28. maí). Mér finnst fyndið að þær eru fæddar nákvæmlega sama dag og þær hafa báðar lært bókasafns- og upplýsingafræði. En þær eru samt mjög ólíkar. Til hamingju báðar tvær 🙂

Góða nótt, elskurnar mínar.

Fermingarafmæli, egg og gleraugu

Ég gleymdi 10 ára fermingarafmælinu mínu! Og það var enginn að minna mig á það! Ég fermdist 23. mars 1997 og átti því 10 ára fermingarafmæli á föstudaginn. En það verður haldið uppá það með pomp og prakt (og hvítvíni) í sumar með fermingarsystkinunum.

Ég keypti mér Haribo-nammiegg í Bónus áðan. Loksins fæ ég páskaegg sem mér finnst bragðgott. En ætli ég verði samt ekki að skella mér á eitt lítið Nóa-egg líka, svona til að fá málshátt.

Gleraugun mín eru skítug.

Helgin

Þá er helgin að baki. Virkilega skemmtileg en voðalega er ég samt eitthvað þreytt.

Borðuðum með Svenna, Hrönn, Frey og Bryndísi á fimmtudagskvöldið. Mjög gaman að hitta þau og Freyr var svo tillitsamur að brosa til mín 🙂

Fór á ráðstefnu í tilefni 50 ára afmælis kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði á Íslandi á föstudaginn. Margir skemmtilegir fyrirlestrar og skemmtilegt spjall í öllum löngu tengslanetshléunum.

Fór í vísindaferð í Framsóknarflokkinn á seinnipartinn á föstudaginn. Það var ljómandi skemmtilegt og hvítvínið rann svo sannarlega ljúflega (og hratt) niður. Það voru líflegar umræður og Jónína Bjartmarz staðfesti að Framsókn er ekkert að fara að halla sér til vinstri í vor og heyrðist mér á öllu að Framsókn vildi helst taka upp slagorð Sjallanna; Stétt með stétt. En þetta var virkilega skemmtilegt, enda er ég mikil áhugamanneskja um pólitískar umræður (og hvítvín).

Svo var hátíðarkvöldverður með bókasafns- og upplýsingafræðingum. Þriggja rétta máltíð á Hótel Sögu í góðum félagsskap (og meira hvítvín!).

Náði í ömmu og Ástu Hönnu á flugvöllinn um hádegi á laugardaginn. Borðuðum í Norræna húsinu ásamt Svenna og Frey (sem var reyndar nýbúinn að fá sinn hádegisverð). Þær voru að sjá Frey í fyrsta sinn.

Í gærkvöldi var matarboð hjá Halla bókasafns- og upplýsingafræðingi. Þar var ég í þeirri skemmtilegu stöðu að vera eina stelpan með fjórum karlkyns bókasafns- og upplýsingafræðingum (Nilli hefur reyndar engan rétt á bera þennan fallega titil en starfar samt sem slíkur). Það eru ca. jafnmargir karlmenn og voru á hátíðarkvöldverðinum á föstudaginn, nema hvað þar voru líka 75 konur! Því miður komst Hjördís ekki en vonandi getur klíkan hist öll í einu fljótlega. En hvað um það þetta var þriggja rétta máltíð sem er einhver sú besta sem ég hef fengið lengi (Hótel Saga átti aldrei sjens í þessa máltíð) og hvítvín og rauðvín eins og maður gat í sig látið. Frábært kvöld í góðum félagsskap. Er ekki bara málið að stofna matarklúbb? (og borða alltaf hjá Halla 😉 )

Í dag fór ég með ömmu í hádegismat í Bakarameistarann og svo í Kringluna. Keyptum ekkert nema Biblíu. Svo var haldið á Langholtsveginn til Gullu. Alltaf gaman að koma þangað. Amma var semsagt „au-pair“ hjá Gullu árið 1952 og pabbi bjó hjá henni einn vetur ca. 1973.

Kvöldið fór svo bara í afslöppun og tiltekt.

Vinnuvikan er framundan.

Æði…

Nú verða sagðar fréttir:

Íslendingar eru komnir í 8 liða úrslit á HM 🙂 Það er mikið gleðiefni. Handbolti er æði.

VG er orðin stærri en Samfylkingin samkvæmt Bensa frænda. Það er líka gleðiefni. VG er æði.

Ég hélt stelpupartý á föstudagskvöldið fyrir viku. Það var gaman. Ég ældi. Það var ekki gaman. En stelpurnar eru æði 🙂

Ég fór á Vantrúarhitting á laugardagskvöldið. Það var gaman. Vantrú er æði.

Ég er í framboði til Stúdentaráðs. Skipa 9. sæti á Háskólalistanum. Kjósið mig. Háskólalistinn er æði.

Hér var videokvöld Þjóðbrókar í gærkvöldi. Við spiluðum! Það var gaman. Þjóðbrækur er æði.

Nils vinur minn og Sibba konan hans eignuðust son 23. janúar. Hann heitir Flóki. Flóki er æði.

Litil frændi minn er búinn að fá nafn. Hann heitir Freyr. Freyr frændi er æði 🙂

Við Óli erum byrjuð saman aftur 🙂  Óli er æði.

Já, og ég er æði!

These were the days…

Sunnudagur 12. maí 1991
Kæra dagbók
Í dag vaknaði ég hjá ömmu minni. Klukkan 8 fór ég inn til ömmu, síðan fékk ég mér kók og pönnukökur. Fórum síðan í langan labbitúr upp í kletta og niður á götu. Löbbuðum til langömmu. Þegar við komum að Shell-sjoppunni hittum við afa á fína bílnum. Fórum með afa á pósthús, síðan heim. Eftir hádegi fór ég að leika mér. Síðan kom rigning. Þá fór ég inn. Áður en rigningin kom jörðuðum við þröst. Síðan fórum við heim í Rauðhóla með langömmu og Ástu Hönnu. Við fengum pönnuköku og fleira. Við Svenni fórum í fjallgöngu. Síðan lögðum við kapal. Fórum síðan að sofa klukkan 23:06
Bless, bless kæra dagbók