Greinasafn fyrir flokkinn: Dagbók

Helgin

Helgin hjá mér var mjög góð.

Hélt ljómandi gott stelpupartý hérna heima á föstudagskvöldið. Var með opinn bar (þar sem áfengi á það til að safnast upp hjá mér) en annaðhvort var magnið svo mikið eða stelpurnar svo penar að ég sé fram á að geta haldið mörg partý áður en áfengið klárast. En það er svosem ekkert nema jákvætt enda stendur til að endurtaka þetta við tækifæri 🙂 Eftir mikið spjall og drykkju var svo haldið á Hressingarskálann (hvenær skyldi ég ná að djamma annarsstaðar en á Hressó?).

Á laugardaginn hafði ég það svo bara náðugt heima. Um kvöldið hélt ég svo í pizzu- og evróvisjónpartý til Guðrúnar og Friðbjörns (vina Svenna bró og Hrannar). Þar var Hrönn mágkona og fleiri úr árgangi ’77 úr Nesskóla (t.d. tveir mjög öflugir bloggarar). Evróvisjónið var hæfilega hallærislegt eins og venjulega en þær Ólína og Lilja Fanney fengu þó meiri athygli en söngstjörnurnar…enda kunnu þær mun fleiri partýtrix en evróvisjónliðið 🙂

Sunnudagurinn var svo voða rólegur. Skruppum aðeins í Smáralind og eyddum næstum engum peningum. Svo hitti ég Hrönn á Culiacan og við fengum okkur mexíkanskan. Um kvöldið horfði ég á Allir litir hafsins eru kaldir (missti ég af einhverju eða kom einhver skýring á titlinum) og fannst þetta bara ljómandi góð þáttaröð. Svo gerði ég mér lítið fyrir og tók til í öllum fatahirslum heimilisins og baðskápunum. Það var ljómandi skemmtilegt og auðvitað komst ég að því að ég á fullt af fötum!

Jóga, sekkjapípur, labbitúr, leikhús og Telma

Mikið sem þetta jóga tekur á. Er alveg að drepast í lærunum í dag.

Við Óli fórum á sekkjapíputónleika með Gary West í gærkvöldi. Það var mjög gaman. Gary spilaði á tvær sekkjapípur og tvær litlar flautur. Þvílíkur hávaði í hálandasekkjapípunum en ég lifði það svosem af. Fannst sándið í litlu flautunni eiginlega best, voða vinalegt en það er víst hægt að fá svoleiðis flautur í Skotlandi fyrir lítinn pening. Og hver veit nema maður bara geri sér ferð til að kaupa flautu.
Gary söng líka fyrir okkur og við sungum fyrir hann. En einhverra hluta vegna sleppti hann okkur við skottísinn. Svo sagði hann okkur frá pípunum og flautunum og frá lögunum.
Ógisslega góðir tónleikar, næstum betri en Sigur Rós 😉

 Ég fór út að labba í hádeginu. Langaði einhvernveginn meira í hreyfingu en mat. Enda át ég mikið á starfsmannafundinum í morgun. Tvær nýbúnar að eiga afmæli, svo það voru bæði kökur og brauð. Það er eitthvað indælt við að kafa snjó.

Svo er það bara leikhúsið í kvöld. Og allir að kjósa Telmu í Idol.

Góða helgi

Túristi í eigin landi

Fórum í göngutúr áðan, það var mjög gaman. Röltum um Þingholtin og mér leið eins og ég væri í útlöndum, bara gapti og góndi og aaaaði og úúúaði því að það er svo mikið af flottum húsum þarna sem ég hef bara aldrei áður séð, eða allavega ekkert verið að horfa á. Mér fannst þetta allt saman mjög merkjó.

Svo fórum við niðrá á Laugarveg og kíktum í nokkrar búðir, en ég keypti mér ekki neitt, varð samt alveg veik í öllum bókabúðum því að ég sá svo margar bækur sem mig langar í. Óli keypti eina bók og eina möppu.

Sá svolítið skondið niðrá Lækjargötu, en þar er skilti á húsi sem á stendur Lækjargata og svo með litlum stöfum undir Heilagsandastræti(það er ekki neitt kort, þetta er prentað á skiltið), alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Þetta var sem sagt hinn besti göngutúr…alltaf gaman að vera túristi í eigin landi 🙂