Greinasafn fyrir flokkinn: Daglegt líf

Dæmisaga af hinni hagsýnu húsmóður

Ég mæli með því að fara í Smáralind rétt fyrir mánaðarmót þegar er nýbúið að tilkynna að verðbólga sé 28%. Þá hefurðu pleisið bara út af fyrir þig. Þá ertu líka rosalega meðvitaður og lætur þér ekki detta í hug að kaupa eina litla gatamöppu á 639 krónur og ferð í næstu búð sem býður alveg eins möppur á 598 krónur og færð þar að auki 20% afslátt af því að þú átt afsláttarkort þar. Og hvað gerir maður svo við möppuna? Jú, setur í hana reikninga svo maður hafi nú gott yfirlit yfir það hvernig lánin (verð)bólgna út og maður verður fátækari með hverjum deginum.

Ennnn svo man maður að peningar eru bara tölur á blaði og fer út að borða fyrir 5000 kall, þó maður eigi varla fyrir því. Hjúkkit að maður sparaði 161 krónu á þessari möppu þarna…

Blogg

Hæhó!

Hér hefur ekkert verið bloggað alltof lengi. Það er eins með það eins og svo margt annað sem situr á hakanum. Ég skil ekki hvert tíminn fer alltaf. Sennilega er ég bara orðin gömul. Merki um elli mína er að ég vaknaði OG fór á fætur milli 8 og 9 báða dagana um helgina án þess að nokkuð sérstakt væri um að vera. Held það hafi varla gerst síðan ég var fimm ára.

Svenni bróðir varð 30 ára 30. mars. Við gáfum honum Baywatch, the complete first season 🙂 Ég er búin að vera flissandi yfir þessari gjöf frá því mér datt þetta í hug. Vona að Svenni hafi haft jafn mikinn húmor fyrir þessu og ég. Það var semsagt heilög stund á laugardagskvöldum þegar Strandverðir voru, svo heilög að maður fór jafnvel með matinn inn í stofu. Ég geri því ráð fyrir að það verði Baywatch maraþon á Þiljuvöllunum næstu vikurnar 😉

Í gær fórum við Helga að heimsækja Magnhildi og fjölskyldu. Þau eignuðust son fyrir mánuði síðan svo við fórum að skoða hann. Hann var auðvitað algjört krútt og sýndi okkur sínar bestu hliðar. Hittum líka Svan Snæ, þriggja ára stóra bróður :)Helga var líka með sín börn, Björt, þriggja ára og Úlf, eins árs, svo það var mikið fjör. Ótrúlega margir í kringum okkur núna sem eru með lítil börn eða börn á leiðinni. Annað ellimerki 😉

Best að fara að sofa í hausinn á sér.

Góða nótt

Haha

Ég vil að allir sem telja sig ekki eiga samleið með Þjóðkirkjunni skrái sig úr henni, en þar sem nú er kominn 1. desember, liggur ykkur ekki svo á. En gerið það samt næsta árið.

Já, ég er trúleysingi. A T H E I S T!

Og á morgun leik ég engil…

Mér finnst Dr. Gunni æði. Fyrir 100 árum var ég ekki til. Og ég og þú verðum frekar gleymd og grafin eftir 100 ár. Finnst þetta frábær pæling. Dr. Gunni segir allt sem segja þarf.

En ég er sátt við þau ár sem mér eru gefin, ég vona að ég fái fleiri. Á næsta ári verð ég 25 ára og þá verður nú gaman að lifa. [Eygló dansar um stofuna og fangar því að vera 24 og 3/4 ára]

Ég væri nefnilega þakklát fyrir að fá helmingi meira tíma en ég hef nú þegar fengið og ef það sem búið er væri nú bara 1/4 væri ég hoppandi kát. En það er þessi óvissa sem er svo spennandi. Þessar endalausu tilviljanir sem gera það að verkum að ég er til. Þessar endalausu tilviljanir sem gera það að verkum að ég er eins og ég er 🙂

Ég hef gert margt skemmtilegt síðan ég bloggaði síðast.  Hef hitt marga og gert margt skemmtilegt. Það er sko ekki dauður punktur í lífi mínu, tölvan sér til þess 😉 En án gríns þá er margt í gangi.

Ég hlakka þó mest til þess að fá Ólann heim og búa til laufabrauð með honum (og öllum hinum sem ætla að koma). Ég meika það samt alveg að vera ein, grasekkjuhlutverkið hentar mér ágætlega, svona tímabundið.
Tíminn líður hratt en hann er samt styttri en leiðin til stjarnanna (sumra allavega). Alheimurinn er stórkostlegur.

Jólin, jólin, jólin koma brátt. Jólaskapið kemur smátt og smátt 🙂

Desember er kominn. Juppí

Blogg

Já, ég blogga…stundum.

Það er nóg að gera hjá mér þessa dagana. Er að vinna á bókasafninu mínu, er komin í skólann aftur og fer í leikfimi þrisvar í viku. Inná milli reyni ég að hitta vini og vandamenn, læra heima, þvo þvott og auðvitað knúsa Ólann minn.

Ef þið viljið fá nánari fréttir þá er bara að hringja, bjalla í mig á MSNinu eða jafnvel mæla sér mót við mig 😉

Obladi Oblada

Þetta var hreint ágætur dagur. Merkilegt nokk.

Það er rólegt í vinnunni þessa dagana. Verið að uppfæra Gegni og þess vegna getum við lítið gert í vinnunni nema segja: „Því miður, við getum ekkert gert fyrir þig“. Það er samt hægt að skila bókum og fá bækur lánaðar.

Fór klukkutíma fyrr úr vinnunni og spókaði mig í bænum með Rósu. Fékk auðvitað kaupæði. Keypti jakka og tvo boli í Flash og skó af götusölukonu. Þetta kostaði ekki nema tæpan 10.000 kall allt saman. Rósa greyið keypti ekkert nema þurrkaða ávexti. Mér fannst reyndar fyndið hvað ég vanmat hæðina á Rósu. „Hva, ertu nokkuð nema svona einnogsjötíu?“ „Uuu, ég er reyndar einn sjötíuogsjö“. Svona er ég nú stór, ég tek ekkert eftir því þó fólk í kringum mig sé hávaxið.

Svo fór ég til Heiðu. Borðaði samloku og kók hjá henni og við spjölluðum og gláptum á sjónvarpið.

Núna er ég að horfa á Magni Rockstar: Supernova. Mikið er ég stolt af honum. Hann er alveg að brillera þarna. Svo er hann svo góður við alla. Er eiginlega eins og hann sé pabbi allra hinna. Ég á mynd af Magna sem er tekin á Eiðum 1997. Ætli hún sé ekki mikils virði í dag 😉 En ég verð að viðurkenna að ég var mikill aðdáandi Magna meðan hann var í Shape. Alltaf gaman að sjá æskugoðin verða að stórstjörnum…eða eitthvað.

Jæja, best að einbeita sér að sjónvarpinu. Ógeðslega er gaman að horfa á þennan þátt, svo skemmtileg lög og góðir söngvarar.

Góða nótt

Sumarið hingað til…

Nú hef ég ekkert bloggað í næstum mánuð. Það er ennþá júní og komið enn meira sumar.

Við fórum til Akureyrar um hvítasunnuhelgina. Þar hittum við marga Óla-ættingja. 3 litlar frænkur (Kötlu krútt sáum við í fyrsta skipti), eina systur, 5 frændur, Siggu ömmu, Gunnþór afa og fleiri. Við förum orðið frekar sjaldan til Akureyrar, ég hafði ekki komið í rúmt ár núna (fyrir utan millilendingar á leið til Vopnafjarðar).

Ég fór á Snæfellsnes helgina 9.-12. júní. Amma, afi og Ásta Hanna voru þar í sumarbústað. Það var flennibjart og gott útsýni þegar ég kom á föstudagskvöldinu. Þoka og rigning laugardag og sunnudag. Hávaðarok á mánudeginum þegar ég fór heim aftur. Við gerðum þó ýmislegt þrátt fyrir leiðindaveður. Fórum til Ólafsvíkur og Stykkishólms og skoðuðum þar söfn og rúntuðum um bæina. Sáum rallýkrosskeppni á Hellissandi. Það fannst mér gaman. Svo fórum við í Bjarnarhöfn á Hákarlasetrið og þar voru líka sýnd töfrabrögð í kirkjunni. Hildibrandur er snillingur. Svo grillaði ég í einhverri mestu rigninu sem ég hef lent í. Það var áhugaverð reynsla. Ég verð að fara aftur á Snæfellsnesið fljótlega til að sjá meira.

17. júní helgina komu amma, afi og Ásta Hanna til okkar eftir vikudvöl á Snæfellsnesinu. Ég fékk að rúnta um með þau á stóra sjálfskipta jeppanum þeirra. Það var áhugaverð reynsla fyrir mig sem keyri alltaf um á litlum, beinskiptum bíl. Við fórum í búðir, í kaffi í Perlunni og heimsóknir. Svo grillaði ég, í aðeins betra veðri í þetta skipti. En það varð hálfgerð sviðasteik því það kviknaði í grillolíunni. En það var ekki nema ein sneið sem þurfti að henda.

Á fimmtudagskvöldið fór ég aftur í Perluna. Í þetta sinn með trúleysingum eins og Richard Dawkins, Dan Barker og Óla Gneista. Það var gaman. Það var frábært útsýni úr Perlunni þetta kvöld og gaman að sýna útlendingum borgina og nánasta nágrenni. Snæfellsnesið sást í heild sinni og alltaf finnst mér það jafn tilkomumikil sýn.

Helgin núna hefur verið frekar róleg hjá mér. Óli er á trúleysingjaráðstefnunni (og svífur um af hamingju) svo ég hef mestmegnis verið heima í rólegheitum. Sat út á palli að lesa í sólinni í gær. Það var notalegt. Náði að klára Kleifarvatn, held svei mér þá að ég hafi verið 2 mánuði að lesa hana, gat bara ekki lagt hana frá mér! Hún var svona ágæt, hefur lesið betri Arnaldarbækur. Byrjaði svo að lesa Hulduslóð eftir Lizu Marklund. Það er svona hörmungarævisaga. Hún lofar góðu, gengur allavega hraðar með hana en Kleifarvatn.
Í gærkvöldi fór ég í bíó með Hrönn vinkonu. Fórum að sjá Just my luck. Hún var hún frekar mikil froða. Alveg hægt að brosa að henni en hún skilur ekkert eftir. Svo fór ég til Sigrúnar og Viggós en þar voru Eva, Heiða og Sigga Steina. Svo fórum við í bæinn, ég, Heiða, Sigga og Hrönn en entumst nú ekki þar nema í tæpa tvo tíma. Alltaf finnst mér djammið jafnfyndið. Við stóðum í röð heillengi til að komast inn á Hressó þar sem var pakkað af fólki og eins að vera í gufubaði. Það var röð á klósettið, endaði svo á klósetti þar sem læsingin var biluð og vantaði klósettpappír (en það reddaðist með góðri hjálp frá Heiðu og Siggu). Það er annars ógeðslega fyndið hvernig svona raðir á skemmtistaði virka. Það er endalaust verið að taka fólk fram fyrir mann af því að einhver þekkir dyravörðinn eða eiganda staðarins eða eitthvað. Eins og maður væri tekin framfyrir í röðinni í Bónus. „Hey, ég þekki Jóhannes!, fariði frá!“ Undarleg menning þarna, hefur enginn stundað markvissar mannfræðirannsóknir í miðbæ Reykjavíkur um helgar?

Mamma og pabbi eru að koma á eftir. Þau fara svo til Skotlands á þriðjudaginn. Hlakka til að sjá þau. Ég er strax komin með verkefni fyrir þau. Mamma fær að hjálpa mér við að skipta á þessum tveimur blómum mínum á eftir. Svo ætla ég að fá pabba til að gefa okkur ráðleggingar varðandi grasfræ og áburð og eitur á tréð okkar. Það er nú eins gott að nýta sér það að fá þau í heimsókn 😉 Ég er svo í fríi á morgun svo ég get fundið fleiri verkefni fyrir þau…eða stjanað við þau. Sjáum til.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er búin að skrá mig í nám í opinberri stjórnsýslu í Háskólanum. Þetta er 15 eininga diplómanám á mastersstigi. Ég tek þetta með 100% vinnu, tímarnir eru á morgnanna milli 8 og 10 svo það ætti að ganga upp. Þetta verður örugglega áhugavert, skilst að það sé mikið af fólki með mikla stjórnunarreynslu sem eru í þessu. Ég verð því væntanlega yngst og græninginn í hópnum (eins og venjulega) ;))

Annað sem er að frétta er að ég er farin að stunda sundlaugarnar, hef farið þrisvar í viku síðustu vikur og stefni að því að halda því áfram í sumar allavega. Við höfum verið að fara fyrir vinnu og það virkar bara ágætlega, nema að það er pirrandi þegar það eru sundæfingar því þá er lítið pláss til að synda. Ætlum kannski að prófa að skipta yfir í Breiðholtslaugina. Markmiðið er að synda a.m.k. kílómeter á viku.

Hafið það gott 🙂

Nú er sumar…

Það er kominn júní. Þá er komið sumar.

Voðalegar öfgar í veðrinu fyrir austan og norðan. Snjókoma og frost eina vikuna, þá næstu 20 stiga hiti!

Sátt við úrslitin í kosningunum á Vopnafirði. Öflugur minnihluti, vonandi. Jafnvel öflugur meirihluti, vonandi. Ósátt við minnihlutastjórnina í Reykjavík. Nema að það verði til þess að útrýma Framsóknarflokknum. Þá verð ég glöð. Sorrý, Siggi „frændi“.

Sá litla tvíbura á laugardaginn. Þær eru frænkur mínar. Helgi er langafi okkar allra og Guðrún langamma. Hef aldrei haldið á jafn litlu barni.

Fæ vonandi að sjá lítið barn um helgina. Hún er frænka hans Óla.

Ætla líklegast í nám í haust, með vinnunni (spyrjið mig bara, ef þið hafið áhuga). Komin á það stig að skólast með vinnunni í stað þess að vinna með skólanum.

Mér finnst að það ætti að hafa fleiri þætti þar sem eru bara fulltrúar frá einum stjórnmálaflokki. Sá það hjá Ingva Hrafni. Enginn ágreingingur, klisjur eða frammíköll, bara létt spjall um hvað hinir eru miklir hálfvitar.

Góða nótt!

Hitt og þetta

Jæja, nú er ég vonandi endanlega risin upp úr rúminu! Farin að eiga í aðeins of nánu sambandi við sængina mína!

Fór nú samt á þorrablót og H-vaða um helgina (líkami minn passar uppá að ég sé nokkuð hress um helgar ;)). Bæði mjög gaman og ég mæli svo sannarlega með því að vera komin heim af djamminu fyrir kl. 2. Ég ætti líklegast að flytja til Svíþjóðar 😉
Dansinn á þorrablótinu var ljómandi skemmtilegur og röggsamlega stjórnað af Sigrúnu og Óla 🙂 Ég slapp alveg við að stjórna (eins gott!).
H-vaðinn var vel lukkaður. Gaman að hlusta á Alþingi og Hostile. Líka gaman að hitta Rósu, Björgu, Hjördísi og Bryndísi frænku 🙂

Nú er farið að styttast í Norðfjarðarferð. Fer á fimmtudaginn. Hlakka til að hitta alla og skoða höllina. Svenni og Hrönn ætla að ná í mig í Egilsstaði. Óttast mest að ég fái heimþrá til Vopnafjarðar þegar ég er komin svona nálægt…en ég vona að mamma og pabbi geti skroppið yfir á Norðfjörð um helgina.

Við erum að leggja drög að fimmtugsafmæli. Fylgist með.

X-H