Greinasafn fyrir flokkinn: Ferðalög

Sveitin

Ég er ekkert mikið að blogga þessa dagana. En það er svo sem ekkert mikið um að vera.

Ég fór í sveitina mína um daginn. Fékk yndislegt veður. Svenni, Hrönn og Freyr litli komu yfir. Það var ósköp gaman að hitta þau. Freyr er farin að tala heilmikið en ég er ekki sú besta í að skilja hann en það fer ekkert á milli mála þegar hann segir Eygló, því það gerir hann afskaplega skýrt og skilmerkilega. Við fórum uppí Urðardal sem var æði þrátt fyrir slakt þol hjá mér. Við tókum Frey með í bakpoka, pabbinn bar hann upp og mamman niður, svo skiptumst við á að týna ber uppí prinsinn í hásætinu 🙂

Ég var svo afskaplega jarðbundinn fyrir austan. Eyddi 12 tímum í að róta í moldinni og grafa eftir gull…auga. Frábært að komast loksins í kartöfluupptöku, fékk svo 11 kg af kartöflum með í nesti.

Ég tók nokkur „verkefni“ með mér austur sem ég afhenti elsku ömmu. Tók með mér eina götótta peysu, eina peysu sem ég vildi fá tölu á og slatta af garni. Amma var ekki lengi að laga götóttu peysuna og búa til hnappagat og festa töluna. Svo var ég að blátt vesti í póstinum áðan sem smellapassar. Ég á bestu ömmu í heimi.

Svo fór ég þrisvar í bestu sundlaug í heimi. Það var ósköp ljúft nema í eitt skiptið þegar fullur veiðikall þurfti endilega að koma í sund á sama tíma og við. Hann var semsagt svo frábær að hann reyndi að koma inní kvennaklefann bæði þegar við vorum í sturtu og þegar við vorum að klæða okkur. Ég er ansi hrædd um að þetta sé það sem koma skal þar sem verið er að reisa veiðihótel í fimm mínútna göngufæri frá sundlauginni. Mér finnst það ekki sniðugt.

Jæja, bara aðeins að láta af mér vita og gleðja aðdáendur mína 🙂

London – hápunktar

Hér kemur stutta ferðasagan. Kannski fáið þið löngu útgáfuna seinna, eða bara in person 🙂

…Borders-bókabúðin á Oxford Street
…We will rock you
…góður nætursvefn
…Orc´s Nest spilabúðin
…DVD útsalan – 17 myndir á 80 pund!
…indverski veitingastaðurinn
…Phantom of the Opera
…bónorð á Trafalgar Square
…Big Ben og Westminister Abbey uppljómað
…rölt meðfram Thames að kvöldi
…Buckhingham á sunnudagsmorgni í sólskini
…Hamley´s dótabúðin
…rölt í Soho

 London var æði! 🙂

Bústaður, vírusvörn, Ken og mútta

Ég fór í bústað með saumaklúbbnum um helgina. Fórum í Brekkuskóg. Það var ferlega gaman. Við gerðum allt sem maður á að gera í bústað; fórum í gönguferð (reyndar afskaplega stutta), gúffuðum í okkur nammi, hlustuðum á eðalmúsík (ég er rebell, tekex og kremkex) elduðum góðan mat (sem kostaði alveg 300 kall á mann), láum í heita pottinum, spiluðum og sváfum út (og sumir nánast úti).

Danni kíkti til mín á mánudagskvöldið og ég reddaði vírusvörninni á tölvunni hans (reyndar með góðri hjálp frá Írlandi) og svo átum við snakk og kók (hér á bæ eru sko allir dagar nammidagar) og spjölluðum um skjalastjórn 🙂

Í gær fór ég í fyrsta skipti á áhorfendapallana í Ráðhúsinu og sá þar Ken taka við borginni og ég er ekki frá því að ég hafi séð Glanna glæp bregða fyrir.

Í dag kom svo múttan mín til borgarinnar. Borðaði með henni í Kringlunni í hádeginu og sleppti henni lausri þar á meðan ég kláraði vinnudaginn. Fór svo með henni í fleiri búðir og enduðum á að borða í Smáralind (þetta útálandilið hangir bara í búðum þegar það kemur til borgarinnar). Óskaplega gott að fá svona fjölskyldufélagsskap.

Góða nótt!

Heep, Purple, Lónið, Godfather, My so-called life og Elliðaárdalur

Ég er komin aftur til borgarinnar. Flugið hingað gekk merkilega vel, bara allt samkvæmt áætlun. Gunnsteinn afi, Ásta Hanna og mamma skutluðu mér í Egilsstaði og svo komu Reynir afi og Óla frá Norðfirði og borðuðu með okkur.
Óli og sólin tóku svo á móti mér á Reykjavíkurflugvelli, en þau hafði ég ekki séð í 10 daga (reyndar smá ýkjur, sólin gægðist fram alveg tvisvar meðan ég var á Vopnafirði).

Við Óli fórum svo á tónleikana með Uriah Heep og Deep Purple.  Ég var búin að hlakka mikið til að sjá Uriah Heep á tónleikum og þeir stóðu sko alveg undir því. Þvílík snilld að sjá þá og heyra. Við vorum framarlega beint fyrir framan Mick Box og það var bara frábært. Mikil gæsahúð fylgdi July Morning og mikið stuð að fá Easy Livin í uppklappinu. Verst að þeir skyldu bara spila í klukkutíma. Ég hafði ekki miklar væntingar til Deep Purple en þeir stóðu eiginlega ekki undir þeim. En jújú, það var alveg gaman að heyra í þeim.

Á mánudaginn fórum við í Bláa lónið. Ég vann 2 miða í það á Þjóðbrókarþorrablótinu í febrúar. Merkilegt að ég hef unnið í öllum spurningakeppnum á vegum Þjóðbrókar sem ég hef tekið þátt í. Jólakvissin í fyrra og hittifyrra og svo þetta. Veit ekki hvort það segir meira um mig eða þjóðfræðinema almennt 😉 En Lónið var fínt. Ágætt að skreppa þangað annað slagið. Gott að maka á sig drullu og slappa af 🙂

Þegar ég kom aftur úr sveitinni til borgarinnar beið mín afmælisgjöf nr. 2 frá Óla. My so-called life á DVD!!! Ég elskaði þessa þætti og geri enn!
Við Óli gerðum svo með okkur samning. Mánudagskvöldið fór því í að horfa á fyrstu Godfather-myndina. Stórlega ofmetin (ég meina hún er í fyrsta sæti á top 250 listanum á imdb.com!) en engu að síður ágæt. Svo horfðum við á fyrsta þáttinn af My so-called life. Þeir hafa elst merkilega vel, 90’s er æði. Nú er bara að finna tíma til að horfa á næstu Godfather mynd.

Það var indælt veður í dag. Við Óli röltum niðrí Elliðaárdal eftir vinnu hjá mér í kvöld. Það var yndislegt. Við ættum að gera það oftar.

Hjördís og Helga áttu afmæli í gær (28. maí). Mér finnst fyndið að þær eru fæddar nákvæmlega sama dag og þær hafa báðar lært bókasafns- og upplýsingafræði. En þær eru samt mjög ólíkar. Til hamingju báðar tvær 🙂

Góða nótt, elskurnar mínar.

Stjórnarandstaða og sveitin

Jey, við fáum að vera í stjórnarandstöðu með Framsókn. Bráðum verða Valgerður, Siv og Guðni bestu vinir mínir…og Eggert líka 😉

Ég er annars komin í fjörðinn fagra. Er búin að eyða deginum mestmegnis í fjárhúsunum. Voðalega gaman að sjá öll litlu sætu lömbin en mikið voðalega getur þetta stundum verið mikið bras.

Flugið hingað gekk vel, aldrei þessu vant. Engar tafir, engar bilaðar flugvélar og engin aukarúntur frá Þórshöfn. Eyddi biðinni á Akureyrarflugvelli í að lesa Bændablaðið. Að lesa bændablaðið er góð skemmtun. Sérstaklega smáauglýsingarnar.
Slóði óskast til kaups, þarf að vera staðsettur á Suðurlandi.
Ónýtt greiðslumark til sölu, einnig 12 ófengnar kvígur.
Já, bráðfyndið ef maður skilur ekki bændamál…og jafnvel líka þó maður skilji það.

Sumarið er tíminn…

Ég veit að ég á ennþá einhverja lesendur sem bíða í ofvæni eftir næstu færslu 😉

Ég er búin að plana ýmislegt skemmtilegt fyrir sumarið.

-Á fimmtudaginn, 17. maí fer ég til Vopnafjarðar. Tilgangur ferðarinnar er auðvitað fyrst og fremst að fara í sauðburð og hitta fjölskylduna. En ég stefni líka að því að ná að lesa svolítið, fara í sund og stuttar gönguferðir.

-Á hvítasunnudag flýg ég aftur til Reykjavíkur og um kvöldið förum við Óli á tónleika með Deep Purple og Uriah Heep. Hlakka mest til að heyra í Uriah Heep.

-Við stefnum að því að fagna þegar reykingabannið verður sett með því að fara út að borða:) og það er aldrei að vita nema maður skelli sér á skemmtistað (reyklausan að sjálfsögðu!) á eftir. Mikið hlakka ég til þegar hætt verður að spyrja reyk eða reyklaust um leið og maður kemur inn á veitingahús og ég hlakka enn meira til að geta farið út að skemmta mér án þess að fá reykingahausverk og að þurfa að þvo bæði mig og fötin mín eftirá.

Hjördís ætlar að halda uppá þrítugsafmælið sitt með pomp og prakt. Betra seint en aldrei 😉

-Sigrún Ásu vinnufélagi ætlar að halda uppá fimmtugsafmælið sitt

Rósa  útskrifast úr þjóðfræðinni og allt stefnir í gott partý 🙂

-Á 17. júní verður gott veður og eitthvað skemmtilegt brallað (ég er allavega búin að ákveða það)

-Við Óli stefnum að því að bregða okkur í Mývatnssveit í útilegu og á tónleika með Þingtak. Íris og Hrafnkell verða allavega á staðnum og e.t.v. fleiri meðlimir Nafnlausa saumaklúbbsins.

-Við Óli förum saman til Köben. Þar verð ég með Svenna bró, Hrönn og Frey frænda í viku en Óli fer til Århus í sumarskóla (en ég skrepp örugglega eitthvað í heimsókn til hans). Mamma kemur svo líka til Köben. Það fyndna er að við Óli fljúgum frá Keflavík, Svenni og co frá Egilsstöðum og mamma frá Akureyri. Þetta verður mjög gaman enda ekki svo oft sem við systkinin eyðum svona löngum tíma saman, hvað þá með mömmu með okkur, hefur líklega ekki gerst síðan jólin 1996 eða eitthvað. Ekki spillir fyrir að fá loks tækifæri til að kynnast Frey litla svolítið betur. Eftir Köben-dvölina förum við eitthvað ude på landet og heimsækjum Frú Jóhönnu og co og eitthvað fleira sniðugt. Svo er aldrei að vita nema maður kíki á Hróarskeldu. Þetta verður þá mín lengsta utanlandsferð til þess, heilir 12 dagar! Já, maður verður að venja sig við hægt og rólega.

-Svo er brúðkaup hjá Írisi og Hrafnkeli í Skíðadal (rétt hjá Dalvík). Mér skilst að þetta verði ekta sveitabrúðkaup þar sem dresskódið hljóðar uppá lopapeysu og gúmmískó. Ég hlakka mikið til og er búin að panta gott veður 🙂

-Í lok júlí verður bekkjarmót/fermingarbarnamót hjá mér á Vopnafirði. Verið að fagna því að 10 ár eru liðin síðan við fermdumst. Vonandi verður það skemmtilegt. Þessa sömu helgi er Vopnaskak á Vopnafirði, semsagt bæjarhátíð Vopnafjarðar og mikið um að vera.

-Um verslunarmannahelgina stefni ég að því að vera á Norðfirði á Neistaflugi. Það er þó ekki 100% ákveðið.

-Milli bekkjarmóts og verslunarmannahelgar ætla ég að vera á Vopnafirði og njóta sveitasælunnar.

Já, þetta er það sem er planað af sumrinu so far.

Ásamt þessu öllu ætla ég að vera dugleg í sundinu í sumar og er meira að segja búin að setja mér markmið í þeim efnum. Þori ekki að segja frá markmiðinu alveg strax, kannski þegar ég sé fram á að ná því 😉 Svo ætla ég líka að vera dugleg í fjallgöngum, er með nokkur fjöll í nágrenni Reykjavíkur í sigtinu eins og t.d. Keili, Helgafell, Akrafjall og Esjuna, hverjir vilja vera með?

Já, það stefnir í skemmtilegt sumar 🙂

Hvað kosta 28,9 km af malbiki?

Ég lét mig hafa það að keyra til Vopnafjarðar eftir vinnu í dag, fór reyndar tveimur tímum fyrr úr vinnunni til að hafa rýmri tíma.
Þetta gekk ljómandi vel. Hafði félagsskap Rósu á leiðinni til Akureyrar. Vart hægt að hugsa sér betri ferðafélaga. Í Hrútafirði: „Já, það var líka svo fallegt í Borgarnesi, ég bara kom því ekki að fyrr en núna við tölum svo mikið“. Á Akureyri skutlaðist ég til Hafdísar, Mumma og Sóleyjar að ná í dót og skilaði svo Rósu af mér við Leiruna. Svo lagði ég í hann til Vopnafjarðar. Það gekk líka ljómandi vel. Var tekin af löggunni við afleggjarann til Húsavíkur. Einu sinni verður allt fyrst. Þeir gátu þó ekki nappað mig fyrir neitt ólöglegt. Báðu bara um að fá að sjá ökuskírteinið mitt (sem var auðvitað á vísum stað) og óskuðu mér svo góðrar ferðar. Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er eiginlega of góður. Beinn og breiður vegur svo maður gæti auðveldlega misst einbeitinguna og keyrt útaf. Vopnafjarðarheiðin hins vegar krefst allrar athygli með öllum sínum holum, þvottabrettum, útskotum og stórgrýti. Frá Reykjavík til Vopnafjarðar eru aðeins 28,9 km (samkvæmt áreiðanlegum Micru-mælingum) ómalbikaðir. Væri ekki bara ráð að henda olíumöl á þessa 28,9 km og hætta að rífast um Hofsárdalsleið og Vestrárdalsleið? Þá myndi ég leggja það í vana minn að skreppa til Vopnafjarðar eftir vinnu.

Komin í sveitina

Þá er ég komin í sveitina mína. Það gekk ekki alveg átakalaust fyrir sig. Ef allt hefði verið á áætlun hefði ég verið komin klukkan 10 í gærmorgun en ég kom klukkan 8 í gærkvöldi.

Á Reykjavíkurflugvelli var algjört kaos. Þar þurfti ég að bíða í 5 klukkutíma, mér til mikillar skemmtunar. Var reyndar á tímabili að spá í að fá far hjá Írisi og Hrafnkeli en ákvað svo að taka ekki sjensinn á að missa af tengifluginu til Vopnafjarðar.
Ég náði svo síðasta flugi til Akureyrar áður en öllu flugi var aflýst í gær. Hjúkkit. En ég fór í loftið um það leyti sem vinnudeginum mínum hefði átt að ljúka, vel farið með það frí. Fékk svo að bíða í klukkutíma á Akureyri. Þá var flogið til Þórshafnar og svo keyrt yfir á Vopnafjörð. Mjög skemmtilegt ferðalag eða þannig, en rosalega var ég samt fegin að komast alla leið.

En mikið voru vinnubrögð Flugfélagsins undarleg. Svona svipað og hjá Náttúrugripasafninu…eins og það væri ekki til nein viðbragðsáætlun.