Greinasafn fyrir flokkinn: Fjölskyldan

Sveitin

Ég er ekkert mikið að blogga þessa dagana. En það er svo sem ekkert mikið um að vera.

Ég fór í sveitina mína um daginn. Fékk yndislegt veður. Svenni, Hrönn og Freyr litli komu yfir. Það var ósköp gaman að hitta þau. Freyr er farin að tala heilmikið en ég er ekki sú besta í að skilja hann en það fer ekkert á milli mála þegar hann segir Eygló, því það gerir hann afskaplega skýrt og skilmerkilega. Við fórum uppí Urðardal sem var æði þrátt fyrir slakt þol hjá mér. Við tókum Frey með í bakpoka, pabbinn bar hann upp og mamman niður, svo skiptumst við á að týna ber uppí prinsinn í hásætinu 🙂

Ég var svo afskaplega jarðbundinn fyrir austan. Eyddi 12 tímum í að róta í moldinni og grafa eftir gull…auga. Frábært að komast loksins í kartöfluupptöku, fékk svo 11 kg af kartöflum með í nesti.

Ég tók nokkur „verkefni“ með mér austur sem ég afhenti elsku ömmu. Tók með mér eina götótta peysu, eina peysu sem ég vildi fá tölu á og slatta af garni. Amma var ekki lengi að laga götóttu peysuna og búa til hnappagat og festa töluna. Svo var ég að blátt vesti í póstinum áðan sem smellapassar. Ég á bestu ömmu í heimi.

Svo fór ég þrisvar í bestu sundlaug í heimi. Það var ósköp ljúft nema í eitt skiptið þegar fullur veiðikall þurfti endilega að koma í sund á sama tíma og við. Hann var semsagt svo frábær að hann reyndi að koma inní kvennaklefann bæði þegar við vorum í sturtu og þegar við vorum að klæða okkur. Ég er ansi hrædd um að þetta sé það sem koma skal þar sem verið er að reisa veiðihótel í fimm mínútna göngufæri frá sundlauginni. Mér finnst það ekki sniðugt.

Jæja, bara aðeins að láta af mér vita og gleðja aðdáendur mína 🙂

Blogg

Hæhó!

Hér hefur ekkert verið bloggað alltof lengi. Það er eins með það eins og svo margt annað sem situr á hakanum. Ég skil ekki hvert tíminn fer alltaf. Sennilega er ég bara orðin gömul. Merki um elli mína er að ég vaknaði OG fór á fætur milli 8 og 9 báða dagana um helgina án þess að nokkuð sérstakt væri um að vera. Held það hafi varla gerst síðan ég var fimm ára.

Svenni bróðir varð 30 ára 30. mars. Við gáfum honum Baywatch, the complete first season 🙂 Ég er búin að vera flissandi yfir þessari gjöf frá því mér datt þetta í hug. Vona að Svenni hafi haft jafn mikinn húmor fyrir þessu og ég. Það var semsagt heilög stund á laugardagskvöldum þegar Strandverðir voru, svo heilög að maður fór jafnvel með matinn inn í stofu. Ég geri því ráð fyrir að það verði Baywatch maraþon á Þiljuvöllunum næstu vikurnar 😉

Í gær fórum við Helga að heimsækja Magnhildi og fjölskyldu. Þau eignuðust son fyrir mánuði síðan svo við fórum að skoða hann. Hann var auðvitað algjört krútt og sýndi okkur sínar bestu hliðar. Hittum líka Svan Snæ, þriggja ára stóra bróður :)Helga var líka með sín börn, Björt, þriggja ára og Úlf, eins árs, svo það var mikið fjör. Ótrúlega margir í kringum okkur núna sem eru með lítil börn eða börn á leiðinni. Annað ellimerki 😉

Best að fara að sofa í hausinn á sér.

Góða nótt

Bústaður, vírusvörn, Ken og mútta

Ég fór í bústað með saumaklúbbnum um helgina. Fórum í Brekkuskóg. Það var ferlega gaman. Við gerðum allt sem maður á að gera í bústað; fórum í gönguferð (reyndar afskaplega stutta), gúffuðum í okkur nammi, hlustuðum á eðalmúsík (ég er rebell, tekex og kremkex) elduðum góðan mat (sem kostaði alveg 300 kall á mann), láum í heita pottinum, spiluðum og sváfum út (og sumir nánast úti).

Danni kíkti til mín á mánudagskvöldið og ég reddaði vírusvörninni á tölvunni hans (reyndar með góðri hjálp frá Írlandi) og svo átum við snakk og kók (hér á bæ eru sko allir dagar nammidagar) og spjölluðum um skjalastjórn 🙂

Í gær fór ég í fyrsta skipti á áhorfendapallana í Ráðhúsinu og sá þar Ken taka við borginni og ég er ekki frá því að ég hafi séð Glanna glæp bregða fyrir.

Í dag kom svo múttan mín til borgarinnar. Borðaði með henni í Kringlunni í hádeginu og sleppti henni lausri þar á meðan ég kláraði vinnudaginn. Fór svo með henni í fleiri búðir og enduðum á að borða í Smáralind (þetta útálandilið hangir bara í búðum þegar það kemur til borgarinnar). Óskaplega gott að fá svona fjölskyldufélagsskap.

Góða nótt!

Fjölskylduþrá

Ég er ein heima og það er ekkert plan fyrir helgina. Sem er að mörgu leyti ágætt, fínt að geta bara gert það sem mér dettur í hug.
En það sem mig langar að gera núna er að:

  • fara í heimsókn til ömmu, afa og Ástu Hönnu og sitja þar og spjalla og spila í allan dag í hlýrri og notalegri stofunni.
  • fara í göngutúr með Frey frænda í vagninum
  • fara í mat til mömmu og pabba

En maður fær ekki alltaf það sem maður vill.

Godfather, saumó, reyklaus, geymslan og afmæli

Ég hafði það af að horfa á Godfather part II í kvöld. Ég er hægt og bítandi að sigrast á Godfather-fordómum mínum. Þetta eru ágætismyndir. Svo verður lagt í Godfather part III einhverntíma bráðlega, Óli verður að fá að vita hvernig My so-called life endar 😉

Svenni bróðir kíkti á okkur frá miðvikudegi til föstudags. Sáum reyndar ekki mikið af honum, hann er svo duglegur að vinna drengurinn 🙂 En nú fer að styttast í Danmerkurferð. Það verður ljúft.

Það var saumaklúbbur á fimmtudagskvöldið. Þar er búið að innleiða nýja reglu, að segja frá „highs and lows“ frá síðasta hittingi. Ég held að highs-ið mitt hafi verið Uriah Heep tónleikarnir um daginn ásamt því að fara í sveitina mína. En lows-ið er svo low að ég held ég tjái mig ekki um það hér (og gerði það ekki heldur þar, kannski seinna stelpur). Er annars farin að hlakka til að djamma með saumaklúbbnum og fleiru góðu fólki í brúðkaupi ársins 🙂

Við fórum út að borða með Vantrúarliðum á föstudagskvöldið og svo á pöbbarölt. Mikið var gott að vera laus við reykinn. Verður gott að geta farið út að skemmta sér án þess að verða útúrreykt. Það voru heilmiklar umræður og komu fram margar hugmyndir eins og venjulega á svona hittingum. Svo er stefnt að árshátíð á Akureyri í haust, það verður stuð.

Í gær unnum við Óli stórvirki. Við tókum til í geymslunni! Fylltum átta stóra ruslapoka og meira til. Mikið var gott að klára þetta verk af. Nú er geymslan ofursnyrtileg og maður missir ekki geðheilsuna við það eitt að koma þar inn. Fórum svo þrjár ferðir í Sorpu í dag. Næst á dagskrá er að taka til í íbúðinni og setja dót niðrí geymslu 😉

Í gærkvöldi hélt Hjördís uppá afmælið sitt. Hún bauð uppá rosa góða smárétti og freyðivín. Það var gaman að hitta „bókasafnsfræðinördana“, verst að Danna vantaði. Við gáfum Hjördísi myndavél og núna verður hún vonandi dugleg að dæla inn myndum á síðuna sína.

Sæl að sinni. Góða nótt :o*

Að heiman og heim

Jæja, ég fer aftur heim til Reykjavíkur á morgun. Ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Fannst 10 dagar svo rosa mikið en svo eru þeir allt í einu liðnir. Náði að gera ýmislegt; hjálpa til í fjárhúsunum, heimsækja ömmu, afa og Ástu Hönnu nokkrum sinnum, fara í sund, skoða gamlar myndir og eyða heilmiklum tíma með pabba og mömmu. En ég náði ekki að setja niður kartöflur og ekki að fara í neinn almennilegan göngutúr.  Göngutúrinn bíður betri tíma og kartöflurnar komast vonandi ofan í jörðina án minnar hjálpar þetta vorið.

En þó ég eigi eftir að sakna sveitarinnar þá er heilmargt skemmtilegt sem bíður mín. Ber þar fyrst að nefna tónleika „í kvöld“ með Uriah Heep og Deep Purple. Ó, hvað ég hlakka til 🙂 Svo verður ósköp gott að knúsa Ólann sinn 🙂

Í sveitinni og í sundi

Ég hef það bara gott hérna í sveitinni. Það er í ýmsu að snúast þessa dagana; taka á móti lömbum, gefa, brynna, hreinsa rennuna, krubba af, taka hildar, bera undir, merkja, marka, láta út, gefa pela, láta sjúga, venja undir og fleira og fleira. Það er gaman þegar vel gengur en stundum koma dagar þar sem allt gengur á afturfótunum og þá er ekki eins gaman.

Reynir afi skrapp frá Norðfirði í heimsókn til okkar í dag. Hann var að sækja sængina og koddann sem ég keypti fyrir hann um daginn og harðfisk sem mamma keypti fyrir hann (sá bakkfirski er víst sá allra besti). Það var gaman að sjá hann aðeins þó stutt væri. Við mamma skruppum með honum í sund. Ég synti 550 m sem er sennilega það mesta sem ég hef synt í einni ferð í Selárdalslaug síðan ég var þar í skólasundi. Reyndar felst sund í 12,5 m laug helst í því að spyrna sér í bakkann en ég er nokkuð góð í því 😉

Föðursystir

Í dag bætti ég á mig einum titli. Ég er orðin föðursystir. Veit ekki hvort mér finnst merkilegra að ég sé föðursystir eða að Svenni bróðir hafi verið að eignast son. Sennilega helst þetta eitthvað í hendur 🙂

Allavega þá eignuðust Hrönn og Svenni son um þrjúleytið í dag. Hann var 51 sm og 16 merkur. Allir eru hressir. Strákurinn er með nefið hennar Hrannar og munnsvipinn hans Svenna af fyrstu myndinni að dæma.

Nóvember

Það er komin nóvember! Alltaf er maður jafnhissa á því að tíminn líði. Bráðum verða komin jól. Ég ætla að vera í Reykjavík þessi jól en á Vopnafirði um áramótin. Ég hlakka til að halda „eigin jól“ með Óla. Vera með tilraunaeldamennsku á rjúpum og raða pökkum undir jólatréð OKKAR 🙂 Og ég hlakka líka til að vera á Vopnafirði um áramótin, það hef ég ekkert gert síðan áramótin 1998-1999, í 8 ár sumsé sem er laaaangur tími. Amma og afi eiga svo gullbrúðkaup 29. desember.

Það er kominn mikill jólahugur í mig, hefur raunar verið síðasta mánuðinn en nú er kannski komin tími á að sleppa honum aðeins lausum, fara að huga að jólagjöfum og jólaföndri. Langar voðalega að föndra eitthvað, langar einhvern að vera með?

Annars er margt spennandi framundan; sumarbústaðaferð með „stelpunum“ um helgina, Vantrúarhittingur helgina þar á eftir, Sykurmolarnir 17. nóvember og jólagleði Upplýsingar 24. nóvember. Alltaf gott að hafa eitthvað til að hlakka til 🙂