Greinasafn fyrir flokkinn: Fyllerí

Vantrúarpartý

Vantrúarseggir eru mun betri fyllibyttur en vinkonur mínar. Nú er búið að minnsta kosti snautt af hvítvíni og Tópasvoðaskotum (eitthvað er þó enn eftir af rauðvíni, kampavíni, Passoa, rommi og vodka en það má kannski nota það í bústaðaferð eftir hálfan mánuð).

Eins og staðan er núna eiga eftirfarandi aðilar eitthvað sem mætti koma í verð hjá okkur:
Ásgeir: Einn Saku (hvað sem það nú er) síðan þarna um daginn.
Siggi Arnar: Tveir Faxe Royal, líka síðan þarna um daginn þegar við Ásgeir rústuðum ykkur Óla í Bíóbroti.
Gyða: Tveir Brezzerar (þeir gætu horfið með yfirnáttúrulegum hætti verði þeirra ekki vitjað fljótt)
Matti: Einn Tyskie
Hjalti: Tveir Amstel (sem gætu verið góðir í þynnkunni á morgun), hugsanlega bakpoki og já, Binni er með skóna þína 😉

Hver var að drekka Tuborg Gold? Það er einn slíkur í ísskápnum sem bíður eiganda síns.

Allir velkomnir á morgun í afréttara 😉

Þjóðbrókarpartý

Ég skrapp í Þjóðbrókarpartý í kvöld. Gott að vera enn að stunda háskólaskemmtanalífið tveimur árum eftir útskrift 😉 Fékk far með Eggert niðreftir. Sátum og drukkum (sumir allavega) og spjölluðum og spiluðum drykkjuleiki fram eftir kvöldi. Hver vann aftur undirhökukeppnina? 😉 Þegar liðið ákvað að fara á Ölstofuna ákvað ég að fara heim. Skemmtilegt kvöld og sýnist að þjóðfræðinemar séu hressir sem aldrei fyrr.

Föstudagur

Ekki fékk ég léttvínspottinn í vinnunni en það verður dregið aftur eftir mánuð. Reyndar var aðallega rauðvín í pottinum svo hann freistaði mín ekkert óskaplega. Kannski að við Fanný stofnum okkar eigin hvítvínspott 😉

Ég fór út að borða með Foldasafnsfólki í gærkvöldi. Það var gaman. Við fórum á Caruso og fengum mjög furðulegt borð sem bauð ekki uppá mikil samskipti nema við fólkið sem sat allra næst manni. Eins og við var að búast á Caruso þurftum við að bíða töluvert eftir matnum og þegar hann loksins kom var ég eiginlega orðin södd af hvítvínsdrykkju og brauðáti. En engu að síður var mjög gaman 🙂
Leið unga fólksins lá svo niður á Gauk á Stöng þar sem Perfect Disorder var að spila. Gaman að sjá þá á sviði. Svo var Dr. Spock líka að spila. Enduðum svo á Pizza Pronto áður en við fórum heim. Mjög skemmtilegt kvöld.

Dagurinn í dag hefur svo farið í svefn og sófalegu.

Bjór

Okkur Óla virðist vera afskaplega vel treystandi fyrir bjór. Nú er svo komið að fjórar manneskjur eiga bjór á heimili okkar.

Rósa: 2 litlir Víkíng
Heiða: 1 Carlsberg í flösku
Hjördís Páls: 1 stór Lite
Sigrún Ísleifs: 1 lítinn Víking

Bjórarnir fara á uppboð í næsta partýi ef eigendur vitja þeirra ekki fljótlega.

Rautt og grænt

Kaus í forvali Vinstri-grænna í gær. Er nokkuð sátt með niðurstöðuna, rúmur helmingur af þeim sem ég valdi komust að. Er sérstaklega ánægð með að allar uppáhaldsstelpurnar mínar komust að 🙂

Fór á kosningavöku til að heyra úrslit frá fyrstu hendi og til að hitta fólk. Það var mjög gaman. Enda er mjög skemmtilegt fólk í VG. Svo voru þeir meira að segja með gott hvítvín á barnum. Fór svo niður í bæ en entist ekki lengi þar frekar en venjulega.

Sumarið hingað til…

Nú hef ég ekkert bloggað í næstum mánuð. Það er ennþá júní og komið enn meira sumar.

Við fórum til Akureyrar um hvítasunnuhelgina. Þar hittum við marga Óla-ættingja. 3 litlar frænkur (Kötlu krútt sáum við í fyrsta skipti), eina systur, 5 frændur, Siggu ömmu, Gunnþór afa og fleiri. Við förum orðið frekar sjaldan til Akureyrar, ég hafði ekki komið í rúmt ár núna (fyrir utan millilendingar á leið til Vopnafjarðar).

Ég fór á Snæfellsnes helgina 9.-12. júní. Amma, afi og Ásta Hanna voru þar í sumarbústað. Það var flennibjart og gott útsýni þegar ég kom á föstudagskvöldinu. Þoka og rigning laugardag og sunnudag. Hávaðarok á mánudeginum þegar ég fór heim aftur. Við gerðum þó ýmislegt þrátt fyrir leiðindaveður. Fórum til Ólafsvíkur og Stykkishólms og skoðuðum þar söfn og rúntuðum um bæina. Sáum rallýkrosskeppni á Hellissandi. Það fannst mér gaman. Svo fórum við í Bjarnarhöfn á Hákarlasetrið og þar voru líka sýnd töfrabrögð í kirkjunni. Hildibrandur er snillingur. Svo grillaði ég í einhverri mestu rigninu sem ég hef lent í. Það var áhugaverð reynsla. Ég verð að fara aftur á Snæfellsnesið fljótlega til að sjá meira.

17. júní helgina komu amma, afi og Ásta Hanna til okkar eftir vikudvöl á Snæfellsnesinu. Ég fékk að rúnta um með þau á stóra sjálfskipta jeppanum þeirra. Það var áhugaverð reynsla fyrir mig sem keyri alltaf um á litlum, beinskiptum bíl. Við fórum í búðir, í kaffi í Perlunni og heimsóknir. Svo grillaði ég, í aðeins betra veðri í þetta skipti. En það varð hálfgerð sviðasteik því það kviknaði í grillolíunni. En það var ekki nema ein sneið sem þurfti að henda.

Á fimmtudagskvöldið fór ég aftur í Perluna. Í þetta sinn með trúleysingum eins og Richard Dawkins, Dan Barker og Óla Gneista. Það var gaman. Það var frábært útsýni úr Perlunni þetta kvöld og gaman að sýna útlendingum borgina og nánasta nágrenni. Snæfellsnesið sást í heild sinni og alltaf finnst mér það jafn tilkomumikil sýn.

Helgin núna hefur verið frekar róleg hjá mér. Óli er á trúleysingjaráðstefnunni (og svífur um af hamingju) svo ég hef mestmegnis verið heima í rólegheitum. Sat út á palli að lesa í sólinni í gær. Það var notalegt. Náði að klára Kleifarvatn, held svei mér þá að ég hafi verið 2 mánuði að lesa hana, gat bara ekki lagt hana frá mér! Hún var svona ágæt, hefur lesið betri Arnaldarbækur. Byrjaði svo að lesa Hulduslóð eftir Lizu Marklund. Það er svona hörmungarævisaga. Hún lofar góðu, gengur allavega hraðar með hana en Kleifarvatn.
Í gærkvöldi fór ég í bíó með Hrönn vinkonu. Fórum að sjá Just my luck. Hún var hún frekar mikil froða. Alveg hægt að brosa að henni en hún skilur ekkert eftir. Svo fór ég til Sigrúnar og Viggós en þar voru Eva, Heiða og Sigga Steina. Svo fórum við í bæinn, ég, Heiða, Sigga og Hrönn en entumst nú ekki þar nema í tæpa tvo tíma. Alltaf finnst mér djammið jafnfyndið. Við stóðum í röð heillengi til að komast inn á Hressó þar sem var pakkað af fólki og eins að vera í gufubaði. Það var röð á klósettið, endaði svo á klósetti þar sem læsingin var biluð og vantaði klósettpappír (en það reddaðist með góðri hjálp frá Heiðu og Siggu). Það er annars ógeðslega fyndið hvernig svona raðir á skemmtistaði virka. Það er endalaust verið að taka fólk fram fyrir mann af því að einhver þekkir dyravörðinn eða eiganda staðarins eða eitthvað. Eins og maður væri tekin framfyrir í röðinni í Bónus. „Hey, ég þekki Jóhannes!, fariði frá!“ Undarleg menning þarna, hefur enginn stundað markvissar mannfræðirannsóknir í miðbæ Reykjavíkur um helgar?

Mamma og pabbi eru að koma á eftir. Þau fara svo til Skotlands á þriðjudaginn. Hlakka til að sjá þau. Ég er strax komin með verkefni fyrir þau. Mamma fær að hjálpa mér við að skipta á þessum tveimur blómum mínum á eftir. Svo ætla ég að fá pabba til að gefa okkur ráðleggingar varðandi grasfræ og áburð og eitur á tréð okkar. Það er nú eins gott að nýta sér það að fá þau í heimsókn 😉 Ég er svo í fríi á morgun svo ég get fundið fleiri verkefni fyrir þau…eða stjanað við þau. Sjáum til.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er búin að skrá mig í nám í opinberri stjórnsýslu í Háskólanum. Þetta er 15 eininga diplómanám á mastersstigi. Ég tek þetta með 100% vinnu, tímarnir eru á morgnanna milli 8 og 10 svo það ætti að ganga upp. Þetta verður örugglega áhugavert, skilst að það sé mikið af fólki með mikla stjórnunarreynslu sem eru í þessu. Ég verð því væntanlega yngst og græninginn í hópnum (eins og venjulega) ;))

Annað sem er að frétta er að ég er farin að stunda sundlaugarnar, hef farið þrisvar í viku síðustu vikur og stefni að því að halda því áfram í sumar allavega. Við höfum verið að fara fyrir vinnu og það virkar bara ágætlega, nema að það er pirrandi þegar það eru sundæfingar því þá er lítið pláss til að synda. Ætlum kannski að prófa að skipta yfir í Breiðholtslaugina. Markmiðið er að synda a.m.k. kílómeter á viku.

Hafið það gott 🙂

Hitt og þetta

Jæja, nú er ég vonandi endanlega risin upp úr rúminu! Farin að eiga í aðeins of nánu sambandi við sængina mína!

Fór nú samt á þorrablót og H-vaða um helgina (líkami minn passar uppá að ég sé nokkuð hress um helgar ;)). Bæði mjög gaman og ég mæli svo sannarlega með því að vera komin heim af djamminu fyrir kl. 2. Ég ætti líklegast að flytja til Svíþjóðar 😉
Dansinn á þorrablótinu var ljómandi skemmtilegur og röggsamlega stjórnað af Sigrúnu og Óla 🙂 Ég slapp alveg við að stjórna (eins gott!).
H-vaðinn var vel lukkaður. Gaman að hlusta á Alþingi og Hostile. Líka gaman að hitta Rósu, Björgu, Hjördísi og Bryndísi frænku 🙂

Nú er farið að styttast í Norðfjarðarferð. Fer á fimmtudaginn. Hlakka til að hitta alla og skoða höllina. Svenni og Hrönn ætla að ná í mig í Egilsstaði. Óttast mest að ég fái heimþrá til Vopnafjarðar þegar ég er komin svona nálægt…en ég vona að mamma og pabbi geti skroppið yfir á Norðfjörð um helgina.

Við erum að leggja drög að fimmtugsafmæli. Fylgist með.

X-H

Helgin

Helgin hjá mér var mjög góð.

Hélt ljómandi gott stelpupartý hérna heima á föstudagskvöldið. Var með opinn bar (þar sem áfengi á það til að safnast upp hjá mér) en annaðhvort var magnið svo mikið eða stelpurnar svo penar að ég sé fram á að geta haldið mörg partý áður en áfengið klárast. En það er svosem ekkert nema jákvætt enda stendur til að endurtaka þetta við tækifæri 🙂 Eftir mikið spjall og drykkju var svo haldið á Hressingarskálann (hvenær skyldi ég ná að djamma annarsstaðar en á Hressó?).

Á laugardaginn hafði ég það svo bara náðugt heima. Um kvöldið hélt ég svo í pizzu- og evróvisjónpartý til Guðrúnar og Friðbjörns (vina Svenna bró og Hrannar). Þar var Hrönn mágkona og fleiri úr árgangi ’77 úr Nesskóla (t.d. tveir mjög öflugir bloggarar). Evróvisjónið var hæfilega hallærislegt eins og venjulega en þær Ólína og Lilja Fanney fengu þó meiri athygli en söngstjörnurnar…enda kunnu þær mun fleiri partýtrix en evróvisjónliðið 🙂

Sunnudagurinn var svo voða rólegur. Skruppum aðeins í Smáralind og eyddum næstum engum peningum. Svo hitti ég Hrönn á Culiacan og við fengum okkur mexíkanskan. Um kvöldið horfði ég á Allir litir hafsins eru kaldir (missti ég af einhverju eða kom einhver skýring á titlinum) og fannst þetta bara ljómandi góð þáttaröð. Svo gerði ég mér lítið fyrir og tók til í öllum fatahirslum heimilisins og baðskápunum. Það var ljómandi skemmtilegt og auðvitað komst ég að því að ég á fullt af fötum!

Leikhús og djamm

Fór að sjá Carmen í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Hún var ekkert spes. Ekki alslæm þó. En þetta var falleg umgjörð um lítið efni. Söngurinn var líka ekkert spes…sem er slæmt því þetta er söngleikur. Ég lét það meira að segja eftir mér að dotta í smástund.

Svo fór ég í partý til Oddnýjar og Dísu. Þar sá Hildur um veitingar, súkkulaðiköku og ávaxtafondú. Mjög gott. Ég reyndi að drekka hvítvínið mitt en það var voðalega vont. Fór einmitt í Vínbúðina í gær til að kaupa uppáhaldshvítvínið mitt sem mér hefur alltaf fundist bragðgott og veita góð áhrif en ég get svarið að þetta var bara skemmt. Nema ég sé komin með ofnæmi fyrir hvítvíni (líklegt!).
Ég prófaði Singstar. Var ekkert góð eins og við var að búast en þetta var samt gaman.

Svo var haldið í þennan blessaða bæ. Fórum á Hressó og hittum þar fólk sem ég þekkti einu sinni. Dönsuðum slatta, sem var gaman þangað til að það kom ógeðslega löng rispa af leiðinlegum lögum. Svo bætti ekki úr skák að strákur datt á mig þannig að bjórglasið sem ég hélt á lenti í tönnunum á mér og braut smá horn af annarri framtönninni (sést lítið en er mjög óþægilegt) og megnið af bjórnum fór yfir mig. Þar sem að ég er frekar hvatvís þegar ég er á troðnu dansgólfi gerði ég mér lítið fyrir og skutlaði restinni af bjórnum yfir strákinn sem datt á mig (held allavega það hafi verið hann). Svo fór ég nú bara heim fljótlega eftir það. Skil ekki hvernig fólk meikar bæinn lengur en til fjögur. Kannski að einhverjir hafi gaman af því að vera þarna 😉

Dagurinn í dag hefur svo verið algjör letidagur. Bara búin að vera að hanga og lesa, glápa á TV, tala í símann og þvo þvott. Ágætt bara. Stefni að því að afreka eitthvað á morgun.

Týshelgi

Núna er Týshelgin gengin í garð. Við áttum von á því að fá Tý til landsins á svipuðum tíma í fyrra en þeir canceluðu þeirri ferð…en núna eru þeir semsagt komnir. Gleði, gleði. Við Óli ætlum að tvenna tónleika með þeim. Hérna í Reykjavík á Grandrokk í kvöld og á Selfossi annaðkvöld. Það verður fjör. Er samt ekki geðveikt vel stemmd í kvöld út af prófinu sem er á morgun…en ég læt það samt ekki eyðileggja þetta fyrir mér 🙂 En annaðkvöld verður eintóm gleði þegar við förum með Evu, Heiðu og Emmu á Selfoss.