Greinasafn fyrir flokkinn: Heimilið

Græna herbergið

Ég er ekki búin að fara út úr húsi síðan á föstudagskvöldið. Er búin að vera að myndast við að taka til og hlusta á skemmtilega tónlist. Tók græna herbergið svolítið vel í gegn, bjó til pláss í bókahillunum og kom fyrir öllum bókunum sem lágu í hrúgu á skrifborðinu eða ofan á öðrum bókum í hillunum. Soteraði dót og henti dóti. Fór svo með slatta af dóti niður í geymslu. Svo nú er hægt að dansa í græna herberginu eða lesa allar bækurnar sem eru þar inni eða sitja við skriftir eða kíkja á nágrannana í stjörnukíkinum eða gera leikfimisæfingar eða spila twister (ef maður ætti nú svoleiðis) eða hlusta á tónlist og syngja hátt með eða bara liggja í sófanum og horfa á stjörnurnar í loftinu.

Framtíðarplön: Fara í Bónus…ef ég nenni.

Matar- og kaffistell

Ég hef aldrei skilið hvers vegna verðandi brúðhjón langar mest af öllu í rándýrt matar- og kaffistell í brúðargjöf. Það virðist bara vera kvöð á verðandi brúðhjónum að fara í næstu rándýru búsáhaldaverslun og velja sér eitthvað matar- og kaffistell og setja á svokallaðan gjafalista.*

Ég fór semsagt í Europris eftir vinnu og fann þar drauma hversdags matarstellið. Erum búin að leita mikið í mörgum búðum að hentugum diskum, bæði litlum og stórum en höfum ekkert fundið fyrr en nú. Vona bara að Óli sé sammála mér um ágæti þessa stells 😉  4 manna stellið (stórir diskar, litlir diskar, djúpir diskar, bollar og undirskálar) kostaði eins og hálfur diskur úr rándýru stelli.
Ég keypti líka viðbót við kaffistellið okkar, svo nú eigum við 12 manna kaffistell. 6 manna stellið kostaði líklega svipað og tæplega einn bolli úr rándýru stellunum.
En það er ekkert að marka mig, ég fann draumahnífapörin í Bónus 🙂

Ég skrapp líka á gamla góða bókasafnið mitt, las slúður og tók bækur eftir Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson.

Í lokin má svo geta þess að við Óli erum ekki að fara að gifta okkur á næstunni en ef og þegar þar að kemur þá langar okkur bara í eitthvað skemmtilegt í brúðargjöf. Er það ekki Óli?

*Ok, kannski langar einhverja í alvöru í svona voða fín stell 😉

Godfather, saumó, reyklaus, geymslan og afmæli

Ég hafði það af að horfa á Godfather part II í kvöld. Ég er hægt og bítandi að sigrast á Godfather-fordómum mínum. Þetta eru ágætismyndir. Svo verður lagt í Godfather part III einhverntíma bráðlega, Óli verður að fá að vita hvernig My so-called life endar 😉

Svenni bróðir kíkti á okkur frá miðvikudegi til föstudags. Sáum reyndar ekki mikið af honum, hann er svo duglegur að vinna drengurinn 🙂 En nú fer að styttast í Danmerkurferð. Það verður ljúft.

Það var saumaklúbbur á fimmtudagskvöldið. Þar er búið að innleiða nýja reglu, að segja frá „highs and lows“ frá síðasta hittingi. Ég held að highs-ið mitt hafi verið Uriah Heep tónleikarnir um daginn ásamt því að fara í sveitina mína. En lows-ið er svo low að ég held ég tjái mig ekki um það hér (og gerði það ekki heldur þar, kannski seinna stelpur). Er annars farin að hlakka til að djamma með saumaklúbbnum og fleiru góðu fólki í brúðkaupi ársins 🙂

Við fórum út að borða með Vantrúarliðum á föstudagskvöldið og svo á pöbbarölt. Mikið var gott að vera laus við reykinn. Verður gott að geta farið út að skemmta sér án þess að verða útúrreykt. Það voru heilmiklar umræður og komu fram margar hugmyndir eins og venjulega á svona hittingum. Svo er stefnt að árshátíð á Akureyri í haust, það verður stuð.

Í gær unnum við Óli stórvirki. Við tókum til í geymslunni! Fylltum átta stóra ruslapoka og meira til. Mikið var gott að klára þetta verk af. Nú er geymslan ofursnyrtileg og maður missir ekki geðheilsuna við það eitt að koma þar inn. Fórum svo þrjár ferðir í Sorpu í dag. Næst á dagskrá er að taka til í íbúðinni og setja dót niðrí geymslu 😉

Í gærkvöldi hélt Hjördís uppá afmælið sitt. Hún bauð uppá rosa góða smárétti og freyðivín. Það var gaman að hitta „bókasafnsfræðinördana“, verst að Danna vantaði. Við gáfum Hjördísi myndavél og núna verður hún vonandi dugleg að dæla inn myndum á síðuna sína.

Sæl að sinni. Góða nótt :o*

Helgin

Helgin hjá mér var mjög góð.

Hélt ljómandi gott stelpupartý hérna heima á föstudagskvöldið. Var með opinn bar (þar sem áfengi á það til að safnast upp hjá mér) en annaðhvort var magnið svo mikið eða stelpurnar svo penar að ég sé fram á að geta haldið mörg partý áður en áfengið klárast. En það er svosem ekkert nema jákvætt enda stendur til að endurtaka þetta við tækifæri 🙂 Eftir mikið spjall og drykkju var svo haldið á Hressingarskálann (hvenær skyldi ég ná að djamma annarsstaðar en á Hressó?).

Á laugardaginn hafði ég það svo bara náðugt heima. Um kvöldið hélt ég svo í pizzu- og evróvisjónpartý til Guðrúnar og Friðbjörns (vina Svenna bró og Hrannar). Þar var Hrönn mágkona og fleiri úr árgangi ’77 úr Nesskóla (t.d. tveir mjög öflugir bloggarar). Evróvisjónið var hæfilega hallærislegt eins og venjulega en þær Ólína og Lilja Fanney fengu þó meiri athygli en söngstjörnurnar…enda kunnu þær mun fleiri partýtrix en evróvisjónliðið 🙂

Sunnudagurinn var svo voða rólegur. Skruppum aðeins í Smáralind og eyddum næstum engum peningum. Svo hitti ég Hrönn á Culiacan og við fengum okkur mexíkanskan. Um kvöldið horfði ég á Allir litir hafsins eru kaldir (missti ég af einhverju eða kom einhver skýring á titlinum) og fannst þetta bara ljómandi góð þáttaröð. Svo gerði ég mér lítið fyrir og tók til í öllum fatahirslum heimilisins og baðskápunum. Það var ljómandi skemmtilegt og auðvitað komst ég að því að ég á fullt af fötum!

Snjór, vinna, jóga (oh no, not again), þrif og Gettu Betur

Í dag tók ég strætó fjórum sinnum og labbaði heilmikið í snjónum. Mig grunar að skórnir mínir fari ekki vel út úr því. Mér finnst eitthvað indælt við snjóinn, finnst næstum notalegt að verða blaut í fæturna og verða svo kalt á lærunum að það svíður. Finnst æði að ganga úti í hríðinni. Elska að sitja í strætó með eplarauðar kinnar og hlusta á Immigrant song.

Fór á fund í morgun (stundum er ekki vinnufriður fyrir fundum og námskeiðum (já, ok það var þess vegna sem ég fór í háskóla)). Henti svo nokkrum bókum eftir hádegið. Það er gaman…í hófi.

Fór í jóga og bíð spennt eftir morgundeginum, þ.e. bíð spennt eftir því hvort ég fæ harðsperrur.

Horfði á Allt í drasli þegar ég kom heim. Varð svo uppnumin að ég fór beint að þrífa baðherbergið eftir það (ekki að baðherbergið hafi verið allt í drasli, ég er ekki algjör sóði þó ég vaski sjaldan upp). Hlustaði á Gettu Betur meðfram þrifunum (í nýja eldhúsútvarpinu sem er svo fjölhæft að það gengur líka sem baðherbergisútvarp) og var ekkert sérstaklega hrifin. Semsagt ekkert mjög hrifin af Sigmari sem spyrli. Hann var svolítið stífur og alls enginn Logi (enda var svosem ekki við því að búast). En ég ætla að gefa honum sjens. Spurningarnar voru ágætar, ég gat svarað sumum.

Þvottahúsmál

Hvað er málið með fólkið sem er að þvo um miðjar nætur og það á prófatíma?
Hvað er málið með fólkið sem lætur þvottinn sinn hanga niðrí þvottahúsi í marga daga eða jafnvel vikur?
Hvað er málið með fólkið sem geymir óhreina tauið sitt í þvottahúsinu?
Hvað er málið með fólkið sem skráir sig ekki fyrir þvottavélinni?
Hvað er málið með fólkið sem gleymir þvottinum sínum í vélinni í marga tíma?
Hvað er málið? Er erfitt að fara eftir eðlilegum umgengisreglum í sameiginlegu þvottahúsi?