Greinasafn fyrir flokkinn: Kaupa

Matar- og kaffistell

Ég hef aldrei skilið hvers vegna verðandi brúðhjón langar mest af öllu í rándýrt matar- og kaffistell í brúðargjöf. Það virðist bara vera kvöð á verðandi brúðhjónum að fara í næstu rándýru búsáhaldaverslun og velja sér eitthvað matar- og kaffistell og setja á svokallaðan gjafalista.*

Ég fór semsagt í Europris eftir vinnu og fann þar drauma hversdags matarstellið. Erum búin að leita mikið í mörgum búðum að hentugum diskum, bæði litlum og stórum en höfum ekkert fundið fyrr en nú. Vona bara að Óli sé sammála mér um ágæti þessa stells 😉  4 manna stellið (stórir diskar, litlir diskar, djúpir diskar, bollar og undirskálar) kostaði eins og hálfur diskur úr rándýru stelli.
Ég keypti líka viðbót við kaffistellið okkar, svo nú eigum við 12 manna kaffistell. 6 manna stellið kostaði líklega svipað og tæplega einn bolli úr rándýru stellunum.
En það er ekkert að marka mig, ég fann draumahnífapörin í Bónus 🙂

Ég skrapp líka á gamla góða bókasafnið mitt, las slúður og tók bækur eftir Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson.

Í lokin má svo geta þess að við Óli erum ekki að fara að gifta okkur á næstunni en ef og þegar þar að kemur þá langar okkur bara í eitthvað skemmtilegt í brúðargjöf. Er það ekki Óli?

*Ok, kannski langar einhverja í alvöru í svona voða fín stell 😉

Bistróflug

Ég straujaði kortið mitt í gríð og erg í gær, liggjandi uppí sófa.  Ég pantaði mér áskrift að Bistró, nýja matarblaðinu. Ég er algjör uppskriftasjúklingur þó ég eldi sjaldan eftir þeim, kannski þegar ég verð stór. Svo pantaði ég mér áramótaflug til Vopnafjarðar. Jibbý. En það er eins gott að ég þarf ekki að borga fyrir fæði og húsnæði því flugið kostaði mig 24.340 kr. og þeir kalla þetta sparsæti!

Obladi Oblada

Þetta var hreint ágætur dagur. Merkilegt nokk.

Það er rólegt í vinnunni þessa dagana. Verið að uppfæra Gegni og þess vegna getum við lítið gert í vinnunni nema segja: „Því miður, við getum ekkert gert fyrir þig“. Það er samt hægt að skila bókum og fá bækur lánaðar.

Fór klukkutíma fyrr úr vinnunni og spókaði mig í bænum með Rósu. Fékk auðvitað kaupæði. Keypti jakka og tvo boli í Flash og skó af götusölukonu. Þetta kostaði ekki nema tæpan 10.000 kall allt saman. Rósa greyið keypti ekkert nema þurrkaða ávexti. Mér fannst reyndar fyndið hvað ég vanmat hæðina á Rósu. „Hva, ertu nokkuð nema svona einnogsjötíu?“ „Uuu, ég er reyndar einn sjötíuogsjö“. Svona er ég nú stór, ég tek ekkert eftir því þó fólk í kringum mig sé hávaxið.

Svo fór ég til Heiðu. Borðaði samloku og kók hjá henni og við spjölluðum og gláptum á sjónvarpið.

Núna er ég að horfa á Magni Rockstar: Supernova. Mikið er ég stolt af honum. Hann er alveg að brillera þarna. Svo er hann svo góður við alla. Er eiginlega eins og hann sé pabbi allra hinna. Ég á mynd af Magna sem er tekin á Eiðum 1997. Ætli hún sé ekki mikils virði í dag 😉 En ég verð að viðurkenna að ég var mikill aðdáandi Magna meðan hann var í Shape. Alltaf gaman að sjá æskugoðin verða að stórstjörnum…eða eitthvað.

Jæja, best að einbeita sér að sjónvarpinu. Ógeðslega er gaman að horfa á þennan þátt, svo skemmtileg lög og góðir söngvarar.

Góða nótt

Innkaup

Afrekaði nú ekki margt í dag. Afrekaði þó að kaupa mér Ecco inniskó (loksins, búin að vera á útiskónum í vinnunni í 4 mánuði), eldhúsútvarp (til að geta hlustað á Gettu betur), skyndihjálparbók í bílinn (svo ég geti bjargað mannslífum á ferðum mínum um landið) og fleira smálegt…

Við elduðum svo kjúkling í kvöld og vöskuðum upp (já, það telst til tíðinda!)

Góða nótt