Greinasafn fyrir flokkinn: Nördismi

Stjörnufræði og stjörnuskoðun

Ég var á stjörnuskoðunarnámskeiði í gærkvöldi og fyrrakvöld. Það var gaman. Helmingurinn af námskeiðinu fjallaði um stjörnusjónauka og hinn helmingurinn um það sem sést á himninum og það sem sést ekki; tunglið, reikistjörnur, sólir, vetrarbrautir, gasþokur, stjörnuþyrpingar og so videre. Komst að því að það er ýmislegt smálegt sem mig vantar fyrir stjörnuskoðunina t.d. tösku fyrir kíkinn, rautt vasaljós, laser til að benda á stjörnur, sólsíu og 32 mm augngler. En ég held ég láti stjörnuljósmyndun alveg eiga sig enda til nóg af slíkum nördum á landinu. Núna kann ég nokkurnveginn að stilla kíkinn, þarf bara að leggjast í stífar æfingar til að ná góðum tökum á honum en sennilega viðrar nú ekki til þess um helgina. Mér skilst reyndar að það sé afskaplega gagnlegt að kíkja á stelpurnar í næsta húsi til að ná tökum á því að nota stjörnusjónauka 😉

Skemmtilegri parturinn af námskeiðinu voru fyrirlestrarnir frá Sverri og Kára. Mér finnst allar pælingar um allt þetta dótarí þarna úti stórkostlegar. Mér finnst þetta stundum hljóma frekar eins og eitthvað ævintýri heldur en raunveruleiki. Ísland er stórt. Ég á aldrei eftir að sjá það allt. Jörðin er stór. Ég á ekki eftir að sjá nema lítið brot af henni. Sólkerfið okkar er risastórt. Vetrarbrautin okkar er hjúts en hún er bara pínkuponsupartur af alheiminum.

Áhugi minn á stjörnufræði kviknaði þegar ég var að læra jarðfræði haustið 2001 í FÁ. Þegar ég gerði mér grein fyrir því að Júpíter og Satúrnus hefðu ekkert eiginlegt yfirborð eins og jörðin þ.e. væru gashnettir var áhugi minn vakinn. Það er svo margt stórfenglegt þarna úti, svo stórfenglegt að maður verður reglulega á svipinn eins og Carl Sagan í Cosmos 😉 Í framhaldinu las ég mér slatta til og gekk í Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness. Svo gerðist nú frekar lítið í nokkur ár nema að ég las póstlista Stjörnuskoðunarfélagsins og glápti annaðslagið uppí himininn. Þegar ég varð 22 ára fékk ég Íslenskan stjörnuatlas í afmælisgjöf frá mömmu og pabba. Ég las inngangskaflanna en nennti lítið að setja mig inní kortin. Las líka eitthvað af bókum af bókasafninu um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Þegar ég varð 23 ára tókst Óla að koma mér alveg svakalega á óvart og gefa mér stjörnusjónauka í afmælisgjöf. Við vorum dugleg að fara með hann út fram á vorið. Fórum einu sinni á Þingvöll og einu sinni í sumarbústað en oftast fórum við bara með hann hérna útí garðinn. Það sem við skoðuðum oftast var Satúrnus og Tunglið.
Síðasta vetur var kíkirinn bara inní stofu og safnaði ryki. En hann fékk að fara til Krýsuvíkur núna í haust.

Núna er svo bara að sökkva sér í lestur á Nútímastjörnufræði sem ég keypti á námskeiðinu og vonast eftir betra veðri.

Stjörnuskoðun

Ég eyddi kvöldinu í að sinna nördalegasta áhugamálinu mínu, stjörnuskoðun. Ég fékk stjörnusjónauka í afmælisgjöf frá Óla þegar ég varð 23 ára. Ég notaði hann svolítið þá en svo ekkert allan síðasta vetur (nema bara til að dást að honum inní stofu).
Við Sverrir Guðmunds vorum samferða til Krýsuvíkur þar sem við hittum fleiri stjörnuglópa. Frekar fyndið að hitta hóp af fólki sem maður þekkir ekki og sjá ekki neitt. Stefni að því að mæta á félagsfund hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness fljótlega og sjá framan í þessa gaura.
Ég var í svolitlum vandræðum með sjónaukann af því að miðið á honum virkar ekki sem skyldi en með góðri hjálp sá ég nú samt ýmislegt, t.d. Mars og sjöstirnið. Rétt áður en við fórum stillti Grétar? fyrir mig sjónaukann og núna veit ég betur hvernig hann virkar og hef einhverja glóru um það hvað allar þessar skrúfur og stillingar gera. Stefni að því að eyða morgundeginum í að kíkja á nágrannana 😉 Ætla líka að kíkja í stjörnuskoðun aftur fljótlega og jafnvel fara á stjörnuskoðunarnámskeið sem verður í janúar.

Niður með friðarsúluna!

Flokkum og skilum

Ég fékk svolítið æði í gærkvöldi og fór að skoða www.sorpa.is. Og nú er ég komin með flokkunaræði (ekki eftir Dewey samt). Það er nefnilega hægt að flokka og skila meginu af sorpinu.

Flestir vita að hægt er að skila flöskum og dósum og fá 10 kall fyrir stykkið og að hægt er að skila rafhlöðum og öðrum spilliefnum en vissir þú að það er hægt að flokka…
-dagblöð og pappír (það væri hægt að framleiða klósettpappír fyrir alla Íslendinga með þeim pappír sem nú þegar er skilað)
-fernur og pappa (t.d. utan af morgunkorni og kexi)
-bylgjupappa (t.d. pizzukassa)
-málm (t.d. niðursuðudósir, álpappír og krukkulok)
-gler og postulín (t.d. krukkur)
-plast (t.d. jógúrtdósir, plastbakkar, plastpokar og sósuflöskur)
-kertavax
-föt og klæði (líka slitin föt, rúmföt, handklæði og fleira)
-skó
-endurnýtanlegt dót (sem er svo selt í Góða hirðinum)
-timbur
-rafeindatæki
-hjólbarðar

Svo að ég er á leiðinni í IKEA að kaupa þrjár ruslafötur – eina fyrir gler, eina fyrir málm og eina fyrir plast. Endurvinnsla rokkar!

Skjölin lifna við

Við Óli eyddum laugardeginum okkar á afskaplega heilbrigðan hátt. Við fórum á ráðstefnu sem haldin var á vegum Borgarskjalasafns, Sagnfræðingafélagsins og Sögufélagsins í tilefni af 50 ára afmæli Borgarskjalasafns. Þar voru fluttir sex fyrirlestrar, þar af einn sem fluttur var af besta og frægasta bloggara landsins. Fyrirlestrarnir voru svona misáhugaverðir en í heild var þetta mjög skemmtilegt. Salurinn var fullur af fólki í eldri kantinum, svo að við Óli drógum meðalaldurinn niður um þónokkuð mörg ár.

Jóhanna, aðdáandi minn nr. 1 (er það ekki annars? :)), var fundarstjóri. Hún var svo einstaklega heppinn að þurfa að reyna að hafa hemil á Pétri Péturssyni (fyrrverandi þuli) í fyrirspurnatímunum. Pétur var nefnilega ekkert að spyrja um neitt sérstakt heldur bara að miðla af viskubrunni sínum og hann gat haldið endalaust áfram. Kallinn er reyndar mjög skemmtilegur en þetta var kannski ekki alveg viðeigandi þarna.

Í hléinu var svo boðið uppá úrvals veitingar, tertur og smurt brauð. Ég fékk mér þrjár sneiðar af meiriháttar góðu brauði, það var smurt með sinnepi og áleggið var kjúklingabringa, beikon, laukur og baunaspírur…þvílíkt nammi! Og svo fékk ég mér eina sneið af tertu sem var líka mjög góð.

Sem sagt undarlegur en góður laugardagur. Kvöldinu verður svo eytt í Popppunktsgláp og lærdóm.

Gettu Betur

Við höfum eytt kvöldinu í að hlusta á Gettu Betur(við ættum kannski ekkert að kaupa nýtt sjónvarp). Það er gaman. Ég er alltaf svo ánægð þegar ég næ að svara einhverju, sérstaklega ef ég næ að svara einhverju á undan Óla eða þegar hann veit ekki svarið. Yfirleitt er það vegna uppruna míns sem ég get svarað einhverju fram yfir Óla. Náði t.d. að svara spurningu um Stefán Stórval frá Möðrudal áðan 🙂 Á meðan Óli bara yppti öxlum.

Ég hef alltaf haft ákaflega gaman af Gettu Betur, þó að lengst framan af hafa litlu sem engu getað svarað(og ekki get ég svarað miklu í dag). Ég vakti eitt sinn ákafa hneykslan meðal vinkvenna minna þegar ég ákvað að sleppa diskóteki fyrir Gettu Betur 😉 Þegar ég var yngri fylgdist ég nú yfirleitt bara með keppninni í sjónvarpinu en í seinni tíð er ég orðin spennt fyrir útvarpskeppninni líka. Þetta árið spillir ekki fyrir að Stefán Pálsson er spurningahöfundur og dómari 🙂