Greinasafn fyrir flokkinn: Pælingar

Hvað kostar útlitið?

Hvað ætli meðalkonan á Íslandi eyði í útlitið á ári? Við erum að tala um skuggalega háar tölur.

Það vantar eiginlega alveg í mig pæjugenið. Ég geri lítið í því að líta vel út. Ég hef enga sérstaka ánægju af því að snyrta mig til. Reyni þó að vera þokkalega snyrtileg og vildi stundum að ég hefði jafn mikinn metnað í þessum málum og margar kynsystur mínar.

Ég var aðeins að slumpa á það hvað ég eyði á ári í snyrtivörur (hársnyrtivörur, krem, maskara, gloss og þannig) og snyrtiþjónustu (klippingu, plokkun og litun, fótsnyrtingu og þannig). Þessi tala yrði sennilega aldrei undir 90 þúsund krónum. Samt fer ég bara 2-3 á ári í klippingu og þá yfirleitt á stofur í ódýrari kantinum, hjá frænkum mínum á Norðfirði eða hjá vinkonu minni sem klippir heima. Ég fer ca. 3 á ári í plokkun og litun á stofu. Ég fer ca. einu sinni á ári í eitthvað snyrtistofudekur eins og fótsnyrtingu eða handsnyrtingu. Ég kaupi afskaplega lítið af farða, ca. 1-2 maskara á ári, kannski 2-3 gloss, 1 meik og svo eitthvað smotterí umfram það. Ég kaupi ódýr krem og kaupi oftast sjampó og hárnæringu í Bónus en kaupi samt 1-2 á ári einhverjar fínni hárvörur á stofum. Svo er ýmislegt fleira sem þarf að kaupa til að líta þokkalega út. Þetta kostar mig lágmark 90000 kr. á ári, það er eins og ein ágætis utanlandsferð. Ég myndi giska að meðalkonan á Íslandi eyði ekki minna en 200000 kr. á ári í þetta því eins og áður sagði er ég einstaklega lítil pæja og kaupi ódýrar snyrtivörur. Algengt verð fyrir klippingu og litun/strípur er t.d. á bilinu 15-18 þúsund og ef maður fer á tveggja mánaða fresti þá gerir það eitt og sér a.m.k. 90 þúsund krónur á ári. 

Og svo þarf að kaupa föt, fylgihluti og skartgripi. Ég giska að ég eyði svona 150 þúsundum á ári í þessa hluti. Varðandi fataval er ég líka mjög lítil pæja, kaupi oft föt á útsölum og dýrasta flíkin sem á ég kostaði sennilega um 10.000 kr. Flest fötin mín eru keypt í Next, Hagkaup og H&M. Ég á ekki fleiri en 15 skópör og ég er yfirleitt alltaf í sömu skónum. Það vantar líka í mig skógenið.
Ég giska að venjuleg íslensk kona eyði um 300 þúsundum á ári í föt, fylgihluti og skartgripi.

Niðurstaðan er því að ég eyði um 240 þúsundum á ári í útlitið. Það er afskaplega lítið miðað við allt, samt finnst mér það hellingur því það má gera ýmislegt skemmtilegra eða gagnlegra fyrir þennan pening. Mitt gisk er að meðalkona á Íslandi eyði um hálfri milljón á ári í útlitið og það er sennilega frekar varlega áætlað.

Hvað eyðir þú miklu í útlitið?

Vopnfirðingur, Þorparinn og saga Vopnafjarðar

Þegar ég var ca. 13 ára var gefið út blað á Vopnafirði sem hét Vopnfirðingur. Mig minnir að Sigrún Odds og Hafþór Róberts (bæði kennararnir mínir til margra ára) hafi haft veg og vanda að því. Það var gaman að hafa blað sem fjallaði bara um það sem var að gerast á Vopnafirði. Þessi blöð eru eflaust til á mörgum vopnfirskum heimilum niðrí geymslu eða uppá háalofti Ég var að athuga hvort þetta blað væri einhversstaðar til skráð í Gegni en svo er ekki. Ætli þessi blöð séu ekki til á Bókasafni Vopnafjarðar og Þjóðdeild Landsbókasafnsins?

Núna er gefið út blað með svipuðu sniði á Vopnafirði. Blaðið heitir Þorparinn og er gefið út hálfsmánaðarlega. Fyrrnefndur Hafþór Róberts gefur blaðið út. Hann á mikið hrós skilið fyrir það. Ég er búin að renna í gegnum nokkur blöð núna og þetta er mjög gott og þarft blað. Ég er búin að lesa mér til um margt merkilegt sem er að gerast á Vopnafirði þessa dagana og mánuðina. Svo ég nefni dæmi er nýbúið að opna hérna nýtt gistiheimili þar sem einnig er boðið uppá sjóstangveiði og hákarlaveiði fyrir ferðamenn, Ungmennafélagið Einherji er búið að fá glæsilega félagsaðstöðu og fjölskyldan í Háteigi er búin að standa í gríðarlegi uppbyggingu á kúabúinu sínu. Ég prófaði líka að leita að Þorparanum á Gegni en fann ekkert. Það er afskaplega mikilvægt að varðveita þessi blöð svo þau verði aðgengileg fyrir almenning og fræðimenn, bæði núna og í framtíðinni.

Ég skrifaði færslu í maí í fyrra um nauðsyn þess að skrifa meira um Vopnafjörð. Heyrði einhversstaðar að það væri komið á dagskrá að skrifa sögu Vopnafjarðar, man bara ekki lengur hver var að tala um það. Nýlega er komin út Norðfjarðarsaga eftir Ögmund Helgason, ég er búin að lesa töluvert af henni og hugsaði reglulega um hvað það væri gaman ef það væri til sambærileg bók um Vopnafjörð. Það hefur nefnilega heilmargt merkilegt gerst á Vopnafirði og er enn að gerast.

Nátthrefna

Mikið væri gott að geta alltaf vakað fram á nótt og sofið fram eftir morgni. Ég hef sagt það áður og stend við það að ég er nátthrafn. Ég er viss að ég næði bestum afköstum í vinnunni ef ég gæti unnið milli 8 á kvöldin og 4 á nóttunni. Verð að koma sólarhringsopnun að í næstu starfsáætlun Borgarbókasafnins.

Mig langar voðalega til Vopnafjarðar núna. Það koma tímabil þar sem ég sakna þess virkilega mikið að eiga ekki fjölskyldu í nágrenninu, og ekki tengdafjölskyldu heldur. Læt mig dreyma um hvað það væri nú gott að geta farið í mat til mömmu og pabba eða skroppið til ömmu og afa til að spila og fá súkkulaðirúsínur og kók.
Það skiptir mig þess vegna verulegu máli að eiga góða vini.

Ég er að verða föðursystir í janúar. Ég hlakka mikið til. Er að upphugsa leiðir til að verða uppáhaldsfrænka. Harpa móðursystir, þetta verður hörð samkeppni! 😉
Er að plana að fara austur í febrúar eða mars og vera í nokkra daga til að knúsa litla krúttið. Lítil börn eru ekkert hversdagsleg fyrir mér.

Óli er að útskrifast á laugardaginn. Þá verður hann líka bókasafns- og upplýsingafræðingur. Veislan verður á sunnudaginn. Er bjartsýni að bjóða 30-40 manns í 80 fm íbúð? Nei, það finnst mér ekki 🙂

Kannski maður ætti að fara að sofa. Ætla fyrst að lesa. Er að lesa seinni hlutann af Persepolis sem við Óli fengum í afmælisgjöf frá Ásgeiri í vor. Las fyrri hlutann strax en hef svo ekki gefið mér tíma í seinni hlutann fyrr en núna. Þetta eru æðislegar bækur.

Góða nótt!

?

Vopnafjarðardagarnir eru síðustu helgina í júlí. Ætti ég að fara?

Ég er að fara í klippingu á miðvikudaginn í næstu viku. Ég ætla ekki að fá mér neinn lit eða strípur í þetta skiptið og spara mér þannig slatta pening. Hef komist að þeirri niðurstöðu að hárið á mér sé fallegt á litinn. Svo ég þarf bara að pæla í klippingunni í þetta skiptið. Einhverjar tillögur?

Mamma og pabbi eru komin og farin til Skotlands. Hef fengið SMS frá þeim með lýsingum á góðu veðri og stöðum í Edinborg og þá hef ég öfundast svolítið út í þau. Mig langar til Edinborgar. Það er alveg á hreinu að þangað verð ég að fara aftur…fyrr en síðar. Hver vill með?

Lifið heil!

Bláklukka

Jæja, þar kom að því að ég var klukkuð, búin að bíða eftir því síðan 2. ágúst!

En hér koma 5 staðreyndir um mig:
1. Mér finnst gaman að fletta auglýsingabæklingum.
2. Ég sakna þess að hafa ekki fjölskylduna mína nær mér. Stundum væri gaman að geta boðið mömmu og pabba í kaffi eða skroppið í stutta heimsókn til ömmu og afa.
3. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að spjalla við Óla.
4. Ég safna uppskriftum, hef gaman af því að skoða uppskriftir en ég elda mjög sjaldan eftir uppskriftum.
5. Draumalöndin mín eru Færeyjar og Indland.

Ég klukka Ollu, Ásgeir, Ingibjörgu, Sigga og Jóhönnu. Koma svo!

Fordómar

Ég ÞOLI EKKI fordóma höfuðborgarbúa gagnvart landsbyggðarfólki og ég ÞOLI EKKI fordóma landsbyggðarfólks gagnvart höfuðborgarbúum. Mér finnst eins og allt íslenska samfélagið sé gegnsýrt af þessum fordómum, allavega er ég hvað eftir annað að rekast á þessa fordóma.

Ég varð fyrst vör við svona fordóma þegar ég var 11 ára. Þá var í heimsókn hérna í Reykjavík og var í afmæli hjá litlum frænda mínum. Þar var einhver eldri kona sem hélt því fram að það hlýti nú bara að vera eins og að fara til útlanda…fyrir mig að koma til Reykjavíkur! Jújú…vissulega er fleira fólk hérna, fleiri hús, fleiri bílar, fleiri búðir o.s.frv. en þetta er ekki eins og fara til útlanda. Þegar ég var 11 ára hafði ég reyndar aldrei farið til útlanda…en mér fannst þetta svo mikil fásinna…að ég er eiginlega ekki búin að jafna mig ennþá.
En það eru margir sem virðast halda að Vopnafjörður og Reykjavík séu ekki í sama landi.

Ég gæti tjáð mig endalaust um þetta…en læt þetta duga í bili.

Óspennandi blogg

Jæja, nú er það einn eitt hlutaprófið í aðferðafræði sem er á dagskrá…og ég auðvitað á síðustu stundu eins og venjulega…er reyndar kannski óvenju tímanlega í þetta skiptið, er byrjuð að læra núna og prófið er ekki fyrr en á laugardag.

Var annars aðeins að skoða bloggið…og vá hvað það er óspennandi!
Samkvæmt blogginu þá geri ég varla annað en að læra, taka til og vera veik. Svo kemur einstaka sinnum fyrir að ég skrifi um e-ð sem er í sjónvarpinu eða um tónlist. Það gerist líka æ sjaldnar að ég skrifi e-ð um vini eða vandamenn.

Ég vil bara láta ykkur vita að bloggið gefur ekki raunsanna mynd af lífi mínu! Ég lifi mjög skemmtilegu og innihaldsríku lífi. Ég bara virðist ekki hafa þörf fyrir að skrifa um það sem mér finnst skemmtilegast. Spurning hvort ég ætti að reyna að bæta úr því…?

Lifið heil!

Rútínuleysi og of mikill tími

Mér finnst það ansi hreint merkilegt en þessa dagana þrái ég ekkert heitar en að vera í vinnu eða skóla með skyldumætingu eða að hafa fasta íþróttatíma eða eitthvað álíka. Mig er farið að vanta einhverja svona fasta rútínu, vantar einhvern/eitthvað sem bíður eftir mér á ákveðnum stað á ákveðnum tíma. Kannski er það bara vegna þess að núna get ég nokkurnveginn ráðið tíma mínum sjálf…og þegar ég verð komin í rútínu þá fer ég að þrá frelsið. Rosalega er erfitt að sjá alltaf græna grasið hinu meginn.

Sé fram á það að þurfa að taka málið föstum tökum, búa mér til rútínu og koma reglu á líf mitt. Núna er ég t.d. farin að finna að líkami minn hrópar á hreyfingu en mikið hrikalega er nú erfitt að koma sér af stað. Eigum samt pantaðan badmintontíma á morgun svo að þetta er aðeins í áttina.

Hugsa að ástæðan fyrir litlu bloggi undanfarið sé hreinlega sú að ég hef haft of mikinn tíma til að blogga, þ.e. þegar maður hefur nóg af og alltof mikinn tíma þá kemur maður litlu sem engu í verk.

Óskalisti

Núna er ég að reyna að klambra saman óskalista. Því fylgir mikil ábyrgð og miklar pælingar. Það er nefnilega ekki nóg að langa til að sjá mynd eða lesa bók…heldur verður mann virkilega að langa til að eiga myndina eða bókina.
Svo eru sumir hlutir sem er hreinlega ekki hægt að biðja um að gjöf, því ég er svo hrikalega sérvitur varðandi suma hluti, t.d. langar mig í hnífaparasett(hnífapörin okkar eru vægast sagt skrautleg) en þar sem ég hef mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig þau eiga að vera þá treysti ég engum til að kaupa þau handa mér.

En óskalistinn verður gefinn út á morgun, ég þarf aðeins að spá meira í þetta áður en hann verður publishaður. Bíðið spennt…

Ólíkar skoðanir

Ég á stundum rosalega erfitt með að skilja fólk sem hefur aðrar skoðanir en ég eða fólk sem hugsar öðruvísi en ég eða gerir hlutina öðruvísi en ég. Þetta er vissulega galli á mér. Ég get samt alveg virt það að fólk sé öðruvísi en ég; hafi aðrar skoðanir, hugsi öðruvísi og geri hlutina á annan hátt, en ég en að ég geti skilið það er oft fjarri lagi. Ég á það sem sagt til að halda að mínar skoðanir, mínar hugsanir og mínar gerðir séu þær einu réttu og þess vegna á ég líka erfitt með að viðurkenna að ég hafi rangt fyrir mér og erfitt með að taka gagnrýni. En það er ekki þar með sagt að ég skipti ekki um skoðanir eða geri hlutina öðruvísi næst.
Bara smá pæling…