Greinasafn fyrir flokkinn: Pólítík

120 milljónir á ári

Það kostar ríkið um 10 milljónir á mánuði eða um 120 milljónir á ári að hækka launin við ljósmæður svo þær fái sæmandi laun. Það eru ekki miklir fjármunir í stóra samhenginu. Hvað ætli mörgum 120 milljónum sé eytt á hverju ári í vitleysu eins og handboltaferðir menntamálaráðherra?

Ég hugsa að viðsemjendur séu setji þessar milljónir ekki fyrir sig. Ég hef grun um að þeir hræðist afleiðingarnar, þ.e. að aðrar kvennastéttir taki uppá því að feta í fótspor ljósmæðra og krefjast leiðréttingu sinna launa.

Bústaður, vírusvörn, Ken og mútta

Ég fór í bústað með saumaklúbbnum um helgina. Fórum í Brekkuskóg. Það var ferlega gaman. Við gerðum allt sem maður á að gera í bústað; fórum í gönguferð (reyndar afskaplega stutta), gúffuðum í okkur nammi, hlustuðum á eðalmúsík (ég er rebell, tekex og kremkex) elduðum góðan mat (sem kostaði alveg 300 kall á mann), láum í heita pottinum, spiluðum og sváfum út (og sumir nánast úti).

Danni kíkti til mín á mánudagskvöldið og ég reddaði vírusvörninni á tölvunni hans (reyndar með góðri hjálp frá Írlandi) og svo átum við snakk og kók (hér á bæ eru sko allir dagar nammidagar) og spjölluðum um skjalastjórn 🙂

Í gær fór ég í fyrsta skipti á áhorfendapallana í Ráðhúsinu og sá þar Ken taka við borginni og ég er ekki frá því að ég hafi séð Glanna glæp bregða fyrir.

Í dag kom svo múttan mín til borgarinnar. Borðaði með henni í Kringlunni í hádeginu og sleppti henni lausri þar á meðan ég kláraði vinnudaginn. Fór svo með henni í fleiri búðir og enduðum á að borða í Smáralind (þetta útálandilið hangir bara í búðum þegar það kemur til borgarinnar). Óskaplega gott að fá svona fjölskyldufélagsskap.

Góða nótt!

Landsfundur…eða ekki?

Er að reyna að gera upp við mig hvort ég á að fara á landsfund UVG um helgina. Dagskráin er spennandi t.d. munu þrír helstu leiðtogar lífs míns flytja ávörp milli 9 og 10 á laugardagmorguninn; Auður Lilja, Biggi Baldurs og Stebbi Páls. En þá er náttúrlega allt eðlilegt fólk steinsofandi…

En svo er bara svo margt annað skemmtilegt í boði um helgina. Það er erfitt að hafa val.

Þróunarríkið Kárahnjúkar

Hvað er málið með Kárahnjúka? Eru engar öryggiskröfur gerðar þar?  Finnst mönnum bara eðlilegt að fjöldi fólks láti lífið við störf sín þar? Finnst mönnum bara eðlilegt að matareitrun komi upp þar aðra hverja viku? Er íslenska ríkinu bara nákvæmlega sama um fólkið sem vinnur þarna? Eru Kárahnjúkar ekki á Íslandi?

Ný ríkisstjórn

Jæja, þá erum við búin að fá nýja ríkisstjórn.

Ég hef áhyggjur af því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bæði menntamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið á sinni könnu. Ég er ein af þeim sem tel að allir eigi rétt á menntun og heilbrigðisþjónustu. Ég óttast að ef áform Sjálfstæðisflokksins um frekari einkavæðingu innan þessara málaflokka nái fram að ganga hafi sumir meiri rétt en aðrir.

Mér finnst Guðlaugur Þór ekkert hafa að gera í heilbrigðisráðuneytið. Illskrárri kostur hefði verið Ásta Möller. Hún hefur að minnsta kosti þekkingu og áhuga á þessum málaflokki. Guðlaugur Þór hefur bara áhuga á völdum.

Það er skandall að Björn Bjarnason sé enn við völd í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hvað þarf til að koma þessum manni frá? Fer hann ekki að komast á ellilaun? Enn meiri skandall er að hér sé yfirhöfuð kirkjumálaráðuneyti.

Geir er vinalegur en ekki traustsins verður.

Mér finnst það ekki byrja gæfulega fyrir landbúnaðarmálin hjá þessari ríkisstjórn. Fyrsta skrefið til að leggja niður íslenskan landbúnað felst í því að sameina landbúnaðarráðuneytið við sjávarútvegsráðuneytið.

Ég hefði viljað sjá fjármálaráðuneytið fara yfir til Samfylkingar.

Ágúst Ólafur er ekki metin að verðleikum innan síns flokks. Nú ætlar Ingibjörg bara að vera í útlöndum og láta Ágúst Ólaf sjá um skítverkin fyrir sig, samt verður hann bara varaformaður áfram.

Ég er ánægð að sjá Jóhönnu Sigurðardóttur í félagsmálaráðuneytinu aftur. Held að hún eigi eftir að gera góði hluti þar.

Ég veit ekki hvað mér að finnast um að búið sé að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í tvennt. Vonandi standa þeir við að styðja við sprotafyrirtæki. Vonandi þýðir þetta ekki að áliðnaðurinn komi til með að verða svo viðamikill á næstu árum að sérstakan ráðherra þurfi til að halda utan um hann.

Þórunn verður vonandi betri í umhverfisráðuneytinu en Jónína og Siv.

Ég er ánægð með að fá Kristján L. Möller í samgönguráðuneytið. Enn ánægðari var ég með að sjá Alla oddvita og Óla langa taka Kristján á eintal í beinni útsendingu aðeins örfáum mínútum eftir að tilkynnt var að hann yrði samgöngumálaráðherra. Vonandi þýðir það að hans fyrsta verk verði að klára veginn til Vopnafjarðar og bora gat í gegnum Hellisheiði.

Það olli mér vonbrigðum að Sjálfstæðisflokkurinn yki ekki hlut kvenna í ríkisstjórn en það kom þó ekkert sérstaklega á óvart. Virðist vera merkilega erfitt að finna hæfar konur innan þess flokks. Mér finnst það alltaf jafn niðurlægjandi fyrir aumingja ungu sjálfstæðiskonurnar þegar þær koma fram og segjast bara vilja sjá hæfasta einstaklinginn fá embættið. Við ungar vinstri grænar viljum það líka, en af einhverjum ástæðum eru miklu fleiri hæfar konur innan okkar raða, tilviljun?

Stjórnarandstaða og sveitin

Jey, við fáum að vera í stjórnarandstöðu með Framsókn. Bráðum verða Valgerður, Siv og Guðni bestu vinir mínir…og Eggert líka 😉

Ég er annars komin í fjörðinn fagra. Er búin að eyða deginum mestmegnis í fjárhúsunum. Voðalega gaman að sjá öll litlu sætu lömbin en mikið voðalega getur þetta stundum verið mikið bras.

Flugið hingað gekk vel, aldrei þessu vant. Engar tafir, engar bilaðar flugvélar og engin aukarúntur frá Þórshöfn. Eyddi biðinni á Akureyrarflugvelli í að lesa Bændablaðið. Að lesa bændablaðið er góð skemmtun. Sérstaklega smáauglýsingarnar.
Slóði óskast til kaups, þarf að vera staðsettur á Suðurlandi.
Ónýtt greiðslumark til sölu, einnig 12 ófengnar kvígur.
Já, bráðfyndið ef maður skilur ekki bændamál…og jafnvel líka þó maður skilji það.

Strætó

Fyrst hækka þeir fargjöldin, svo lengja þeir biðtímann! Er mér boðið í jarðarför strætókerfisins?

Hvað í ósköpunum eru Sjallarnir og Bingi að hugsa? Eru loftmengun og umferðarteppur ekki eitt af stóru málunum sem borgarstjórn Reykjavíkur þarf að horfast í augu við? Af hverju eiga almenningssamgöngur að skila hagnaði? Getum við ekki allt eins krafist þess að ráðherrabílarnir skili hagnaði?

Frá 1. júní verður staðan sú að það kostar 280 krónur að fara eina ferð með strætó og þeir ganga á 30 mínútna fresti. Þrjár spurningar fyrir meirihluta borgarstjórnar…
1. Er ykkur alveg sama um strætókerfið?
2. Berið þið enga virðingu fyrir tíma fólks?
3. Finnst ykkur þetta boðlegt fyrir ferðamenn?

Landsvirkjun og jafnrétti

Fór í vísindaferð með Þjóðbrók í Landsvirkjun í dag. Þar var kyrjaður fallegur svanasöngur um ágæti Landsvirkjunar. Jújú, vissulega stöndum við okkur vel miðað við mörg önnur ríki heimsins. Vissulega er betra að nota vatnsafl heldur en olíu og kol til að búa til rafmagn. Mér finnst samt algjör óþarfi að virkja jökulárnar okkar með tilheyrandi lónum sem fyllast af aur á „nokkrum árum“ (hef heyrt tölur á bilinu 80-400 ár). Mér finnst líka að við hefðum getað gert margt „skemmtilegra“ fyrir 100 milljarða en að byggja Kárahnjúkavirkjun.

En að öðru. Getur einhver lunkinn femínisti útskýrt fyrir mér hvað kynjuð fjárlagagerð og kyngreindar upplýsingar þýðir? Ég þarf sennilega að læra meira í kynjafræði. Femínistar skilgreina sig sem karl eða konu sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Ég velti því fyrir mér hvort að jafnréttissinni sé karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið ná og vill ekki gera neitt í því. Ég vil meina að ég sé jafnréttissinni og vilji gera eitthvað til að ná jafnrétti. En ég vil jafnrétti fyrir bæði kynin. Ég vil að þegar rætt er um kynfrelsi eigi það bæði við um kynfrelsi kvenna og karla. Ég vil að bæði karlar og konur sem verða fyrir heimilisofbeldi fái vernd. Ég vil úrræði fyrir bæði konur og karla sem stunda vændi eða eru seld mansali. Nú geri ég mér alveg grein fyrir því að konur eru í miklum meirihluta sem verða fyrir kynferðisofbeldi en karlar verða samt sem áður fyrir því líka. Við megum ekki gleyma því.
Ég vil miklu frekar jöfn réttindi fyrir bæði kynin heldur en kvenréttindi. Ég held að það skili okkur meiru. En kannski er ég bara eitthvað að misskilja…