Greinasafn fyrir flokkinn: Skólinn

Blogg

Jæja, þá er Óli útskrifaður og veislan búin. Útskriftin gekk vel og var ekkert alltof langdregin og leiðinleg. Veislan var góð. Það kom fullt af fólki. Óli fékk fullt af pökkum sem innihéldu m.a. 9 bækur, 1 DVD-mynd, 2 geisladiska og gjafakort í Kringluna. Við vorum með alltof mikið af kökum og allir óverdósuðu á sykri en ég held að fólk hafi verið ánægt…eða allavega kurteist 😉 Svo ef einhvern langar í kökur þá eruð þið velkomin.

Ég er hætt í náminu í opinberri stjórnsýslu sem ég byrjaði á í haust. Var ekki alveg að höndla þetta endalausa samviskubit sem fylgir því að vera í skóla (allavega fylgir það mér í skóla), semsagt samviskubit yfir því að vera ekki að læra öllum stundum. En námið var að mestu leyti skemmtilegt, alveg á mínu áhugasviði og góðir kennarar svo ég er að hugsa um að byrja í þessu aftur seinna þegar mig fer virkilega að langa aftur í skóla.
En núna ætla ég að nýta tíma minn til að lesa meira (að eigin vali), hitta vini mína oftar og…blogga!

Daríræ

Ég er veik heima í dag. Er með hálsbólgu og hita. Það er fúlt. Vonast til að ná þessu úr mér sem fyrst, má ekkert vera að því að vera veik.

Við Óli áttum notalega helgi í sumarbústað í Brekkuskógi um síðustu helgi. Vorum voða dugleg að læra milli þess sem við elduðum okkur góðan mat og hengum í heita pottinum. Óli las einhverjar 500 blaðsíður en ég líklega ekki nema 50 en ég var samt dugleg að vinna í verkefninu sem er næst á dagskrá hjá mér. Mæli með svona lærdóms- og rólegheitahelgum í bústað.

Ég fór í próf á fimmtudaginn. Veit eiginlega ekkert hvernig það gekk en það kemur í ljós núna í vikunni. Þetta er eina prófið sem ég þarf að taka á önninni, restin eru „bara“ verkefni.

Það er spennandi dagskrá næstu helgar hjá mér. Landsfundur Upplýsingar um næstu helgi, sumarbústaðaferð Þjóðbrókar helgina þar á eftir og svo er Ólinn minn að útskrifast 21. október. Hann er búinn að fá einkunn fyrir BA-verkefnið og það var glæsileg nía. Hann er semsagt jafnklár og ég 😉

Sumarið hingað til…

Nú hef ég ekkert bloggað í næstum mánuð. Það er ennþá júní og komið enn meira sumar.

Við fórum til Akureyrar um hvítasunnuhelgina. Þar hittum við marga Óla-ættingja. 3 litlar frænkur (Kötlu krútt sáum við í fyrsta skipti), eina systur, 5 frændur, Siggu ömmu, Gunnþór afa og fleiri. Við förum orðið frekar sjaldan til Akureyrar, ég hafði ekki komið í rúmt ár núna (fyrir utan millilendingar á leið til Vopnafjarðar).

Ég fór á Snæfellsnes helgina 9.-12. júní. Amma, afi og Ásta Hanna voru þar í sumarbústað. Það var flennibjart og gott útsýni þegar ég kom á föstudagskvöldinu. Þoka og rigning laugardag og sunnudag. Hávaðarok á mánudeginum þegar ég fór heim aftur. Við gerðum þó ýmislegt þrátt fyrir leiðindaveður. Fórum til Ólafsvíkur og Stykkishólms og skoðuðum þar söfn og rúntuðum um bæina. Sáum rallýkrosskeppni á Hellissandi. Það fannst mér gaman. Svo fórum við í Bjarnarhöfn á Hákarlasetrið og þar voru líka sýnd töfrabrögð í kirkjunni. Hildibrandur er snillingur. Svo grillaði ég í einhverri mestu rigninu sem ég hef lent í. Það var áhugaverð reynsla. Ég verð að fara aftur á Snæfellsnesið fljótlega til að sjá meira.

17. júní helgina komu amma, afi og Ásta Hanna til okkar eftir vikudvöl á Snæfellsnesinu. Ég fékk að rúnta um með þau á stóra sjálfskipta jeppanum þeirra. Það var áhugaverð reynsla fyrir mig sem keyri alltaf um á litlum, beinskiptum bíl. Við fórum í búðir, í kaffi í Perlunni og heimsóknir. Svo grillaði ég, í aðeins betra veðri í þetta skipti. En það varð hálfgerð sviðasteik því það kviknaði í grillolíunni. En það var ekki nema ein sneið sem þurfti að henda.

Á fimmtudagskvöldið fór ég aftur í Perluna. Í þetta sinn með trúleysingum eins og Richard Dawkins, Dan Barker og Óla Gneista. Það var gaman. Það var frábært útsýni úr Perlunni þetta kvöld og gaman að sýna útlendingum borgina og nánasta nágrenni. Snæfellsnesið sást í heild sinni og alltaf finnst mér það jafn tilkomumikil sýn.

Helgin núna hefur verið frekar róleg hjá mér. Óli er á trúleysingjaráðstefnunni (og svífur um af hamingju) svo ég hef mestmegnis verið heima í rólegheitum. Sat út á palli að lesa í sólinni í gær. Það var notalegt. Náði að klára Kleifarvatn, held svei mér þá að ég hafi verið 2 mánuði að lesa hana, gat bara ekki lagt hana frá mér! Hún var svona ágæt, hefur lesið betri Arnaldarbækur. Byrjaði svo að lesa Hulduslóð eftir Lizu Marklund. Það er svona hörmungarævisaga. Hún lofar góðu, gengur allavega hraðar með hana en Kleifarvatn.
Í gærkvöldi fór ég í bíó með Hrönn vinkonu. Fórum að sjá Just my luck. Hún var hún frekar mikil froða. Alveg hægt að brosa að henni en hún skilur ekkert eftir. Svo fór ég til Sigrúnar og Viggós en þar voru Eva, Heiða og Sigga Steina. Svo fórum við í bæinn, ég, Heiða, Sigga og Hrönn en entumst nú ekki þar nema í tæpa tvo tíma. Alltaf finnst mér djammið jafnfyndið. Við stóðum í röð heillengi til að komast inn á Hressó þar sem var pakkað af fólki og eins að vera í gufubaði. Það var röð á klósettið, endaði svo á klósetti þar sem læsingin var biluð og vantaði klósettpappír (en það reddaðist með góðri hjálp frá Heiðu og Siggu). Það er annars ógeðslega fyndið hvernig svona raðir á skemmtistaði virka. Það er endalaust verið að taka fólk fram fyrir mann af því að einhver þekkir dyravörðinn eða eiganda staðarins eða eitthvað. Eins og maður væri tekin framfyrir í röðinni í Bónus. „Hey, ég þekki Jóhannes!, fariði frá!“ Undarleg menning þarna, hefur enginn stundað markvissar mannfræðirannsóknir í miðbæ Reykjavíkur um helgar?

Mamma og pabbi eru að koma á eftir. Þau fara svo til Skotlands á þriðjudaginn. Hlakka til að sjá þau. Ég er strax komin með verkefni fyrir þau. Mamma fær að hjálpa mér við að skipta á þessum tveimur blómum mínum á eftir. Svo ætla ég að fá pabba til að gefa okkur ráðleggingar varðandi grasfræ og áburð og eitur á tréð okkar. Það er nú eins gott að nýta sér það að fá þau í heimsókn 😉 Ég er svo í fríi á morgun svo ég get fundið fleiri verkefni fyrir þau…eða stjanað við þau. Sjáum til.

Annars er það helst að frétta af mér að ég er búin að skrá mig í nám í opinberri stjórnsýslu í Háskólanum. Þetta er 15 eininga diplómanám á mastersstigi. Ég tek þetta með 100% vinnu, tímarnir eru á morgnanna milli 8 og 10 svo það ætti að ganga upp. Þetta verður örugglega áhugavert, skilst að það sé mikið af fólki með mikla stjórnunarreynslu sem eru í þessu. Ég verð því væntanlega yngst og græninginn í hópnum (eins og venjulega) ;))

Annað sem er að frétta er að ég er farin að stunda sundlaugarnar, hef farið þrisvar í viku síðustu vikur og stefni að því að halda því áfram í sumar allavega. Við höfum verið að fara fyrir vinnu og það virkar bara ágætlega, nema að það er pirrandi þegar það eru sundæfingar því þá er lítið pláss til að synda. Ætlum kannski að prófa að skipta yfir í Breiðholtslaugina. Markmiðið er að synda a.m.k. kílómeter á viku.

Hafið það gott 🙂

Lista-Bakkalárus

Jæja, þá er útskriftin afstaðin. Ég er sumsé komin með Baccalaureus Artium gráðu í bókasafns- og upplýsingafræði. Eftir nokkra daga fæ ég svo leyfi frá Menntamálaráðuneytinu til að kalla mig bókasafns- og upplýsingafræðing (jibbý, enn eitt tilefni til að fagna). Útskriftardagurinn var góður. Athöfnin var hátíðleg, þó mér líði pínulítið eins og ég væri á færibandi. Veislan var fín, góð terta, fallegt freyðivín og skemmtilegt fólk. Takk allir sem glöddu mig á útskriftardaginn með heimsóknum, gjöfum og kveðjum 🙂

En núna er það bara „grár“ hversdagsleiki sem er tekinn við. Er þessa dagana aðallega að henda bókum í vinnunni, það er gott djobb (nú sýpur Óla frænka hveljur(hvað sem það nú þýðir)).

Jæja, best að fara að koma sér heim að skúra…haha!
Ykkar einlæg,
Eygló

Einkunn komin í hús

Jæja, kannski kominn tími á að ljóstra upp einkunninni góðu fyrir almenningi 🙂 Þó að Olla sé eiginlega búin að því 😉 Ég fékk semsagt að vita á föstudaginn hvað ég hefði fengið fyrir BA verkefnið mitt. Ég fékk 9 og er ljómandi kát með það. Á tímabili var ég jafnvel hoppandi kát með það í orðsins fyllstu. Samkvæmt mínum útreikningum er meðaleinkunnin mín þá 8,17 sem þýðir að ég er með fyrstu einkunn (7,25-8,99) svo að ég er ljómandi kát með það líka.
Eftir 11 daga er svo útskrift. Kannski komin tími á að ákveða hvað ég ætla að gera í tilefni þess og jafnvel bjóða fólki. Og jafnvel komin tími á að kaupa útskriftarföt. Ég fór allavega í útskriftarklippinguna í morgun og núna er ég algjör krulla.

BA – ritgerð

Tvö eintök af BA – ritgerðinni minni bíða þess að verða skilað á skrifstofu félagsvísindadeildar á morgun. Eitt eintak bíður þess að fá heiðurssess í einhverri bókahillunni á þessu heimili og enn eitt bíður þess að verða sent til Norðfjarðar.
Það er GÓÐ tilfinning að vera búin! Takk allir sem hjálpuðu til :*

Bloggtími

Já, það er sko greinilegt hvaða tími er hjá mér núna. Verkefna- og prófatími = Bloggtími.
Núna á ég bara eftir að gera þrjár greinargerðir af 27 um þjóðfræðidæmi. Og tók mig líka til að skrifaði 772 orð af hámark 1200 í verkefni sem við Óli eigum að skila á morgun.

En nú er komin svefntími enda klukkan orðin hálffimm og ég orðin svolítið steikt. Ef mér skjöplast ekki þarf bróðir minn að vakna eftir einn og hálfan tíma. En ég sef væntanlega bara fram að hádegi eins og venjulega.

Góða nótt

Fagleg úttekt á drykkjuleikjum

Ég er að reyna að skrifa gáfulegar greinargerðir um drykkjuleiki. Er búin með greinargerðir um flökkusögurnar og brandarana. Þetta nám sem ég er í er náttúrlega bara djók.

Fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér hvað drykkjuleikir, flökkusögur og brandarar koma bókasafns- og upplýsingafræði þá skal tekið fram að ég er líka að taka kúrsa í þjóðfræði. Sem er óggla skemmtilegt.

Skólinn búinn að eilífu?

Hæhó!

Í gær var síðasti skóladagurinn minn. School is out forever? Það finnst mér skrýtið. Ég hef verið í skóla samfleytt síðan haustið 1989, í 16 ár semsagt. En nú er komið nóg…í bili allavega.

En þó skóladagar mínir séu taldir þá er nóg eftir af skilaverkefnum, eitt próf og eitt stykki lokaverkefni. Svo að ég ætla að bíða aðeins með að fagna.

JÓLApróf

Ég er að fara í próf á morgun. Ég er hálfþunglynd yfir því. Mér finnst það mjög súrt að þurfa að vera að læra fyrir próf 20. desember. Eiginlega finnst mér Vopnafjörður, jólin og Svíþjóð vera hluti af einhverri fjarlægri draumsýn.

Mér er eiginlega bara orðið alveg sama um þetta próf, það fer aldrei verr en svo að ég þarf að lesa þetta aftur í ágúst og það er sem betur fer fjarlæg framtíð.

Jæja, það eru víst ekki nema 22 tímar í að þjáningum mínum ljúki. Best að vera duglegur við að þjást…

(Úff, talandi um lúxusvandamál!!!)